Einn sigur og eitt tap hjá stelpunumÍţróttir - Hafţór Hreiđarsson - Lestrar 260 - Athugasemdir ( )
Meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu hófu keppni í íslandsmótinu um nýliðna helgi með tveim leikjum. Sá fyrri var á Akranesi gegn ÍA og sá síðari gegn ÍBV út í eyjum. Völsungur vann ÍA en tapaði gegn ÍBV.
640.is hafði samband við Jóhann Kr. Gunnarsson þjálfara Völsungs og spurði hann út í leikina.
„Leikurinn við ÍA var bara mjög góður þrátt fyrir
að mikil spenna væri í mannskapnum þar sem þetta var fyrsti leikurinn okkar í mótinu. Það var þó augljóst strax í
leiknum að við ætluðum okkur að hirða öll stigin. Reyndar var leikurinn frekar jafn í byrjun og lítill tími gafst til að spila og byggja upp
sóknir. Eftir tvö góð mörk og rautt spjald á þeirra besta leikmann í fyrri hálfleik var sigurinn í raun ekki í neinni hættu.
Í seinni hálfleik börðust ÍA-stelpur meira og voru meira með boltann en í fyrri hálfleik. Þrátt fyrir þetta bættum við
tveim glæsilegum mörkum við og glæsileg byrjun í mótinu staðreynd. Mörkin gerðu Hafrún tvö og þær Harpa og Berglind eitt
hvor.“ Sagði Jói og greinilega ánægður með leikinn á Skaganum.
„Um leikinn við ÍBV er lítið annað að segja en það að Völsungsstelpur voru bara ekki í neinu standi til að taka tvo leiki í
sömu ferð suður. Þreyta, slen og leti einkenndu leikinn og því fór sem fór. Við hreinlega mættum ekki til leiks í eyjum og
uppskárum þrjú mörk í andlitið að launum í fyrri hálfleik. Það er greinilegt að þetta þarf að skoða vel
því við þurfum að fara svona ferð aftur þ.e. að taka tvo leiki í ferð. Það er engin afsökun að hafa hlaupið mikið og
tekið vel á því í fyrri leiknum. Það sem er grátlegast við þetta tap er að við vorum með boltann lungann úr leiknum!
við fengum mikið meiri tíma með boltann í þessum leik heldur en á móti ÍA en fram á við vorum við grútmáttlausar!
Skotin okkar á markið (sem voru í kringum fimmtán) litu út fyrir að vera sendingar aftur á markmann. Hlaup í svæði, græðgin fram
á við og viljinn til að vinna voru bara ekki til staðar og því fór þetta svona ömurlega. Það er eins gott að stelpurnar haldi
rétt á spilum í framhaldinu og fari að taka þetta alvarlega ef einhver stöðugleiki á að nást í sumar. Það er ekki hægt
að taka bara einn og einn góðan leik inná milli og lifa á honum fram yfir nokkra leiki áður en maður hysjar upp um sig aftur og fer að gera
eitthvað af viti“. Sagði Jói og greinilega allt annað en sáttur við leikinn í eyjum.
Hann sagði að aðstæður í báðum leikjunum hafi verið frábærar, góðir vellir og gott veður. „Það var vel
tekið á móti okkur og dómarar voru góðir. Ferðin var þræl vel skipulögð af stjórninni okkar, við fórum m.a. á
landsleik Íslands og Hollands á laugardeginum. Ferðin kostaði helling af peningum sem lítið er til af. Nú
verðum við sem stöndum á vellinum að læra að meta svona hluti“. Sagði Jói Kr. að lokum.
Þess má geta að þriðji flokkur kvenna var í för með meistaraflokki og lék einnig tvo leiki sem töpuðust báðir.
Athugasemdir