Völsungur Reynir 1-1

Á Húsavíkurvelli áttust viđ í dag Völsungur og Reynir Sandgerđi. Kalt var í veđri og ágćtis vindur en ţađ virtist ekkert trufla leikinn neitt. Völsungar

Völsungur Reynir 1-1
Íţróttir - - Lestrar 179 - Athugasemdir ()

Bjarki felldur. Ljósm. Halli Sig.
Bjarki felldur. Ljósm. Halli Sig.

Á Húsavíkurvelli áttust við í dag Völsungur og Reynir Sandgerði. Kalt var í veðri og ágætis vindur en það virtist ekkert trufla leikinn neitt.

Völsungar byrjuðu af krafti og á 6.mínútu átti Ármann Örn Gunnlaugsson erfitt skot sem Helgi Helgason markvörður Reynismann náði að slá í horn. Ekki leið á löngu þar til næsta færi leit dagsins ljós en Bjarki Baldvinsson slapp einn í gegn á 9.mín og Helgi kom langt útúr markinu, Bjarki reyndi að vippa yfir hann en boltinn náði aldrei almennilegri hæð og Helgi greip.

Til tíðinda barst samt á 15.mín þegar að Bjarki slapp aftur í gegn, kom boltanum framhjá Helga sem tók Bjarka niður. Réttilega dæmt vítaspyrna af annars ungum og mjög fínum dómara leiksins, Sigurhirti Snorrasyni. Bjarki fór sjálfur á punktinn og setti Helga í vitlaust horn. 1-0 fyrir Völsunga.

Völsungur var þó varla mættur í Paradís þegar að þeim var refsað. Jóhann Magni Jóhannson komst þá inn fyrir, náði boltanum og tókst að koma boltanum framhjá varnarmönnunum sem eltu hann. Ágætis skot frá vítateig sem endaði ofarlega í markhorninu. 1-1 og allt í járnum bara!

Á 30.mín splundraðist vörn Völsunga og fyrirgjöf frá hægri kantinum rataði inn á teig þar sem Novak Popovic stóð einn og aleinn en laflaust skot hans rataði beint á Björn Hákon markvörð Völsunga.

Davíð Þórólfsson fór meiddur út af hjá Völsungum og Sveinbjörn Már Steingrímsson kom í hans stað. Rétt undir lok fyrri hálfleiks komst miðvörðurinn Aron Bjarki í frábært færi fyrir Völsunga eftir hornspyrnu en skot hans fór yfir markið. 1-1 í hálfleik.

Ekki voru liðnar nema 30 sekúndur af seinni hálfleik þegar að mikill darraðadans skapaðist í teig Reynismanna og ég held að Helgi markvörður hafi náð að slæma hendinni þrisvar í knöttinn og bjarga áður en hann loks náði haldi á honum. Strax í næstu sókn Völsunga sem var frábærlega spiluð og hröð átti Bjarki Baldvinsson skot vel framhjá Reynismarkinu.

Því næst kom það tvisvar fyrir með stuttu millibili að Bjarki tók hornspyrnu frá hægri fyrir Völsunga og Ármann Örn mætti galvaskur á nær og náði fínum skotum, annað rataði yfir en hitt fór í hliðarnetið. Á 70.mínútu tók Bjarki enn eina hornspyrnuna sem rataði þráðbeint á kollinn á Aroni Bjarka sem var dauðafrír en slæmur skalli hans stefndi vel framhjá áður en hreinsað var.

Fimm mínútum síðar fengu Völsungar skyndisókn þar sem varnarlína Reynismanna ætlaði öll í Bjarka Baldvinsson á hægri kantinum. Tveir Völsungar komu fríir með upp en léleg fyrirgjöf varð til þess að færið rann út í sandinn. Vel heyrðist í Helga markmanni þá sem var allt annað en parsáttur við þessa varnarvinnu.

Reynismenn fóru að færa sig framar og vinna fleiri bolta á miðjunni en svo virtist sem að allar þeirra sóknir hafi endað með því að tapa boltann eða að fyrirgjöf þeirra yrði gripin af Birni. Þó fékk Magnús Ólafsson fínt skotfæri inn á teig en hitti boltann illa og sendi hann vel framhjá. Á 89.mínútu fengu Reynir skyndisókn sem endaði með að Sigurður Donys fékk fyrirgjöf og stóð einn fyrir opnu marki og hamraði boltann lengst yfir markið. Boltasækirinn er kominn hálfa leiðina upp á Húsavíkurfjall í þessum skrifuðu orðum, en þetta sleppur, enda vel nestaður drengurinn fyrir þessa langferð. Sigurhjörtur Snorrason flautaði síðar til leiksloka og lokatölur því 1-1.

 

Myndir Halla Sig. frá leiknum er hægt að skoða hér

 

 


Athugasemdir

  • Herna

Ingvar Björn-Rafnar Orri- Bjarki Breiđfjörđ