Völsungsstrákar tryggđu sér ţátttöku í undanúrslitumÍţróttir - Hjálmar Bogi Hafliđason - Lestrar 409 - Athugasemdir ( )
Strákarnir í meistaraflokki fengu Ægi úr Þorlákshöfn í heimsókn í 8. liða úrslitum í gær. Völsungar voru betri aðilinn í leiknum þrátt fyrir ágæta spretti Ægismanna. Ægismenn fóru sárir heim eftir frábæran 3 – 0 heimasigur Völsunga og þeir því komnir áfram í undanúrslit og mæta þar Hvíta riddaranum. Fyrri leikurinn fer fram á Varmárvelli næstkomandi laugardag og sá síðari á Húsavíkurvelli þriðjudaginn 8. september. Fjölmenni var í brekkunni að vanda og mátti finna góða strauma þaðan.
Ægismenn voru einbeittari í upphafi og ákveðin værð var yfir Völsungum. Heimamenn byrjuðu illa og voru nokkra stund að átta sig á stöðunni að Ægismenn voru sýnd veiði en ekki gefin. Á ´6 mínútu fengu Ægismenn aukaspyrnu rétt fyrir utan teig Völsunga og kom skot á markið sem Sveinbjörn varði vel. Á ´10 mínútu fengu Völsungar hornspyrnu og átti Bjarki fína spyrnu inn í teig anstæðinganna þar sem Gunnar Sigurður stökk manna hæst og fékk frían skalla en boltinn rétt yfir. Völsungar sóttu í sig veðrið og á ´12 mínútu kom glæsileg sókn Völsunga með gríðar flottu spili sem endaði með marki. Bjarki tók hlaup með boltann og sendi á Elvar Árna sem átti fína sendingu á Davíð sem renndi boltanum aftur á Bjarka og hann framlengdi sendinguna áfram á Hrannar Björn sem kom á sprettinum og smellhitti boltann sem söng í netinu. Glæsileg sókn í gegnum lið Ægismanna og staðan orðin eitt mark Völsunga gegn engu.
Völlurinn var nokkuð blautur eftir mikla rigningu síðastliðna daga og leikmenn áttu gjarnan erfitt með að fóta sig. Völsungar áttu fínar sóknir og áttu góðan leik um miðjan fyrri hálfleik þar sem hver leikmaður sinnti sínu hlutverki vel og tók þátt í baráttu og spili. Á ´25 mínútu átti sá guli Halldór Fannar fína sendingu inn í teig þar sem Jón Hafsteinn fékk erfiðan skall sem ekki vildi í markið. Tekið skal fram að Völsungar fengu ekki spjald í leiknum. Elvar Árni fékk þröngt færi á ´27 mínútu og markmaður Ægismanna lokaði markinu vel. Sú sókn kom eftir frábæra sókn þar sem Völsungar sýndu gríðargóða spilamennsku og boltinn gékk vel á milli manna. Völsungar sóttu grimmt og fengu bæði auka- og hornspyrnur og þeir ætluðu sér að sigra og markið lág í loftinu.
Á ´30 mínútu skoraði Bjarki annað mark Völsunga eftir að Ægisvörnin splundraðist. Elvar Árni átti fína sendingu á Bjarka sem komst einn á móti markmanni og setti boltann í netið rétt fram hjá markmanninum. Staðan orðin tvö Völsungsmörk gegn engu. Á ´37 mínútu gerðist heldur miður skemmtilegt atvik þegar Bárðdælingurinn Davíð féll á hnén og loks á jörðina eftir að hafa fengið boltann fast í miðstykkið. Það mátti heyra samúðarkvein úr brekkunni eftir að Davíð gaf tóninn af vellinum.
Völsungar gerðu skiptinu á markmanni í hálfleik og Sveinbjörn Ingi hvíldi sig og Svavar Cesar tók vaktina milli stanganna. Á ´47 mínútu fengu Ægismenn aukaspyrnu rétt fyrir utan teig og áttu gott skot að markinu en Jón Hafsteinn bjargaði í horn. Á ´50 mínútu komst Ægismaður í gegn og einn á móti markmanni og var dæmdur rangstæður en skaut engu að síður nokkuð örugglega framhjá. Völsungar settu í vinningsgírinn og sýndu yfirvegun þegar á leið seinni hálfleikinn. Á ´51 kom þriðja mark Völsunga eftir hornspyrnu. Boban tók fína spyrnu sem rataði beint á skallann á Elvari Árna sem stóð við nærstöngina og setti boltann viðstöðulaust inn og staðan orðin þrjú Völsungsmörk gegn engu sunnanmarki.
Nokkur spenna færðist í leikinn og Ægismenn vildu ekki gefast upp. Á ´53 var brotið á Kristjáni Gunnari þegar Völsungar voru að sækja og uppskáru Ægismenn gulaspjaldið fyrir gróft brot. Á ´57 komust Hrannar Björn og Bjarki einir í gegn og fékk Hrannar Björn þröngt færi og sendir á Bjarka sem var þá dæmdur rangstæður. Völsungar sóttu grimmt og áttu flotta spretti með fínu spili. Á ´63 mínútu þvældi Kristján Gunnar Ægisvörnina upp úr skónum og komst í skotstöðu en boltinn rétt framhjá. Völsungar gerðu tvöfalda skiptingu á ´68 mínútu þegar Hrannar Björn og Kristján Gunnar yfirgáfu völlinn brosandi og sælir og inn á komu Rafnar Orri og Stefán Björn. Á ´70 kom afar glæsileg sókn hjá Völsungum. Elvar Árni sem var kominn á miðjuna átti stungu á Stefán Björn sem tók hlaup og sendi óeigingjarnt á Rafnar Orra sem rétt missti af botlanum. Frábær samvinna og flott spil. Ægismenn gerðu skiptingu á ´71 mínútu og styrktu vörnina. Doddi dómari um þetta leyti nokkur hikstaköst og flautaði ótæpilega en ekki er ástæða til að setja út á dómgæsluna í leiknum. Ægismenn komust stuttlega inn í leikinn á þessum tímapunkti en það varði stutt. Á ´77 mínútu fékk Stefán Björn tækifæri til að bæta við marki en Bjarki átti þversendinu á Elvar Árna sem sendi viðstöðulaust á Stefán Björn en boltinn vildi ekki netið. Þess skal getið að Stefán Björn var hanskalaus í leiknum og hefði ugglaust skorað með hanska af sitt hvorri gerðinni en hann átti eftir að fá fleiri tækifæri til að skora.
Á ´79 mínútu kom tvöföld skipting hjá Völsungum og Boban og Bjarki fóru af velli og inn á komu Aðalsteinn Jóhann og Friðrik Mar. Á ´83 kom skemmtileg sókn hjá Völsungum þegar þrír leikmenn stóðu andspænis boltanum en markmaður andstæðinganna fyrstur að átta sig eftir að Stefán Björn komst í gegn með boltann og sendi inn í teig þar sem boltinn stóð kyrr um stund. Leikurinn var hraður í lokin en Ægismenn játuðu sig sigraða og gerðu þrefaldaskiptingu á ´87 mínútu og höfðu gaman að. Á ´91 mínútu komst Stefán Björn einn í gegn sem endaði með annað hvort klaufalegri sendingu eða lélegu skoti og aftur á ´93 mínútu komst Stefán Björn í dauðafæri en hanskana vantaði til að boltinn færi í netið.
Bjarki var valinn maður leiksins og hlaut súkkulaðiskóinn frá Heimabakaríi að launum. Völsungar fara suður í Mosfellssveit á laugardaginn og keppa um sæti í úrslitaleiknum um sæti í 2. deild að ári. Nú er að vetja markið hátt og ætla sér og sínu liði mikið og ekkert annað en sigur kemur til greina. 640.is hvetur leikmenn til að tileinka sér einbeitingu og vilja því geta og hæfileikinn eru til staðar.
Hrannar Björn Steingrímsson skoraði fyrsta markið á glæsilegan hátt og hér horfir hann á eftir boltanum í netið.
Og Bjarki fagnar því með honum.
Svavar Cesar Hjaltested stóð í marki Völsungs í síðari hálfleik.
Móðir hans hefur ítrekað óskað eftir því að 640.is birti mynd af honum og við því er nú orðið með bros á vör.
Athugasemdir