Völsungar unnu KS/Leiftur í LengjubikarnumÍţróttir - Hafţór Hreiđarsson - Lestrar 337 - Athugasemdir ( )
Völsungar léku sinn fyrsta leik í Lengjubikarnum í kvöld þegar þeir lögðu KS/Leiftur að velli í Boganum. Völsungar skoruðu fimm mörk en Fjallabyggðar-menn tvö.
Elfar Árni Aðalsteinsson skoraði þrjú marka Völsungs og þeir Stefán Björn Aðalsteinsson og Hrannar Björn Steingrímsson eitt mark hvor.
Völsungar leika í 1. Riðli B-deildar karla og önnur lið í þeim riðli eru Höttur, Huginn, Tindastóll, Magni og áðurnefnt lið KS/Leifturs.
Á 123.is/volsungur segir svo frá leiknum:
Lengjubikarinn: Sannfærandi sigur í fyrsta leik - Elfar Árni með þrennu
Völsungsliðið byrjar Lengjubikarinn með látum en þeir sigruðu í kvöld lið KS/Leifturs, 5-2, í hörkuleik sem fram fór í Boganum á Akureyri. Elfar Árni skoraði þrjú mörk og þeir nafnar Stefán Björn og Hrannar Björn skoruðu sitthvort markið. Það var jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik en Völsungarnir kláruðu dæmið í þeim seinni.
KS/Leiftur tóku forystuna eftir aðeins þrjár mínútur, en Jón Hafsteinn Jóhannsson braut á Ragnari Haukssyni, spilandi þjálfara KS/Leifturs, innan vítateigs og víti staðreynd. Áhorfendur í Boganum í kvöld vildu meina að ekki hafi verið um víti að ræða og Raggi Hauks hafi sýnt þessi líka glæsilegu tilþrif með rándýrri dýfu. Því miður náði Stubbur ekki að verja svo að staðan 0-1 eftir aðeins 3 mínútur.
Stefán Björn Aðalsteinsson var ekki tilbúinn að gefa leikinn svo glatt frá sér og jafnaði leikinn skömmu síðar með slöku skoti sem markvörður gestanna misreiknaði, staðan 1-1.
Völsungs-liðið komst loks yfir í leiknum eftir hornspyrnu frá Hrannari á nærstöngina sem Bjarki Baldvinsson framlengdi á fjær og þar var mættur enginn annar en Elfar Árni Aðalsteinsson sem skallaði boltann í opið markið, 2-1 Völsung í vil.
Ragnar Hauksson er ekki vanur að gefast upp og jafnaði leikinn rétt fyrir leikhlé eftir skyndisókn gestanna. Völsungs-liðið var búið að fara ílla með mörg góð færi rétt áður og hefðu auðveldlega getað verið í betri stöðu. En staðan jöfn, 2-2, er liðin gengu til búningsherbergja.
Síðari hálfleikur einkenndist af mikilli hörku og baráttu eins og oft vill verða er þessi norðurlandslið mætast. Elfar Árni bætti við sínu öðru marki þegar um 12 mínútur voru eftir af leiknum. Elfar fékk boltann rétt fyrir utan teig, fór ílla með varnarmenn KS/Leifturs og skoraði örugglega, 3-2.
Hrannar Björn Steingrímsson eða landsliðsbjörn eins og hann er kallaður, bætti fjórða markinu við eftir að hafa fengið sendingu á fjær og lagt knöttinn snyrtilega í hornið fjær, 4-2, og Völsungar í góðri stöðu.
Elfar Árni Aðalsteinsson innsiglaði svo sigurinn á lokamínútu leiksins eftir frábæran undirbúning Hafþórs Mar Aðalgeirssonar. Hafþór átti fínan sprett upp kantinn vinstra megin, lagði boltann út á félaga sinn Elfar Árna sem átti ekki í neinum vandræðum með að setja boltann í netið og sannfærandi 5-2 sigur í fyrsta leik staðreynd.
Það gengur allt í haginn í boltanum hjá Elfari þessa dagana, og Bergi líka enda halda þeir félagar með toppliði ensku fyrstu deildarinnar.
Elfar Árni:Alltaf gaman að skora
"Við vorum í betra formi en þeir og það var algjör óþarfi að hleypa þeim inn í leikinn. Þetta eru alltaf hörkuleikir en við fengum öll stigin og það er það sem skiptir máli," sagði Elfar Árni, markaskorari Völsungs eftir leikinn í kvöld.
Elfar Árni hefur verið iðinn við kolann í vetur en hann gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu í dag. Hann vill meina að þetta sé bara byrjunin.
"Þetta var bara flott í dag og alltaf gaman að skora. Ég vona að þetta sé það sem koma skal og sem framherji þá ætlar maður sér að sjálfsögðu alltaf að skora í hverjum leik sem þú spilar. Þetta er bara byrjunin," bætti Elfar við.
"Við vorum að spila mjög vel í dag, margar flottar sóknir og oft á tíðum glimrandi knattspyrna. Það má skrifa þessi mörk sem við fengum á okkur á kæruleysi varnarlega hjá öllum leikmönnum. Það þurfa allir að skila sér til baka og vinna saman sem lið, þá stoppa okkur fáir," sagði Elfar ánægður að lokum.
Athugasemdir