Völsungar sigruđu Hvöt 3-1.Íţróttir - - Lestrar 213 - Athugasemdir ( )
Völsungar tóku á móti Hvöt frá Blönduósi í 2. deildinni á Húsavíkurvelli í kvöld og nú var að duga eða drepast fyrir strákana því fyrri umferðin búin og einungis 9 stig komin í hús.
Leikurinn fór rólega af stað og mikið var um þreifingar hjá báðum liðum til að byrja með. Nýr leikmaður Hvatar, Trausti Eiríksson, átti góða fyrirgjöf á 8.mínútu sem framherji þeirra skallaði yfir. Fyrsta færi heimamanna leit svo dagsins ljós á 21.mínútu þegar Kristján Gunnar Óskarsson, fyrirliði, slapp einn í gegn og ætlaði sér að chippa boltanum framhjá markmanninun á Bjarka Baldvinsson en Nezir Ohran las leikinn vel og greip inn í. Strax á næstu mínútu átti Bjarki svo langskot sem að Nezir varði vel.
Á 28.mínútu geystist Ágúst Þór Ágústsson vinstri bakvörður Hvatar upp vinstri kantinn og átti lága fyrirgjöf á nærstöngina þar sem Óskar Snær Vignisson átti grútmáttlaust skot sem rétt svo dreif upp í hendurnar á Birni Hákoni markmanni.
Fyrsta mark kvöldsins leit svo dagsins ljós á 34.mínútu. Rafnar Orri Gunnarsson fékk þá boltann aftarlega á vallarhelmingi heimamanna og átti langan bolta upp völlinn hnitmiðað á turninn Bjarka sem stökk upp og drap boltann niður fyrir Elfar Aðalsteinsson sem var sloppinn í gegn. Tveir varnarmenn Hvatar hlupu hann uppi en aðeins til þess að Elfar fíflaði þá báða og átti fallegt skot utan vítateigs yfir Nezir í markinu. 1-0 fyrir Völsungi og fólkið í brekkunni alveg á háa c-inu.
Ekki löngu síðar komust Hvatarmenn upp hægra megin inn í vítateig þar sem fyrirgjöf þeirra endaði í hendi Arons Jósepssonar og Jan Eric Jessen dæmdi vítaspyrnu. Leikmaður númer 9 steig á punktinn og skaut en Björn Hákon varði vel út. Sá hinn sami ætlaði þá aldeilis að fylgja eftir og hamra hann inn en sendi boltann lengst aftur fyrir mark heimamanna. 1-0 í hálfleik fyrir Völsung.
Í byrjun seinni hálfleiks fengu Völsungar hornspyrnu sem var hreinsuð út úr teig þar sem Hallgrímur Mar fékk boltann og skaut, boltinn endaði við fæturnar á Aroni Bjarka sem að snéri af sér varnarmann og kom boltanum í netið. Línuvörðurinn var með flaggið á lofti og því var þetta dæmt af en Aron Bjarki er harður á því að þetta hafi ekki verið rangstaða þar sem hann hafi þurft að leika á mann til að skora!
Á 65.mínútu fengu Völsungar aukaspyrnu c.a. 35 metra frá marki. Halldór Fannar stillti sér upp við boltann og skaut að marki. Boltinn speglaðist af varnarmanni sem hægði á honum og datt boltinn inn í teig þar sem Kristján Gunnar var mættur og lagði hann fyrir sig. Kristján mundaði skotfótinn en á meðan kom Aron Bjarki aðvífandi og setti boltann niður í nærhornið við mikinn fögnuð heimamanna allra.... nema Kristjáns!!Gestirnir frá Blönduósi lögðu þó ekki árar í bát og Edin Ganjac minnkaði muninn eftir hornspyrnu á 70.mínútu og færði spennu í leikinn. Hvatarmenn sóttu talsvert eftir það og reyndu Völsungar að refsa með skyndisóknum sem varð þess valdandi að hraðinn jókst verulega í leiknum. Ein sókn Hvatar endaði með mörgum skotum sem varnarmönnum Völsungs tókst sífellt að kasta sér fyrir og það síðasta vildu Hvatarmenn meina að Elfar Aðalsteinsson hafði varið með höndum í horn. Uppskáru þeir þó ekkert nema gult spjald og hornspyrnu fyrir mótmælin.
Á 88.mínútu var svo komið að Hallgrími Mar. Hann fékk boltann á vinstri kantinn við miðlínu þar sem hann mætti varnarmanni. Hann tók nokkur skæri og fór framhjá kauða þar sem hann mætti öðrum. Aðeins fleiri skæri og Hallgrímur mætti þeim þriðja. Þar tók hann nokkur skæri og nokkrar krúsídúllur til viðbótar áður en hann ýtti boltanum framhjá honum og skaut að marki frá vítateig. Skot hans fór ofarlega á Nezir sem missti boltann yfir sig í bleytunni og staðan orðin 3-1. Hallgrímur lyfti upp bolnum og aftur blasti við JÓNASarhjartað margfræga. Hvatarmenn settu aukna pressu á í lokin en uppskáru ekkert og lokatölur því 3-1. Spennandi og skemmtilegur leikur að baki.
Völsungar fagna marki Hallgríms Mar Steingrímssonar.
Björn þjálfari greinilega ánægður í leikslok líkt og aðrir Völsungar.
Hafþór Hreiðarsson tók meðfylgjandi myndir frá leiknum en fleiri myndir er hægt að skoða á heimasíðu Más Höskuldssonar.
Athugasemdir