Völsungar komnir áfram í ValtorbikarnumÍţróttir - Ingvar Björn - Lestrar 368 - Athugasemdir ( )
Byrjunarlið Völsunga þannig skipað; Kjarri, Stebbi Jón, Gunni Siggi, Jónas, Bergur, Haukur, Hrannar, Bjarki, Haffi, Alli Jói og Elfar. Á bekknum sátu Ármann, Arnþór, Benni, Donni og Sindri.
Leikurinn byrjaði af miklum krafti og áttu Völsungar nokkur góð hlaup upp völlinn til að byrja með en um leið og T/H náðu boltanum á sitt vald kom fimm mínútna kafli á vallarhelmingi Völsunga. Eftir klafs í teignum á 11.mínútu fór boltinn út í teig þar Óskar Vignisson renndi sér í knöttinn og setti boltann í fjærhornið. Gott mark og T/H komið í 0-1.
Smá doði fylgdi markinu og lítið gerðist. Við tókum þó laglega við okkur eftir tuttugu mínútur og fórum að sækja. Það var ekki lengi að bera árangur en Hrannar Björn átti lágan bolta af kantinum á Bjarka sem stóð fyrir utan teiginn. Bjarki tók tvöföld skæri það hratt að varnarmaður missti algjörlega jafnvægið og Bjarki skaut boltanum í fjærhornið. Virkilega fallegt mark hjá Bjarka en Völsungar fögnuðu þessu ákaft.
Áfram höfðu grænir yfirhöndina og létu boltann ganga vel. Á 36.mínútu tók Kjarri snöggt útspark sem Elfar Árni tók vel niður á miðjum vallarhelmingi Stólanna. Hann sendi boltann út til hægri þar sem Hafþór Mar kom á harðaspretti, lék boltanum inn að miðju áður en hann átti vinstrifótar þrumufleyg neðst í hornið fjær. Frábært mark hjá Haffa og staðan orðin 2-1.
Alli Jói fékk gott færi strax í næstu sókn en hann lék inn að miðju og átti skot frá vítateigslínunni rétt yfir markið. Við réðum ferðinni út hálfleikinn en staðan var 2-1 í hálfleik.
Völsungar brunuðu af stað í sókn í seinni hálfleik sem T/H varðist vel og svaraði með skyndisókn. Þeir komu upp vinstri vænginn og áttu stungusendingu í hlaupið hjá Kolbeini Kárasyni sem skaut boltanum framhjá Kjarra og í markið. Gunni Siggi elti boltann en náði honum ekki í tíma. 2-2 eftir 47.mínútur og hörkuleikur þær allar. Markinu fylgdi tilheyrandi doði og hvorugt liðið náði algjörum yfirráðum en T/H virkuðu þó líklegri þar til um korter lifði leiks.
Hafþór lék Ingva Hrannar, fyrirliða T/H, skemmtilega uppúr skónum í tvö skipti með stuttu millibili. Einfalt og nákvæmlega eins í bæði skiptin. Ingvi Hrannar brunaði seinna upp kantinn þar sem Jónas Halldór kom á siglingunni og tæklaði hann illa. Hann þurfti að fara meiddur af velli en Jónasi var sýnt gula spjaldið. Jónas vissi upp á sig sökina og baðst afsökunar margsinnis enda aldrei ætlunin að hitta manninn. Bergur fór útaf meiddur á 68.mínútu en inn í hans stað kom Ármann Örn og leysti hann bakvarðastöðuna með glæsibrag. Arnþór kom inn, á miðjuna, fyrir Alla Jóa á 76.mínútu og færði Hrannar sig þá út á kantinn.
Eftir nokkrar álitlegar sóknir af okkar hálfu flautaði Bjarni Hrannar venjulegan leiktíma af og því þurfti að grípa til framlengingar. Með síðustu framlengingu þessara liða fast í huga sér ákváðu Völsungar að láta hana ekki endurtaka sig. Við byrjuðum af miklum krafti og markvörður T/H kýldi langskot Hrannars út í teiginn. Þar var boltanum sparkað upp í loft og varnarmaður stökk upp í boltann og ætlaði að skalla frá. Ekki tókst honum betur til en það að skalla honum til baka innfyrir vörnina þar sem Bjarki tók boltann á lofti með vinstri fæti í fjærhornið. Óverjandi skot og gott og mikilvægt mark strax á 3.mínútu framlengingar.
Völsungar unnu boltann strax eftir að miðjan hafði verið tekin og geystust upp völlinn. Elfar fékk boltann á hægri kanti og átti fyrirgjöf sem Bjarki tók við með hælnum og þaðan fór boltinn í hönd varnarmanns. Réttilega dæmd vítaspyrna. Gunni Siggi fyrirliði steig á punktinn og ekki brást honum bogalistin frekar en fyrri daginn. Setti markmanninn í vitlaust horn en boltinn fór niður í hægra hornið. Fjórar mínútur liðnar af framlenginu og staðan orðin 4-2 fyrir Völsunga.
Völsungar voru skynsamir og spiluðu boltanum og reyndu að skapa sér færi á meðan panikeraðir andstæðingarnir bombuðu boltanum fram í þeirri von um að koma honum í gegn. Hrannar Björn átti gott skot frá vítateigshorni framhjá stönginni fjær
Seinni hálfleikur framlengingar fór svipað af stað og þeim fyrri lauk en T/H minnkaði muninn á 110.mínútu. Mikið klafs í teignum eftir hornspyrnu sem endaði með að Milan Markovic kom boltanum yfir línuna af stuttu færi. Donni kom þá inn á fyrir Haffa á 112.mínútu og fór í hans stöðu á kantinum.
Þegar 115.mínútur voru búnar fékk Elfar Árni boltann og lék út að hornfána. Hélt boltanum þar vel og uppskar aukaspyrnu. Strákarnir nýttu þennan tíma og tóku stutt á Elfar sem engin leið var til að ná boltanum af þarna úti við fána. Unnu Völsungar hornspyrnu sem aftur var tekin stutt á Elfar sem hélt boltanum með eina fjóra Stóla í sér áður en hann kom honum á Hrannar Björn sem færði boltann úr kássunni. Virtist þetta fara alveg gríðarmikið í taugarnar á T/H mönnum sem spörkuðu Völsunga niður við hvert tækifæri eftir þetta.
Grænir spiluðu boltanum vel á milli sín og reyndu að drepa tímann. Elfar lék sama leik í horninu hinu megin stuttu síðar. Á 117.mínútu kom Hrannar aftan að hægri bakverði andstæðinganna og stal boltanum og sendi hann yfir völlinn á samherja. Varnarmaðurinn var ósáttur við þetta og reif í Hrannar ásamt því að sparka duglega í hann löngu eftir að hann hafði losað sig við boltann. Þetta gerðist beint fyrir framan Bjarna Hrannar sem gat ekki annað en rekið varnarmanninn af velli. Við þetta trompuðust T/H menn endanlega og misstu algjörlega hausinn úr leiknum. Eftir þriggja mínútna viðbótartíma í þessari framlengingu flautaði Bjarni svo leikinn af og unnu Völsungar sér þar með farmiða í 32-liða úrslit Valitor bikarsins. Glæsilegt.
Leikur Völsunga í dag var kaflaskiptur. Stærstan part var hann góður en í seinni hálfleik misstum við þó hausinn aðeins og gekk okkur illa að halda boltanum innan liðsins. Þegar það gerist þá eigum við lítið af sóknum og eyðum miklu púðri í hlaup fram og til baka. Baráttan í dag var frábær og unnu menn allir fyrir hvor annan og uppskáru eftir því. Langan kafla átti miðja þeirra í erfiðleikum með okkur og Elfar Árni lét varnarmennina hafa fyrir hlutunum þótt hann hafi oft fengið fleiri færi en í dag. Heilt yfir frábær sigur og fá strákarnir stórt klapp á bakið frá mér fyrir viðhorfið í dag. Menn ætluðu sér sigur og það sýndi sig á vellinum.
Haukur Hinriks kom vel inn í liðið og vann nánast hvern einasta skallabolta sem hann fór í. Reyndar gerðu Bjarki og Jónas það líka og langt er síðan við vorum svona grimmir í loftinu. Stundum vorum við að beita háum boltum á röngum stundum en ekki getur alltaf allt verið fullkomið. Varnarlínan + Kjarri fannst mér eiga mjög fínan leik og þessi þrjú mörk kannski fullmikið miðað við það. Fyrsta og þriðja eru eftir klafs þar sem okkur vantar eiginlega bara einhvern gráðugan til þess að éta boltann og bomba honum frá! Kolbeinn Kárason var í vasanum hjá þeim allan leikinn fyrir utan 20 sekúndur þar sem hann náði góðu hlaupi og marki. Allir aðrir hlupu af sér rassgatið og unnu sína vinnu mjög vel. Ánægjulegt! Best að hvíla ykkar augu, þetta er komið gott!
ÁFRAM VÖLSUNGUR!
Athugasemdir