Viđtal viđ Pálmar Pétursson

Í tilefni EM í Austurríki tók heimasíđa Völsungs viđtöl viđ ţrjá liđatćka handknattleiksmenn sem ólust upp í Völsungsbúningnum og eru enn ađ. 640.is var

Viđtal viđ Pálmar Pétursson
Íţróttir - Hafţór Hreiđarsson - Lestrar 320 - Athugasemdir ()

Pálmar Pétursson.
Pálmar Pétursson.

Í tilefni EM í Austurríki tók heimasíða Völsungs viðtöl við þrjá liðatæka handknattleiksmenn sem ólust upp í Völsungsbúningnum og eru enn að. 640.is var boðið að birta þetta líka og var það þegið með þökkum. Fyrsta viðtalið er við Pálmar Pétursson og fer það hér á eftir.

 

Pálmar Pétursson Skarphéðinssonar er einn af framtíðarmarkmönnum íslenska landsliðsins og ver nú mark FH. Hann hefur spilað lengi með Val og spilað þar með leikmönnum sem hafa gert það gott bæði hér og erlendis. Hann á að baki marga leiki í yngri landsliðum Íslands og hefur fengið ófáa marblettina frá mörgum af okkar helstu stórskyttum. Pálmar sleit handbolta-skónum í höllinni á Húsavík og stóð ungur milli stanganna í sínum fyrsta meistaraflokksleik. Hann er hvergi banginn og honum verður auðvitað ekki svara vant þegar við ráðumst á hann með nokkrum laufléttum spurningum.

Hvernig hefur þér og þínu liði gengið í vetur? Ertu í fantaformi ?

Mér hefur gengið vel  og er mjög sáttur með vörsluprósentuna mína það sem af er tímabilinu. Myndi segja að ég sé í mínu besta formi hingað til og stefni á að komast í enn betra form. FH er í 2-5 sæti,  en í 2 sæti á innbyrðis viðureignum við hin liðin. Stefnan er vitaskuld sett á að bæta okkur þar sem liðið eru ungt og efnilegt og á mikið inni. T.a.m. erum við með hægri skyttuna Ólaf Guðmundsson sem er nú á sínu fyrsta stórmóti með landsliðinu.

Nú ert þú uppalinn Völsungur. Áttu ekki einhverja/ar skemmtilegar sögur úr æsku. Atvik í leikjum/æfingum með Völsungi sem standa uppúr ?

Alltaf þegar ég hugsa um fyrstu árin í boltanum með Völsungi rifjast upp fyrsti meistaraflokksleikurinn minn á Ísafirði, BÍ-Völsungur, sem vannst með 3 mörkum. Einnig er eftirminnilegt hvað það var alltaf góð mæting á heimaleiki þrátt fyrir að árangurinn hafi kannski ekki verið sá besti. Það var mikið fjör í keppnisferðum hjá Völsa en ætli það sé ekki eftirminnilegast þegar að Hilmar Valur flæmdi miðaldra par út úr bíósal eftir að hafa sleppt njósnara. Eitthvað sem enginn viðstaddur mun gleyma.

Nú byrjaðir þú með nýju liði í haust. Hvernig líst þér á nýja liðið og voru viðbrigðin mikil ?

Það var kominn tími á að rífa sig upp og komast á næsta level og ég sá fram á að FH væri sá klúbbur sem myndi henta mér best. Ég er með Bergsvein Bergsveinsson á bakinu á öllum æfingum og leikjum sem heldur mér á tánum og hjálpar mér mikið. Mér hefur gengið vel að aðlagast liðinu, bæði innan vallar sem utan, og líður vel í Kaplakrika. Viðbrigðin voru minni en ég reiknaði með. Finnst ég eins og heima í Hafnarfirði og sakna Hlíðarenda í raun voða lítið.

Af hverju ertu ekki í Austurríki með landsliðinu ? Ertu ekkert að nálgast það ?

 Ég hef ekki alveg átt upp á borðið hjá þeim sem velja í liðið hingað til en hef verið í nokkrum B-verkefnum fyrir landsliðið. Ég tel mig hins vegar eiga góðan möguleika á að komast í þetta lið á næstu árum. Það veltur algjörlega á mér og hvernig ég held á spöðunum en ég tel mig eiga fullt erindi í landsliðið.

Hver er metnaðurinn? Fara út og spila í t.d. Þýskalandi eða á Spáni ? Einhverjar þreifingar í gangi með það ?

Auðvitað væri gaman að prófa að fara út og spila. Ég mun klára mitt nám hér heima og sjá svo til hvernig landið liggur í þeim efnum. Það eru alltaf einhverjar þreifingar í gangi og fyrirspurnir héðan og þaðan og frá misspennandi löndum. Ég er hins vegar í þannig námi og með kríli á leiðinni þannig að ef ég ákveð að fara út þarf tilboðið að vera gott. Sem betur fer eru markmenn bestir í kringum 30-34 ára þannig að maður hefur ágætis tíma til að hugsa sig um og stefna að réttu hlutunum.

Hver er bestur í landsliðinu að þínu mati? Hverjir eru lykilmenn í liðinu svo við náum árangri í Austurríki ?

Það er kannski ófrumlegt að segja það en Ólafur Stefánsson er bara svo hrikalega góður að það kemst í raun engin nálægt honum í gæðum. Yfirvegunin og leiksskilningurinn er svo gígantískur að hann hefur áhrif á alla inni á vellinum. Til að ná langt þarf Ólafur að vera heitur, vörnin þarf að vera góð og Bjöggi þarf að vera í góðum gír í markinu. Ef þetta þrennt gengur upp getur liðið farið alla leið.

Hvernig meturðu möguleika íslenska landsliðsins í riðlinum (B-riðill: Ísland, Austurríki, Danmörk og Serbía) ? Hverjir verða erfiðustu andstæðingarnir í B-riðli? Tippa á úrslit okkar leikja í riðlinum  ?

Ég held að við komumst klárlega upp úr riðlinum. Danir verða erfiðustu andstæðingarnir enda með frábært lið, en Serbarnir hafa einnig mikla hefð og sterka leikmenn með Ilic fremstan í flokki. Það sem skemmir þó mest fyrir þeim er að í Serbíu er handboltaheimurinn skiptur eins og stjórnmálaflokkar. Það veltur á því hver er þjálfari hvaða leikmenn gefa kost á sér í landsliðið. Þannig að liðið getur verið gríðarlega misjafnt eftir mótum. Íslandi hefur einnig oft gengið illa með lið sem þeir „eiga að vinna“ þannig að Austurríkisleikurinn gæti orðið strembinn, en ætti að klárast.

Ég spái því að Íslandi sigri Serbíu og Austurríki en tapi á móti Dönum.

Í hvaða sæti enda strákarnir okkar ?

Ég ætla að tippa á 5 sæti.

Nú hefurðu spilað með og á móti mörgum af strákunum í landsliðinu. Hver er besti leikmaðurinn sem þú hefur spilað með ? Hverjum er erfiðast að spila á móti og af hverju ?

Af þeim sem eru í landsliðinu myndi ég segja að Snorri Steinn væri sá besti sem ég hefði spilað með. Ótrúlegur miðjumaður sem hefur það fram yfir marga aðra í hans stöðu hvað hann er með ógnandi og góð skot. Sem samherji var Bjöggi líka mjög góður og var samvinna okkar í unglingalandsliðunum mjög góð. Hann er dæmi um mann sem hefur komist þar sem hann er af dugnaði og áhuga.

Annars eru þeir margir erfiðir andstæðingar í þessu liði. Ólafur Stefánsson er t.d. maður sem vekur upp þá tilfinningu hjá manni að það sé ekki möguleiki að verja frá honum. Virðist alltaf sjá hvaða skot er það erfiðasta fyrir markmanninn. Svo hefur Aron Pálmarsson bætt svo miklum styrk í skotin sín að það er kannski ekki beint draumastaða að henda sér fyrir boltana frá honum.

Hver er mesti furðufuglinn í landsliðinu ?

Það eru margir sem eru ansi furðulegir. Logi Geirs er t.d. alveg sérstakt eintak. Mýsnar sem læðast eru hins vegar ekki skárri eins og einhver sagði. Vignir Svavars er t.a.m. magnaður en alveg stórfurðulegur náungi. Hann er t.d. með fjölskylduna sína tattúeraða á magann í Óla Prik-formi. Það er svoldið spes.

Eitthvað að lokum ?

Ég vona innilega að Völsungur komi sterkir inn á næstu árum með lið í handboltanum. Það sem ég hef séð af þeim strákum sem eru að æfa síðustu ár lofar mjög góðu og ég held að liðið ætti fullt erindi með að skrá sig í deildarkeppni eftir 1-2 ár. Það eru þarna ungir leikmenn sem hellings bolti er í og eldri leikmenn sem ég spilaði með á sínum tíma sem eiga klárlega enn fullt inni. Vil svo sjá Völsung-FH í bikarnum á næsta ári.

Þökkum litlu rúsínubollunni þeirra Sollu og Péturs kærlega fyrir að líta uppúr lagabókstafnum og gefa sér tíma í að spjalla við okkur.

 

 

 

 


Athugasemdir

  • Herna

Ingvar Björn-Rafnar Orri- Bjarki Breiđfjörđ