Umfjöllun: Völsungar enn í sigurleitÍþróttir - Ingvar Björn Guðlaugsson - Lestrar 1009 - Athugasemdir ( )
Það var bongóblíða og dass af áhorfendum á Húsavíkurvelli þegar leikur Völsunga gegn Þrótturum var flautaður á í dag. Fyrir leik sátu liðin tvö í botnsætunum og því mikið undir í leiknum. Dejan Pesic hefur ekki jafnað sig af meiðslum svo Kjartan Páll Þórarinsson sótti hanskana aftur upp í hillu og varði búrið. Hrannar Björn er enn frá vegna handarbrots og Sveinbjörn Már var fjarverandi í dag.
Byrjunarlið Völsungs: Kjartan Páll Þórarinsson, Sindri Ingólfsson(Halldór Fannar Júlíusson '85), Petér Odrobéna, Marko Blagojevic, Sigvaldi Þór Einarsson, Halldór Orri Hjaltason, Pétur Ásbjörn Sæmundsson(Guðmundur Óli Steingrímsson '46), Arnþór Hermannsson(Ármann Örn Gunnlaugsson '65), Hafþór Mar Aðalgeirsson(f), Ásgeir Sigurgeirsson og Vladica Djordjevic.
Gul spjöld: Ásgeir Sigurgeirsson, Sindri Ingólfsson, Marko Blagojevic.
Hafþór Mar Aðalgeirsson var kominn í liðið á nýjan leik eftir meiðsli og bar fyrirliðabandið í fyrsta skipti í dag. Hann sem og aðrir Völsungar virtust vel stemmdir þegar leikurinn var flautaður á en menn voru slegnir harkalega niður strax á 3.mínútu. Gestirnir fengu þá aukaspyrnu á stórhættulegum stað sem Halldór Arnar Hilmarsson hamraði í markhornið. 0-1 alltof alltof snemma.
Arnþór Hermannsson tók tvær aukaspyrnur sem við fengum á hættulegum stöðum og enduðu þær báðar rétt yfir markið. Sérstaklega var sú seinni nærri því en sá bolti smaug bara örfáum sentimetrum yfir slánna.
Lagleg sókn okkar endaði svo með jöfnunarmarki á 23.mínútu. Vladica Djordjevic tók þá boltann niður á miðjunni og óð af stað og fékk Arnþór með sér út hægra megin. Gaf boltann á Arnþór sem renndi honum stutt inn á teiginn þar sem Hafþór Mar tók boltann, sneri laglega á varnarmann og kláraði með yfirvegun undir markvörðinn, með vinstri fæti! 1-1 og bros og jákvæðni í brekkunni!
Á 34.mínútu komust Þróttarar í 1-2 með marki úr skyndisókn. Við fengum aukaspyrnu á miðjum velli og gestirnir hreinsuðu spyrnuna frá, geystust af stað í sókn og illviðráðanlegur framherji þeirra, Sveinbjörn Jónasson lék framhjá tveimur varnarmönnum áður en hann kláraði færi sitt framhjá Kjartani. Eftir markið voru heimamenn daprir en Þróttarar sóttu af krafti fram að hálfleik. Kjartan varði tvívegis vel og staðan því 1-2 í hálfleik.
Bæði lið sóttu í seinni hálfleik. Höfrungurinn Andri Gíslason átti skot í slánna á marki Völsunga af 25 metrum áður en Vladica í okkar liði átti veikt vinstrifótar skot úr ágætis færi hinum megin. Hafþór Mar fékk hörkufæri í teig Þróttara en fast skot hans beint í markvörðinn en það hefði verið dásamlegt að jafna leikinn þarna. Marko átti svo hörkuskalla eftir hornspyrnu sem var vel varinn, rétt áður en Þróttarar komust í 1-3. Langur bolti fram sem sveif hægt og rólega yfir varnarlínuna og samskiptarleysi milli varnar og Kjarra leiddi til þess að Þróttari var allt í einu með boltann og kláraði af stuttu færi. Þetta var á 85.mínútu og leikurinn svo gott sem búinn þarna.
Þóroddur Hjaltalín jr. flautaði svo til leiksloka og lokatölur því 1-3, Þrótti í vil sem þar með hafði sætaskipti við okkur og sendi okkur niður í 12. og neðsta sætið.
Jákvæði Ingvar segir að það séu batamerki á liðinu. Ég er bjartsýnismaður með hálffullt glas öllu jafna. Við verðum þó að fækka barnalegum mistökum og minnka einbeitingarskortinn og það strax. Við verðum bara að fara að hala inn stig. Það er algjör óþarfi að leggja árar í bat, menn verða bara að berjast og halda út til enda.
Marko Blagojevic var valinn maður leiksins en hann kastaði sér fyrir mörg skot og stoppaði ansi margar sóknir gestanna. Við mætum sterku liði Grindvíkinga á útivelli næst og verðum bara að mæta alveg sultugeðveikir í þá baráttu. ÁFRAM VÖLSUNGUR!!
Athugasemdir