Umfjöllun um leik Völsungs og GRVÍţróttir - - Lestrar 331 - Athugasemdir ( )
Við ágætis keppnisaðstæður mættust á Húsavíkurvelli, í dag, Völsungur og GRV. Leikurinn var síðari leikur liðanna í umspili um að komast upp í Landsbankadeild kvenna en GRV vann fyrri leikinn í Grindavík 3-1 á sunnudaginn síðastliðinn.
Leikurinn fór hægt af stað og bæði liðin virtust vera að þreifa fyrir sér til að byrja með. GRV sýndi strax í byrjun að þær hyggðust stinga boltanum á fljóta kantmenn sína bakvið bakverðina og koma boltanum þaðan fyrir markið. Lítið sem ekkert skeði þó þar til að á 20.mínútu að eftir eina fyrirgjöfina skullu saman markvörður Völsunga, Mjöll Einarsdóttir, og framherji GRV. Mjöll lá eftir í valnum og var síðan skipt út af fyrir Önnu Guðrúnu Sveinsdóttur.
Á 25.mínútu leit fyrsta mark dagsins ljós en þversending heimamanna frá vinstri hleypti Hafrúnu Olgeirsdóttur í gegn. Hafrún var í tiltölulega þröngu skotfæri en lét vaða og markmaður GRV, Bonnie Mills, varði boltann aftur til hennar. Hafrún reyndi aftur en markmaðurinn sá við henni í annað skiptið, boltinn fór hátt í loft upp og datt niður við vítateigslínu þar sem að Berglind Ósk Kristjánsdóttir kom aðvífandi og tók boltann á lofti í hægra hornið. Vel klárað hjá Berglindi, staðan orðin 1-0 og einvígið galopið.
Völsungur og Paradís virtust þó ekki ætla að eiga samleið þetta kvöldið og aðeins nokkrum mínútum síðar höfðu GRV jafnað. Sending af hægri kanti rataði þá beint á koll framherja þeirra sem skallaði boltann í átt að fjærhorninu. Anna Guðrún kastaði sér á boltann, greip hann og missti beint fyrir fætur leikmann gestanna, Begum Malali, sem sendi boltann rakleiðis i markið. 1-1 þá staðan og 2-4 samtals.
Svo virtist sem að nú yrði allur vindur úr Völsungsstelpum og endalausar stungur gestanna upp hægri kantinn héldu áfram. Í tvö skipti slapp kantmaðurinn í gegn og skaut en Anna Guðrún gerði vel í bæði skiptin að verja. Eftir fyrirgjöf frá hægri átti síðan Kristín Karlsdóttir skot í utanverða stöngina.
Á 38.mínútu var mikið hnoð um boltann úti á kanti á vallarhelmingi Völsunga. Boltinn fór inn á miðju þar sem Anna Þórunn leikmaður GRV tók á móti og óð af stað. Lengi vel mætti henni engin fyrirstaða fyrr en hægri bakvörður heimamanna, Andrea Kjartansdóttir mætti á svæðið. Anna renndi boltanum til hliðar á Begum Malali sem var með markið opið fyrir framan sig og renndi boltanum í það mitt. 1-2 og svo virtist sem einvíginu væri lokið. Heimastúlkur ætluðu þó að selja sig dýrt og Hafrún Olgeirsdóttir átti frábæra þversendingu frá hægri sem að Berglind Ósk tók vel niður, lék á eina og skaut frá vítateig en skot hennar fór rétt yfir mark heimamanna. Fyrri hálfleikurinn fjaraði svo út með skoti Hörpu Ásgeirsdóttur framhjá marki gestanna.
Heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn á því að Gígja Valgerður Harðardóttir fór á harðaspanni upp vinstri kantinn, lék sér að Brynhildi Tyrfingsdóttur og skaut að marki en Bonnie Mills var vel staðsett og varði. Gestirnir héldu áfram að nýta kantana og sending frá Ágústu Jónu Heiðdal skilaði sér út í teiginn á Önnu Þórunni sem átti skot rétt framhjá markinu.
Á 60.mínútu tók Hafrún Olgeirsdóttir hornspyrnu sem datt fyrir fætur Berglindar Ósk sem stóð í miðjum vítateignum. Varnarmenn köstuðu sér fyrir fast skot hennar og náðu að gera það aftur er hún skaut úr endurkastinu. Fljótlega eftir það átti Guðlaug Sigríður Magnúsdóttir skot úr aukaspyrnu rétt framhjá markinu. Gígja Valgerður og Hafrún tóku léttan þríhyrning áður en Gígja sprengdi upp kantinn og átti sendingu út í teig þar sem leikmaður Völsungs átti skot framhjá.
Á 75.mínútu átti Gígja enn einn sprettinn og lék á varnarmann áður en hún og Hafrún tóku þríhyrning. Gígja fékk boltann aftur á markteig og var að fara að skjóta þegar hún virtist vera klippt niður, frá sjónarhorni fréttaritara séð allavega. Dómari leiksins var á öðru máli og veitti reiðum þjálfara Völsungs tiltal við hliðarlínuna.
Tveimur mínútum síðar fengu gestirnir svo vítaspyrnu. Miðjumaður sótti þá á Elvu Marý Baldursdóttir og í þann mund sem Elva ætlaði að stoppa hana ýtti hún boltanum framhjá henni og var því tekin niður. Réttilega dæmt víti sem að Ágústa Jóna Heiðdal skorað örugglega úr.
Nú var einvíginu með öllu lokið og hægðist á leiknum. Það var svo í uppbótartíma sem að Ágústa Jóna fékk stungusendingu og "chippaði" boltanum yfir Önnu Guðrúnu í markinu. Fagmannlega klárað hjá Ágústu. 1-4 lokastaðan og samtals endaði viðureignin 2-7
Hálfleiksræða Jóhanns Kristinns þjálfara heimamanna virtist skila sér til sumra en heimamenn mættu óhræddari í seinni hálfleikinn. Elva Marý veigraði sér aldrei hjá því að fara í boltann af grimmd og fullri hörku en hún stoppaði GRV liðið oft vel við sóknaruppbyggingar. Gígja Valgerður átti marga frábæra spretti upp vinstri kantinn og náðu hún og Hafrún nokkrum sinnum að opna vörnina með fallegu þríhyrningaspili. Þó vantaði alltaf lokahnykkinn á sóknirnar og boltinn glopraðist þegar komið var að vítateig. Hjá gestunum var Anna Þórunn Guðmundsdóttir alltaf hættuleg og stjórnaði miðjunni hjá þeim vel. Hún átti margar frábærar sendingar upp í hornin sem Ágústa Jóna Heiðdal og Begum Malali voru duglegar í að koma boltanum fyrir markið. Oft náðu framherjar liðsins að komast í boltann en Anna Guðrún varði annað hvort vel eða hittnin var ekki með þeim og boltinn sigldi framhjá.
Athugasemdir