Umfjllun: Tap fyrsta deildarleik meistaraflokks kvennarttir - Ingvar Bjrn Gulaugsson - Lestrar 516 - Athugasemdir ( )
Völsungsstúlkur mættu Fram í 1.umferð 1.deildar kvenna B-riðils í gær, laugardaginn 19.maí. Leikurinn fór fram á heimavelli Framstúlkna, Úlfársvelli. Veðuraðstæður voru ágætar, nokkuð hlýtt en leiðinlegur vindur.
Byrjunarlið Völsungs:
Anna Jónína Valgeirsdóttir, Heiðdís Hafþórsdóttir (Berglind Jóna Þorláksdóttir ’59), Ásrún
Ósk Einarsdóttir (f), Jana Björg Róbertsdóttir, Helga Guðrún Guðmundsdóttir (Elma Rún Þráinsdóttir
’54), Anna Halldóra Ágústsdóttir, Helga Björk Heiðarsdóttir, Jóney Ósk Sigurjónsdóttir, Sigrún Lilja
Sigurgeirsdóttir, Ruth Ragnarsdóttir, Dagbjört Ingvarsdóttir (Ragna Baldvinsdóttir ’75).
Gul spjöld: Engin
Stúlkurnar spiluðu með sorgarbönd til minningar um Ásgeir Þórðarson, sem jarðsunginn var þennan dag. Einnig var mínútuþögn fyrir leikinn til minningar um Ásgeir og klappað var duglega eftir að henni lauk.
Stúlkurnar fyrir leik
Leikurinn byrjaði ekki glæsilega hjá Völsungum og voru stelpurnar töluvert frá sínu besta. Feimni, hræðsla og virðing fyrir
andstæðingnum er eitthvað sem fréttaritara dettur í hug en of margar stúlkur voru of langt frá andstæðingum sínum og voru ekki
tilbúnar til þess að slást við þær um boltann. Um leið og Framliðið áttaði sig á aðstæðum færðu
þær sig úr skotgröfunum og gerðu árás á Völsungsliðið sem var órafjarri hugarfarslega séð. Snemma leiks sluppu
þær í gegn en Anna Jónína í marki Völsunga gerði vel í því að verja sannkallað dauðafæri heimaliðsins.
Völsungar héldu áfram að verjast kraftmiklum sóknarmönnum Frammara sem voru ákveðnar og vel skipulagðar. Þeirra helsta ógn var í
snöggum kantmanni, Maríu Rós Arngrímsdóttur, sem kom til félagsins frá Breiðablik fyrr í vikunni. Hún var beinskeytt og hröð
og gerði Völsungum lífið leitt nær allan leikinn. Hún slapp í gegn snemma leiks og eftir viðskipti við Helgu Guðrúnu féll hún
við í teignum og fékk vítaspyrnu. Vítaspyrnan var þó slök og fór lengst yfir markið.
Á 17.mínútu uppskáru heimastúlkur eins og þær sáðu. Eftir gott spil upp völlinn höfðu þær ruglað öllu skipulagi Völsunga, boltinn kom inn á miðju þar sem að miðjumaður þeirra Rósa Hauksdóttir átti gott skot rétt undir slánna af um 25 metra færi. 1-0 fyrir Fram og vandræði framundan hjá Völsungsstúlkum ef áfram yrði haldið í óbreyttri mynd.
Betri tök náðust á varnarskipulagi Völsunga en illa gekk að mynda frambærilegar sóknir. Stúlkurnar unnu vel í að koma boltanum upp en á síðasta þriðjungnum vantaði oftar en ekki trúnna á að hægt væri að komast nær markinu.
Á 27.mínútu komust Framarar svo í 2-0. Unnu boltann á miðjunni, spiluðu hraða þríhyrninga sín á milli og framherji þeirra, Dagmar Arnardóttir, komst ein í gegn og kláraði færi sitt vel.
Vörnin vann sig áfram vel inn í leikinn og hætti að gefa færi á sér. Framstúlkur skutu því oftast nær lengst utan af velli sem Anna Jónína réði vel við. Undir lok hálfleiksins fórum við svo að færa okkur framar og eftir hornspyrnu skallaði Helga Björk boltann framhjá úr því sem verður að teljast hættulegasta færi okkar í fyrri hálfleik. 2-0 fyrir Fram í hálfleik.
Jói hefur eitthvað sagt við stelpurnar í hálfleik því þær voru töluvert beittari en áður þegar flautað var til leiks. Mættu sínum mönnum af meiri krafti og ætluðu að taka þátt í leiknum. Framstúlkur brunuðu upp kantinn á 52.mínútu og sendu boltann út í teig þar sem framherjinn Dagmar kom á ferðinni og skoraði af stuttu færi. 3-0 og sóknarleikur okkar hingað til hafði ekki bent til þess að við ætluðum okkur mikið.
Völsungsstúlkur tóku þó miðjuna og fljótlega eftir hana vann Anna Halldóra boltann, klobbaði miðjumann Framara og stakk boltanum inn á milli bakvarðar og miðvarðar þar sem Ruth Ragnarsdóttir kom á ferðinni og sneri boltann framhjá markverðinum sem kom út á móti. Einfalt og gott mark hjá Völsungsstúlkum og trú færðist yfir andlitið á þeim. 3-1 og enn nægur tími eftir enda bara 53 mínútur á klukkunni. Reyndar var engin vallarklukka til þess að sannreyna það en nægur tími engu að síður.
Strax mínútu síðar fengu Völsungar hornspyrnu sem barst á fjærstöngina þar sem að Ruth var fyrir opnu marki en boltinn fór framhjá markinu! Kjörfæri en Ruth réði því miður illa við skoppandi boltann. Við reyndum mikið að komast upp kantana en sterkir bakverðir Framliðsins sáu vel við okkur. Á 70.mínútu skoruðu Framarar svo á nýjan leik. Miðjumaður þeirra fékk nægan tíma fyrir miðju marki, hlóð í skot og setti það beint í hornið af um 20 metra færi. 4-1 fyrir Fram.
Okkur höfðu þó ekki alveg gefist upp og á 77.mínútu vann Helga Björk boltann við miðjuna, lék á miðjumann þeirra og sendi á Rögnu Baldvinsdóttur sem var nýkomin inn á. Ragna lagði boltann út til hliðar á Ruth sem var þá sloppin í gegn og skoraði hún laglega framhjá markverði Framara. 4-2!
Fátt markvert gerðist það sem eftir lifði leiks og niðurstaðan því 4-2 sigur Framstúlkna í 1.umferð 1.deildar kvenna B-riðils.
Ruth Ragnarsdóttir gerði bæði mörk Völsunga í leiknum
Það kom fréttaritara á óvart hvað Framliðið var sterkt, mun sterkara en liðið sem þær tefldu fram á síðasta ári. Þær munu standa sig vel í deildinni í sumar ef þær spila svona áfram. Þá að leik Völsunga. Þær liðu fyrir það að vera ekki gíraðar inn í leikinn frá fyrstu mínútu. Þær unnu sig betur inn í leikinn eftir því sem leið á en voru þó búnar að gefa andstæðingnum fullmikið forskot þegar þær loks bitu í skjaldarrendur. Varnarleikurinn styrktist en við þurftum þó fullmikinn tíma til þess að byrja leikinn. Það er þó eitthvað sem allar geta lagað í hausnum á sér sem og á æfingasvæðinu. Hugmyndaleysi var í sóknarleiknum oft á tíðum en við reyndum mikið sömu brögðin sem ekki voru að takast.
Stelpurnar mega þó ekki gefast upp, það býr mikið meira í þeim heldur en þeim tókst að sýna í þessum leik og þær fá kjörið tækifæri til þess að snúa blaðinu við strax á miðvikudaginn. Þá heimsækja þær Hött á Héraði í bikarnum en leikurinn fer fram á Fellavelli. Ég trúi ekki öðru en að stúlkurnar séu spenntar fyrir þeim leik og tækifærinu til þess að sýna hvað í þeim býr.
Athugasemdir