Umfjöllun: Stórt tap á heimavelliÍţróttir - Ingvar Björn Guđlaugsson - Lestrar 463 - Athugasemdir ( )
Völsungsstúlkur tóku á móti BÍ/Bolungarvík síðastliðinn sunnudag í 1.deild kvenna en fyrir leik var aðeins 2ja stiga munur
á liðunum. Leikurinn endaði með alltof stórum sigri gestanna að vestan en þær fóru með 5-1 sigur af hólmi. Leikur, kjarkur og hugarfar
Völsunga brotnaði þegar á leið og í miðjum klíðum misstu þær trúna á verkefninu.
Byrjunarlið Völsungs: Anna Guðrún Sveinsdóttir, Helga Guðrún Guðmundsdóttir, Ásrún Ósk Einarsdóttir,
Jóney Ósk Sigurjónsdóttir (Ragna Baldvinsdóttir '75), Jana Björg Róbertsdóttir, Anna Halldóra Ágústsdóttir
(Heiðdís Hafþórsdóttir '60), Helga Björk Heiðarsdóttir, Harpa Ásgeirsdóttir (f), Sigrún Lilja Sigurgeirsdóttir
(Elma Rún Þráinsdóttir '75), Ruth Ragnarsdóttir, Þórunn Birna Jónsdóttir (Guðný Björg Barkardóttir
'46).
Jafnræði var með liðunum til þess að byrja með en fóru Völsungar svo að taka yfirhöndina. Eftir fyrstu 20 mínúturnar bættu
heimastúlkur í sóknina og voru farnar að banka fast að dyrum gestanna. Sigrún Lilja fékk góða stungu inn fyrir vörnina en frá
vítateig skaut hún í fyrstu snertingu og fór boltinn framhjá markinu. Mögulega hefði hún betur tekið boltann með sér og fært
sig nær markinu.
Anna Halldóra byggði svo upp tvær góðar sóknir með stuttu millibili. Fékk boltann á miðjunni og átti góða sendingu út
á hægri kantinn í hlaupið hjá Sigrúnu Lilju sem sendi boltann fyrir á Önnu sem var sjálf mætt inn í teiginn en skot hennar
frá markteig var varið út í teig og þaðan hreinsað. Strax á eftir átti hún aðra eins sendingu á Sigrúnu sem gaf fyrir og
mætti Anna þá aftur og skallaði boltann áfram á Þórunn Birnu sem lenti í klafsi í teignum og kom boltanum til hliðar á Ruth
sem skaut framhjá úr ákjósanlegu færi. Þarna trúði maður ekki öðru en að Völsungar myndu skora og aðeins
tímaspursmál hvenær markið kæmi.
Manni verður þó ekki alltaf að ósk sinni en eftir langan, tiltölulega hættulausan bolta fram völlinn frá gestunum sendi Jóney Ósk
lélega sendingu til baka á Önnu í markinu sem sóknarmaður BÍ/Bol tróð sér inní, lék á Önnu og skoraði
auðveldlega. 1-0 fyrir gestina og markið eins og blaut tuska framan í Völsunga.
Helga Björk komst ein í gegn hinumegin og skaut framhjá áður en að gestirnir komust í 2-0. Þá tók framherji þeirra, Talita Pereira,
sig til og lék á Völsungsstúlkur, hverja á fætur annarri áður en hún lét Önnu Guðrúnu verja frá sér
úr dauðafæri áður en hún fylgdi sjálf eftir. Virkilega sprækur leikmaður og klárlega munur liðanna þennan sólríka
sunnudag. Þetta var rétt fyrir hálfleik en Völsungsstúlkum tókst þó að minnka muninn fyrir hálfleiksflautið.
Sigrún Lilja fékk þá sendingu inn fyrir vörnina og gaf lágan bolta fyrir markið sem Helga Björk Heiðarsdóttir mætti í endann
á og kláraði. 1-2 þegar flautað var til hálfleiks og miðað við hvernig leikurinn hafði spilast þá voru vonir Völsunga
góðar fyrir seinni hálfleikinn.
Eftir aðeins um mínútuleik í seinni hálfleik þurfti leikmaður gestanna aðhlynningu og var hún flutt upp á sjúkrahús eftir
mikla reikistefnu margra einstaklinga á vellinum. Völsungum tókst lítið að skapa sér og voru sendingar liðsins á síðasta
þriðjungnum uppfullar af vonleysi og vantrú.
Botninn sló svo úr á 70.mínútu þegar títtnefn Talita slapp í gegnum vörn Völsunga og kláraði í tilraun tvö
eftir að fyrra skot hennar hafði endað í stönginni. Völsungar skelltu sér niður á hælana og hengdu haus og fengu annað mark beint í
andlitið örskömmu síðar sem var eftir sömu uppskrift, stungusending á Talitu sem kláraði. 4-1 og engin trú á sögulegu kombakki.
Aðeins sárafáar héldu áfram að reyna og leikurinn rann út í vonleysi, en í millitíðinni skoruðu gestirnir enn eitt markið
eftir klafs í vítateignum og enduðu leikar því 5-1 fyrir BÍ/Bolungarvík.
Ruth Ragnarsdóttir var 640.is - Nivea stúlka leiksins og hlaut gjafapakkningu frá Nivea í tilefni þess.
Völsungsstúlkur geta tekið margt jákvætt með sér úr fyrri hálfleiknum. Þær voru sterkari aðilinn en stundareinbeitingarleysi olli
því að þær gáfu mark. Uppúr því bjuggu þær til rosalega virðingu fyrir framherja andstæðingsins og gáfu henni
hellings tíma þegar hún nálgaðist boltann í stað þess að láta hana finna almennilega fyrir sér.
Getumunur liðanna felst aðallega í þessum framherja sem lék Völsunga grátt í leiknum en sú er virkilega öflug. Án hennar væri
BÍ/Bolungarvík mun verra lið en aftur á móti mistókst herfilega að stoppa þennan tiltekna einstakling.
Stelpurnar létu mótlætið of mikið fara í taugarnar á sér og brotnuðu undan því en liðið þarf að sýna meiri
karakter heldur en var í þessum leik. Þótt liðið lendi undir er alltaf tími til þess að bæta fyrir það.
Nú verða stelpurnar að gleyma þessum leik og einbeita sér að liði Fram sem heimsækir Húsavík um helgina. Stelpurnar eiga harma að hefna
gegn þeim frá því í fyrsta leik og eru eflaust alveg brjálaðar í það að sýna betri spilamennsku og bæta fyrir
síðasta leik. Leikurinn gegn Fram er á laugardag kl.14.00 og hvetjum við alla Völsunga til þess að mæta í brekkuna og styðja við bakið
á stelpunum okkar og aðstoða þær við að sigra þennan leik.
ÁFRAM Völsungur!
Athugasemdir