Umfjllun: Heilladsirnar svifu loks um Grluvllrttir - Rafnar Orri Gunnarsson - Lestrar 589 - Athugasemdir ( )
Strákarnir sóttu mikilvæg þrjú stig í Hveragerði í gær er liðið sigraði Hamar, 2-3, í annari
umferð 2.deildar eftir óþægilega stressandi lokamínútur. Mörk Völsungs skoruðu þeir Tine Zornik og varnartröllið Marko Blagojevic sem
gerði sér lítið fyrir og setti tvö. Mikil barátta og samheldni einkenndi aftur leik liðsins en sigurinn var virkilega sætur því fyrir leikinn
í dag hafði Völsungur aldrei náð að fara með sigur af hólmi á Grýluvelli.
Byrjunarlið Völsungs:
Dejan Pesic, Stefán Jón Sigugeirsson, Gunnar Sigurður Jósteinsson, Marko Blagojevic, Sigvaldi Þór Einarsson, Bergur Jónmundsson, Sigþór
Hannesson (Bjarki Þór Jónasson '87), Arnþór Hermannsson, Hafþór Mar Aðalgeirsson, Ásgeir Sigurgeirsson (Aðalsteinn
Jóhann Friðriksson '95), Tine Zornik
Gul spjöld: Sigþór Hannesson, Sigvaldi Þór Einarsson, Bergur Jónmundsson, Dejan Pesic
Rautt spjald: Bergur Jónmundsson
Það byrjaði fjörlega í Hveragerði því strax á 5.mínútu leiksins tóku okkar menn forystuna. Arnþór Hermannsson
tók hornspyrnu sem Gunni Siggi skallar niður í miðjan teig og hver annar en kóngurinn Marko Blagojevic er mættur og hamrar boltann í netið.
Glæsileg afgreiðsla og fyrsta mark Blagojevic fyrir félagið staðreynd.
Heimamenn vöknuðu aðeins til lífsins við þetta og sköpuðu sér tvö hættuleg færi sem þeir fóru ílla með.
Ásgeir, Haffi og Tine eða græna þrennan eins og ég kýs að kalla þá voru sprækir fremst á vellinum og oft á tíðum
hlógu þeir af Hamarsmönnum. Sem dæmi þá labbaði Tine í gegnum 4-5 fimm heimamenn með nýrakaðan kollinn en aðeins vantaði að
klára færin á markið.
Það kom svo í uppbótartíma fyrrihálfleiks er Ásgeir Sigurgeirs skallar boltann til Arnþórs sem staðsettur var rétt fyrir framan
miðjuna, hann stingur inn fyrir á Tine sem var pollrólegur, lagði boltann snyrtilega í fjærhornið og tryggði Völsungi tveggja marka forystu inn
í leikhlé. Staðan í hálfleik, 0-2.
Tine Zornik skorar sitt fyrsta mark fyrir Völsung
Marko kyssir Tine á kollinn og óskar honum til hamingju
Hamarsmenn gerðu eina breytingu á liði sínu í hálfleik en Sene Abdalha sem hafði mætt seint á æfingu daginn áður mátti
hefja leikinn á tréverkinu en hann var kominn inn og var ekki lengi að stimpla sig inn í leikinn. Hann minnkaði muninn fyrir heimamenn þegar aðeins tvær
mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Sene slapp inn fyrir vinstra megin eftir klaufagang hjá okkar mönnum og renndi boltanum í
fjærhornið en Dejan var hársbreidd frá því að setja löppina í knöttinn. Staðan, 1-2, eftir 47.mínútur. Maður spyr sig
hvort okkar drengir hafi hreinlega haldið að þetta væri komið en menn ættu að vita það að á Grýluvöll sækir engin gefins stig
því líkt og áður kom fram hafði Völsungur aldrei unnið í Hveragerði.
Strákarnir tóku sig saman og rifu upp stemninguna á nýjan leik. Það var mikil barátta og kraftur í mönnum líkt og helgina
áður en flest skallaeinvígi og tæklingar vorum við að vinna. Fjórir öftustu virkuðu vel og héldu línu en Bergur Jónmundsson steig
einu skrefi lengra með sinn leik og átti flottan dag. Sömuleiðis var Sigþór Hannesar duglegur sem fyrr á miðjunni, gjörsamlega á fullu
útum allan völl líkt og snjósleði en með meiri ró og aga getur hann bætt leik sinn mikið.
Nú biðu allir eftir þriðja markinu sem svo loks kom á 53.mínútu leiksins. Títtnefndur Arnþór Hermannsson tók hornspyrnu sem
rataði á kollinn á Marko Blagojevic og boltinn söng í netinu. Marko hljóp til þeirra stuðningsmanna Völsungs sem mættir voru á
völlinn og með serbastökki upp í bláan himininn hann fagnaði með stæl. Staðan, 1-3, og nú var það bara að sigla þessu í
land.
Marko fagnar öðru marki sínu með alvöru serbastökki
Bæði lið fengu fína sénsa eftir þetta sem fóru forgörðum en það er óhætt að segja að þetta hafi ekki verið
fallegasti fótbolti sem menn hafa augum litið. Burt séð frá því þá var óhemju mikil barátta í liðinu og liðsmenn
að spila fyrir hvorn annan, það er það sem skiptir máli í þessari deild. Þú færð ekki aukastig fyrir að spila samba.
Það byrjaði að færast hiti í mannskapinn undir lokin en á 75.mínútu fékk Hrafnkell Freyr Ágústsson leikmaður Hamars að
kveðja völlinn með rautt spjald á bakinu eftir að hafa fengið að líta sitt annað gula spjald. Völsungar voru þó ekki fleiri í
langan tíma því fimm mínútum síðar er Bergur í baráttunni á miðjunni, fellur við í klafsi og stigur til klofs á
markaskorara heimamanna. Hamarsmenn brjálaðir yfir ósvifni Bergs sem vildi meina að þetta hafi verið óviljaverk og heimta okkar mann útaf. Dómari
leiksins, Snorri Páll Einarsson, sótti kortin í vasarifuna og flaggði seinna gula spjaldinu framan í Berg og þar með kom það rauða í
kjölfarið. Bergur tók um andlit sér og arkaði svekktur af velli. Tíu mínútur eftir af leiknum og jafnt í liðum. Á þessum
tímapunkti var fréttaritari farinn að finna fyrir óþægilega miklu stressi.
Bergur Jónmundsson fær að
líta rauða spjaldið
Heimamenn voru ekki tilbúnir að gefa þetta svo glatt en þeir minnkuðu muninn aftur á nýjan leik undir lokin eða þegar ein mínúta var
eftir af venjulegum leiktíma. Framherji þeirra skorar sitt annað mark með fínum skalla í fjærhornið eftir aukaspyrnu. Staðan, 2-3, og leikurinn
skyndilega galopinn.
Dómari leiksins bætti við fimm mínútum en þær áttu eftir að vera yfirþyrmandi. Strákarnir okkar voru leiðinlega kærulausir
og leikur liðsins datt niður. Það var svona tilfinning í loftinu eins og að Hamarsmenn ætluðu enn eina ferðina að hirða af okkur stigin líkt
og forðum. Hamarsmenn fengu sénsa til þess að jafna undir það síðasta en vörnin stóð ásamt Dejan Pesic sem lokaði markinu.
Á síðustu andartökum leiksins brýtur Bjarki Þór klaufalega á leikmanni Hamars rétt fyrir utan teig hægra megin og aukaspyrna
réttilega dæmd. Heimamenn spyrna fyrir og endaði boltinn á fjærstöng þar sem leikmaður Hamars skýtur framhjá úr dauðafæri.
Heilladísirnar höfðu loks fyllt okkur til Hveragerðis en í framhaldi af þessu flautar ágætur dómari leiksins Snorri Páll til leiksloka og
lokatölur í Hveragerði, 2-3, Völsung í vil.
Frábær sigur hjá strákunum og þvílík barátta og vilji til þess að gera þetta saman. Ánægjulegt að sjá
þróun og skref tekin í rétta átt á öllum svæðum vallarins og hjá öllum leikmönnum liðsins. Heilt yfir fannst mér
við betra liðið í leiknum en við megum ekki detta svona niður undir lok leiks því það sama gerðist líka helgina áður er
liðið sigraði KF í fyrstu umferð. Við verðum að klára leikina á fullu og ef þið eruð þreyttir fariði þá
útaf. Við erum að fá alltof margar skyndisóknir á okkur og gefa andstæðingunum dauðafæri undir lokin vegna klaufagangs eða þreytu.
Útaf með ykkur ef þið eruð búnir á því eða klárið leikina eins og menn, það bíða ferskar lappir á
bekknum sem horfa girndaraugum á völlinn.
Næsti leikur liðsins fer fram á Húsavíkurvelli um næstu helgi en þá mætir Grótta í heimsókn. Fyrsti alvöru
heimaleikur sumarsins og ef þetta er það sem strákarnir ætla að bjóða upp á í sumar er mér óhætt að bjóða
ykkur öllum að mæta í brekkuna og taka þátt í þessu með okkur. Það er stígandi í hverjum leik og stemningin verður
meiri með hverjum deginum sem líður. Liðið er með fullt hús stiga eftir fyrstu tvær umferðinnar og þannig ætla þeir sér að
halda áfram. Mætið á völlinn með Völsungsbrosið og takið þátt í þessari snilld sem er í gangi!
Maður leiksins: Marko Blagojevic
Athugasemdir