Umfjllun: Grarsvekkjandi bikartap gegn Hettirttir - Ingvar Bjrn Gulaugsson - Lestrar 637 - Athugasemdir ( )
Völsungsstúlkur heimsóttu Hött á Egilsstöðum en leikurinn fór fram á Fellavelli. Völsungur sýndi flotta takta og réði lögum og lofum framan af án þess þó að skora mark. Þeim var refsað í restina og gríðarsvekkjandi 0-2 tap því staðreynd.
Byrjunarlið Völsungs:
Anna Jónína Valgeirsdóttir, Anna Halldóra Ágústsdóttir, Jana Björg Róbertsdóttir, Ásrún Ósk
Einarsdóttir, Elma Rún Þráinsdóttir, Berglind Jóna Þorláksdóttir (Helga Guðrún Guðmundsdóttir '46),
Dagbjört Ingvarsdóttir (Heiðdís Hafþórsdóttir '73), Jóney Ósk Sigurjónsdóttir, Sigrún Lilja
Sigurgeirsdóttir, Ruth Ragnarsdóttir og Helga Björk Heiðarsdóttir.
Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru góðar á Fellavelli
Það var allt annað að sjá til Völsungsliðsins á Fellavelli heldur en í leiknum gegn Fram um síðustu helgi. Strax frá fyrstu mínútu sýndu stelpurnar mikið öryggi á boltanum, spiluðu með jörðinni og fundu gott pláss til þess að athafna sig. Höttur var með snögga kantmenn og reyndi að beita skyndisóknum en varnarlína Völsunga át allt sem á þær kom í fyrri hálfleik.
Það var þó eins og Völsungsstúlkur hefðu ákveðið að þær myndu ekki skora í leiknum en allt gekk glimrandi vel þar til komið var á teig, þar voru skotin klaufaleg og sendingarnar of fastar og óhnitmiðaðar. Á 16.mínútu óð Anna Halldóra upp völlnn og lagði boltann til hliðar á Ruth sem skaut frá vítateigslínu en náði ekki nægilegum krafti í skotið og markvörður Hattarstúlkna varði. Aðeins mínútu síðar fékk Helga Björk boltann um 25 metra frá marki og með nægt pláss lét hún vaða á markið en aftur var markvörðurinn vandanum vaxin.
Spil stúlknanna gekk ágætlega en það er eins og áður, á síðasta þriðjungnum var stressið of mikið og hlutirnir ekki nógu vel útfærðir. Skot okkar voru ekki nógu góð og sterkur markvörður Hattarstúlkna sá við því sem stefndi á markið.
Þegar flautað var til hálfeiks var staðan 0-0 og Völsungsstúlkur ósáttar við það enda verið sterkari aðilinn. Varnarleikur liðsins frábær í fyrri hálfleik, þá sérstaklega frammistöður Jönu og Önnu Halldóru sem voru meira í atinu en aðrar.
Það sama var uppi á teningnum í seinni hálfleik. Við mikið með boltann og mikið í spili en skyndisóknir Hattarstúlkna leiddu oftar en ekki af sér hættulegri færi en okkur tókst að skapa gegn þéttum varnarmúr þeirra.
Á 81.mínútu fengu Hattarstúlkur aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Völsunga og eftir klafs datt boltinn fyrir framherja Hattarstúlkna sem átti fast og gott skot í fjærhornið. 1-0 fyrir Hetti og hreinlega erfitt að trúa því að Völsungar væru lentir undir eftir þessar fyrstu 80 mínútur. Við þetta fjölguðu Völsungar í sókninni og opnuðu sig töluvert baka til. Heimastúlkur fengu dauðafæri en Anna Jónína hreinlega át andstæðinginn er hún kom út á móti og varði rosalega vel.
Rétt fyrir leikslok áttu Ruth og Helga Guðrún gott samspil á kantinum sem endaði með fyrirgjöf Helgu á fjærstöngina þar sem Jana Björg skallaði boltann rétt framhjá markinu. Á 93.mínútu slapp framherji Hattar í gegnum þunnskipaða varnarlínu Völsunga og fékk vítaspyrnu eftir viðskipti sín við Ásrúnu. Réttilega dæmt og nýtti hún vítaspyrnuna sína. 2-0 og var flautað til leiksloka áður en miðja var tekin að nýju.
Óheppinn línuvörður að þurfa að hitta á Ingvar í sjoppunni eftir leik
Úr því sem komið var skipti litlu máli hvort það færi 1-0 eða 2-0 og gerðu Völsungar því rétt í því að fjölga í sókninni. Það er hreint ótrúlegt að hafa ekki klárað leikinn fyrr og hreinlega unnið hann en það verður þó að segjast að Hattarstúlkur fengu betri færi í kjölfar skyndisókna sinna heldur en okkur tókst að skapa. Það þarf meira drápseðli í fremstu línu og að ætla sér að skora!
Bikardraumar eru því úti þetta árið hjá báðum meistaraflokkunum en það verður bara að hafa það. Stelpurnar fengu góðar 90 mínútur og spiluðu vel. Það var mikil bæting á leik liðsins frá síðustu helgi og stelpurnar verða bara að halda áfram á þessari braut.
Jana Björg Róbertsdóttir var maður leiksins en hún stóð sig frábærlega í vörninni. Hljóp uppi snögga framherja Hattar trekk í trekk, fór í alla bolta og tæklingar af krafti og vann þær flestar með því. Anna Halldóra Ágústsdóttir átti einnig fantafínan leik í vörn liðsins, þá sérstaklega í fyrri hálfleik þegar Höttur þorði að sækja upp þann væng. Reyndar stóð vörn liðsins sig með prýði og voru Anna Jónína, Ásrún og Elma einnig allar mjög sterkar. Miðjan var vel spilandi og örugg í sínum aðgerðum en svo það komi einu sinni til viðbótar fram, þá vantar að klára færin.
Næsti leikur er fyrsti heimaleikur sumarsins. Stelpurnar fá Álftanes í heimsókn á sunnudaginn og hefst leikurinn kl.14.00. Við hvetjum alla til
þess að mæta á þennan fyrsta heimaleik stelpnanna og styðja við bakið á þeim. ÁFRAM VÖLSUNGUR!
Tengdar greinar:
Jana Björg:
Við gjörsamlega yfirspiluðum þær
Athugasemdir