Umfjllun: Bragdauft jafntefli gegn Keflavkrttir - Ingvar Bjrn Gulaugsson - Lestrar 427 - Athugasemdir ( )
Völsungur og Keflavík mættust í B-riðli 1.deildar kvenna fyrr í dag á Húsavíkurvelli. Á köflum var hraði og barátta í leiknum en fátt um fína drætti færalega séð og endaði leikurinn með 0-0 jafntefli.
Byrjunarlið Völsungs:
Anna Guðrún Sveinsdóttir, Elma Rún Þráinsdóttir, Jóney Ósk Sigurjónsdóttir, Ásrún Ósk
Einarsdóttir, Anna Halldóra Ágústsdóttir, Ragna Baldvinsdóttir (Heiðdís Hafþórsdóttir '82), Helga Björk
Heiðarsdóttir, Harpa Ásgeirsdóttir (f), Helga Guðrún Guðmundsdóttir, Ruth Ragnarsdóttir, Þórunn Birna Jónsdóttir
(Sigrún Lilja Sigurgeirsdóttir '60).
Keflavíkurliðið byrjaði leikinn betur og voru mun ákveðnari í sínum aðgerðum. Sóttu hratt á vörn heimastúlkna, sem
stóðst áhlaupin með prýði, og reyndu að skapa sér færi. Eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn komust Völsungar
meira inn í leikinn og tóku yfirhöndina.
Völsungar pressuðu ofarlega á vellinum eftir að þær fóru að fóta sig í leiknum og endaði slík pressa eitt sinn með
því að Harpa Ásgeirsdóttir fékk boltann á opnu svæði fyrir framan vítateig andstæðinganna en skot hennar endaði
framhjá markinu.
Eftir um hálftíma leik átti Ruth Ragnarsdóttir góða fyrirgjöf frá vinstri sem endaði hjá Helgu Björk Heiðarsdóttur
utarlega í teignum hægra megin. Hún tók sér góðan tíma í að koma boltanum fyrir sig áður en hún hlóð
í fast skot sem var varið í horn. Hornið var hreinsað frá en þá rataði önnur fyrirgjöf inn á teiginn, til Helgu Bjarkar sem
fékk boltann á markteignum en feilaði á boltann úr dauðafæri.
Helga Björk
Heiðarsdóttir í baráttunni
Keflvíkingar sóttu líka í hálfleiknum en eftir fyrirgjöf frá hægri var vinstri kantmaður liðsins einn á auðum sjó
á fjærstöng en skot hennar endaði í hliðarnetinu. Lítið markvert gerðist það sem eftir lifði fyrri hálfleiksins og voru liðin
eflaust fegin pásunni þegar flautað var til hálfleiks.
Völsungar höfðu undirtökin í byrjun seinni hálfleiks og virtust líklegri til afreka en gestirnir. Flott samspil Hörpu og Þórunnar Birnu
endaði með því að Harpa komst ein gegn markmanni en boltinn skoppaði hátt í loft upp og Harpa setti boltann yfir markvörðinn og rétt yfir
markið í leiðinni.
Keflvíkingar færðu sig framar og skiptist boltinn vallarhelminga á milli án þess að alvöru marktækifæri væru búin til. Anna
Guðrún Sveinsdóttir í marki Völsunga var þó örugg þegar boltar rötuðu á markið og greip þá flesta af yfirvegun.
Eftir um 80 mínútna leik komst Ruth Ragnarsdóttir upp kantinn eftir sendingu Helgu Bjarkar en skot hennar frá vítateigshorni fór rétt framhjá
fjærstönginni. Leiktíminn rann svo út og endaði leikurinn því 0-0.
Jóney Ósk Sigurjónsdóttir var valin 640.is-Nivea stúlka leiksins og hlaut gjafapakkningu frá Nivea fyrir. Hún var öflug í hlutverki
sínu í miðri vörninni, hleypti engu framhjá sér og aðstoðaði samherja sína vel í hjálparvörn. Anna Guðrún var
örugg í markinu, Harpa Ásgeirs lykillinn að öflugustu sóknaraðgerðum Völsunga og mikil vinnsla og kraftur var í Helgu Guðrúnu
í dag. Aðrar áttu einnig ágætis leik og lítið hægt að kvarta undan Völsungsliðinu annað en að þær hefðu
þurft að vera hugmyndaríkari og grimmari í sóknaraðgerðum sínum.
Næsti leikur þeirra er á útivelli gegn HK/Víkingi um næstu helgi. Við teljum að HK/Víkingur sé svipað sterkt lið og
Keflavík og stelpurnar eiga fulla möguleika á að vinna þann leik ef þær byggja ofan á leik liðsins í dag.
Athugasemdir