Umfjöllun: Baráttuglaðir Völsungar áfram í Borgunarbikarnum

Völsungur og KF mættust í Borgunarbikar karla og lauk leiknum með 3-1 sigri þeirra grænklæddu. Leikurinn fór fram í Boganum á Akureyri og heldur betur

Umfjöllun: Baráttuglaðir Völsungar áfram í Borgunarbikarnum
Íþróttir - Elís Orri Guðbjartsson - Lestrar 863 - Athugasemdir ()

Hart barist í leiknum
Hart barist í leiknum

Völsungur og KF mættust í Borgunarbikar karla og lauk leiknum með 3-1 sigri þeirra grænklæddu. Leikurinn fór fram í Boganum á Akureyri og heldur betur glæsileg byrjun hjá okkar mönnum en þeir Ásgeir Sigurgeirsson og Gunnar Sigurður Jósteinsson sáu um markaskorun Völsunga.

Byrjunarlið Völsungs: Kjartan Páll Þórarinsson, Eyþór Traustason, Marko Blagojevic, Gunnar Sigurður Jósteinsson (f), Sigvaldi Þór Einarsson (Hrannar Björn Steingrímsson ’30), Halldór Fannar Júlíusson (Arnþór Hermannsson ’87), Pétur Ásbjörn Sæmundsson, Halldór Orri Hjaltason (Péter Odrobéna ’60), Sindri Ingólfsson, Ásgeir Sigurgeirsson, Hafþór Mar Aðalgeirsson.

Gervigrasið í Boganum var samt við sig þegar leikmenn Völsunga og KF stigu þar léttan dans í gærkvöldi. Um var að ræða fyrsta leik beggja þessara liða í Borgunarbikarnum. Völsungur og KF fóru bæði upp úr 2.deildinni í fyrra og gaman var að sjá hvernig liðin komu undan vetri. Það var þónokkuð af áhorfendum á pöllunum og greinilegt að fólk lætur vegalengdina ekkert aftra sér á völlinn.

1

Leikurinn var frekar tíðindalítill framan af og var ekki mikið um opin færi fyrstu mínúturnar. KF menn voru þó hættulegri framan af og áttu þeir til að mynda skot utan af velli í þverslá og niður eftir um 9.mínútna leik. KF voru líklegri og tíu mínútum eftir sláarskotið geystust þeir upp hægri vænginn sem endaði með fyrirgjöf inn í teiginn en Sigvaldi réttur maður á réttum stað og bjargaði á síðustu stundu. Stuttu síðar urðu Völsungar fyrir áfalli þegar Sigvaldi lenti í hnjaski og lá hann á hliðarlínunni meðan Helgi Steinar, sjúkraþjálfari KA manna, strauk honum blíðlega. Hrannar var sendur að hita upp og Völsungar einum færri í örfáar mínútur. Leikmenn KF ríða á vaðið og það var á 30.mínútu er þeir fá vítaspyrnu eftir að boltinn hafði lent í hönd Sindra. Kjarri fer í vitlaust horn og staðan orðin 1-0.

Hrannar kemur inn á í kjölfarið og bæði lið fullmönnuð. Völsungar ætluðu sér greinilega að jafna fyrir hálfleik því þeim óx fiskur um hrygg eftir því sem leið á leikinn og eftir nokkur hálffæri kom loks að því. Á 40.mínútu fær Haffi stungusendingu inn fyrir vörn KF, keyrir inn að marki og leggur hann til hliðar á Ásgeir sem klárar vel í nærhornið. Þannig stóðu leikar þegar flautað var til hálfleiks.

2geiri

Seinni hálfleikur var mun fjörlegri en sá fyrri og hófst hann með látum. Strax á 52.mínútu á Hrannar Björn stórkostlega sendingu þvert yfir endilegan völlinn á Haffa sem var í fimmta gír á hægri vængnum. Haffi tekur við boltanum, fer í átt að marki og leggur boltann á Ásgeir sem var í algjöru dauðafæri en bregst bogalistin. Uppspilið keimlíkt fyrsta marki Völsunga.

KF svöruðu um hæl og á 56.mínútu voru þeir óheppnir að skora ekki eftir hornspyrnu þegar leikmaður þeirra stóð gapandi frír í teignum og átti fastann skalla sem Kjarri varði vel. Óþarfa kæruleysi og klárlega eitthvað sem þarf að passa, við megum ekki leika okkur að eldinum. Eftir fjörugar fyrstu mínútur í seinni hálfleik dró aðeins úr þessu og við tók mikið miðjuhnoð. Eftir um klukkutímaleik kom svo Péter Odrobéna inn á í stað Halldórs Orra sem hafði átt fínan leik á miðjunni. Hvorugt liðið að skapa sér eitthvað af viti og hiti færðist í leikinn.

3

Á 81.mínútu gera varnarmenn Völsunga sig seka um slæm mistök og sóknarmaður KF sleppur einn í gegn. Kjarri sýndi hvers megnugur hann er og gjörsamlega át framherjann. Þarna skall hurð nærri hælum. 2 mínútum seinna eiga þeir svo annað dauðafæri í miðjum teig Völsunga en skotið fer hárfínt framhjá.

Þetta virtist vekja okkur aðeins til lífsins og á 87.mínútu fá Völsungar hornspyrnu sem Hrannar tekur. Boltinn berst á Haffa sem á skot sem Björn Hákon markvörður KF ver, boltinn berst út í teiginn á Marko sem á mislukkað skot sem fer í Ásgeir og boltinn skýst í átt til Gunna Sigga sem þakkaði pent fyrir sig og afgreiddi boltann laglega í netið. 2-1 Völsungum í vil og örfáar mínútur eftir. Í kjölfarið kemur Arnþór inn á fyrir Halldór Fannar.

gunni

Á 90.mínútu liggja KF menn á Völsungum enda þeir á leiðinni úr bikarnum ef leikar færu svona og því allt að vinna og ekkert að tapa. Kjarri á enn eina frábæru vörsluna sem endar í hornspyrnu. KF menn fjölmenna á teiginn og lúðra boltanum fyrir. Það vill ekki betur en svo að Sindri fær boltann, á stórglæsilega sendingu inn fyrir og Ásgeir vinnur þar kapphlaup við varnamann KF. Hann setti í fluggírinn, plataði Björn Hákon virkilega illa í marki KF og lagði boltann pollrólegur í netið. Þetta reyndist vera síðasta spyrna leiksins og Völsungar fögnuðu 3-1 sigri.

geiri3

Það verður að segjast eins og er að leikurinn í dag var sigur liðsheildarinnar. Þó stóð einn leikmaður sérstaklega upp úr og það var Kjartan Páll markvörður. Aðrir leikmenn spiluðu vel og stóðu sína plikt. Völsungar gáfu fá (en þó of mörg) hættuleg færi á sér og vonandi slípast varnarleikurinn enn betur saman þegar á líður. Ungu strákarnir í dag nýttu sín tækifæri vel og þó það hafi vantað fjóra leikmenn úr síðasta leik gaf liðið ekki tommu eftir. Þá má sérstaklega taka það fram að Gunnar Sigurður Jósteinsson, Kletturinn, var að spila sinn 150 leik fyrir Völsung í bæði deild og bikar og að sjálfsögðu kórónar hann frammistöðu sína með marki – Til hamingju!

7

6

5

Eiríkur Guðmundsson eða Eiki Umma líkt og við þekkjum hann öll slóst í lið með Græna Hernum í kvöld og tók þessar glæsilegu myndir fyrir okkur á leiknum. Við sendum honum kærar þakkir fyrir þær.

Tengdar greinar:
Ásgeir Sigurgeirsson: Fékk krampa þegar ég var að fara skjóta (myndband)


Athugasemdir

  • Herna

Ingvar Björn-Rafnar Orri- Bjarki Breiðfjörð