Umfjllun: Auveldur sigur Hsavkurvellirttir - Ingvar Bjrn Gulaugsson - Lestrar 531 - Athugasemdir ( )
Völsungur mætti Álftanesi á Húsavíkurvelli kl.14 í dag í blíðskaparveðri. Þetta var 2.umferð
Íslandsmótsins hjá Völsungi en fyrsti leikur tapaðist gegn Fram, eins og áður hefur komið fram. Völsungur vann góðan 3-0 sigur og
hefðu mörkin getað orðið enn fleiri.
Byrjunarlið Völsungs:
Anna Guðrún Sveinsdóttir, Elma Rún Þráinsdóttir, Jana Björg Róbertsdóttir, Ásrún Ósk Einarsdóttir, Anna
Halldóra Ágústsdóttir, Jóney Ósk Sigurjónsdóttir, Berglind Jóna Þorláksdóttir (Dagbjört
Ingvarsdóttir '55), Harpa Ásgeirsdóttir (Heiðdís Hafþórsdóttir '73), Helga Guðrún Guðmundsdóttir
(Sigrún Lilja Sigurgeirsdóttir '64), Ruth Ragnarsdóttir (Kristín Lára Björnsdóttir '76), Helga Björk
Heiðarsdóttir.
Harpa Ásgeirsdóttir með þrumuskot
Völsungur var betra liðið frá upphafi og komst í 1-0 strax á 9.mínútu. Helga Björk Heiðarsdóttir komst þá inn í
sendingu varnarmanns til baka á markvörð, var ein á auðum sjó og laumaði boltanum fallega í markhornið neðst.
Völsungar réðu lögum og lofum í leiknum og þrátt fyrir að eiga ekki sinn besta dag þá var andstæðingurinn ekki sterkur. Markspyrnur
gestanna voru slakar og pressuðu Völsungsstelpur hátt uppi á vellinum og unnu boltann iðulega strax aftur. Þær reyndu mikið af langskotum en þau voru
ekki nægilega góð.
Á 15.mínútu stakk Berglind Jóna boltanum inn fyrir vörn gestanna á Helgu Guðrúnu sem átti skot í hliðarnetið úr
góðu færi. Skömmu síðar átti Harpa Ásgeirs skot framhjá marki gestanna og Helga Björk sömuleiðis.
Á 38.mínútu kom besta færi Völsunga í fyrri hálfleik en eftir laglega vippu inn í teig tók Helga Björk boltann niður hægra
megin í teignum og skaut þrumuskoti sem markvörður gestanna varði vel. Hún hafði komið út á móti og lokað markinu.
Strax í framhaldi af því fengu Álftanesstúlkur þó sitt allra besta færi í leiknum, mögulega eina reyndar, en eftir pínu
vandræðagang hjá miðju og vörn Völsunga slapp sóknarmaður gestanna einn í gegn og úr frábæru færi skaut hún
framhjá stönginni fjær. Þarna minnti það rækilega á að 1-0 forysta er hættuleg þótt að liðið sé með
fullkomna stjórn á leiknum því það þarft oft lítinn tíma til þess að gera mark.
Rétt fyrir hálfleikinn átti Jóney Ósk fínt langskot sem fór í stöngina og út af.
Seinni hálfleikur var eins og sá fyrri, Völsungsliðið með boltann og að reyna að búa eitthvað til en Álftanesliðið fyrst og fremst
í því að verjast. Á 60.mínútu tókst Völsungum þó að auka forskot sitt í 2-0. Markið var keimlíkt
því fyrsta, Helga Björk komst inn í slaka sendingu varnarmanns til markvarðar, gaf sér tíma til þess að þvæla markvörðinn og
þrumaði honum svo í netið.
Aðeins þremur mínútum síðar átti Harpa gott skot sem markvörðurinn varði í stöngina og var Helga Björk mætt í
frákastið sem hún kláraði. Því miður var Helga dæmd rangstæð en hárrétt ákvörðun hjá henni að
taka hlaupið inn í frákastið.
Á 68.mínútu kom svo þriðja markið. Sigrún Lilja Sigurgeirsdóttir, þá nýkomin inn á sem varamaður, átti
fínan sprett upp að endamörkum og fyrirgjöf hennar var mjög góð á fjærstöngina þar sem að Ruth Ragnarsdóttir var mætt og
kom boltanum í netið. 3-0 fyrir Völsung og öruggur sigur í höfn.
Þegar lítið lifði leiks slapp Sigrún Lilja inn fyrir en var felld. Dómarinn sá aumur á varnarmanninum og gaf aðeins gult spjald en það
var svosem allt í lagi. Úr aukaspyrnunni skaut Jóney en spyrnan var of laus og réði markvörðurinn auðveldlega við hana.
Leikurinn var svo flautaður af og sigruðu Völsungar því auðveldlega 3-0.
Eftir að fyrsta markið leit dagsins ljós snemma leiks var sigurinn aldrei í hættu. Völsungar enduðu sínar sóknir eins oft og þær
gátu með skotum sem er mikil framför frá síðasta leik. Völsungur var betra liðið í dag en var þó alls ekki að spila sinn besta
leik. Fyrstu þrjú stig sumarsins komin í hús og er það ánægjulegt! Til hamingju allir Völsungar!
Harpa Ásgeirsdóttir, fyrirliði liðsins, var komin inn í liðið að nýju eftir meiðsli og var hún kosin 640.is-Nivea maður leiksins. Harpa
stjórnaði miðjuspili liðsins eins og herforingi og kemur með góðan talanda inn í liðið. Helga Björk skoraði tvö góð mörk
eftir að hafa lesið vel inn í sendingar og var hún virkilega klók þar. Hún hefði þó getað gert fleiri mörk en skotskórnir
voru ekki alveg fastreimdir í dag. Liðið í heild sinni gerði nóg til þess að sigra leikinn en á þó klárlega meira inni.
Harpa var valin maður leiksins og fær hér verðlaunin afhent frá Sonju Sif Þórólfsdóttur
Báðir meistaraflokkarnir héldu því hreinu um helgina í fyrstu leikjum sínum á Húsavíkurvelli og má það haldast
þannig.
Næsti leikur kvennaliðsins er laugardaginn 9.júní í Grindavík. Eins og áður hvetjum við alla Völsunga til þess að mæta
á leikinn!
Athugasemdir