Stórsigur hjá strákunum

Föstudagskvöldiđ 5.ágúst fengu Völsungar Árborgarmenn í heimsókn á Húsavíkurvöll. Grátt var yfir veđrinu en lítill sem enginn vindur og úrkomulaust. Í

Stórsigur hjá strákunum
Íţróttir - Hafţór Hreiđarsson - Lestrar 558 - Athugasemdir ()

Hrannar fékk súkkulađiskóinn.
Hrannar fékk súkkulađiskóinn.

Föstudagskvöldið 5.ágúst fengu Völsungar Árborgarmenn í heimsókn á Húsavíkurvöll. Grátt var yfir veðrinu en lítill sem enginn vindur og úrkomulaust. Í stuttu máli um leikinn má segja að gestirnir hafi vart átt möguleika frá því að flautað var til leiks.

Fyrsta færi leit dagsins ljós á 8.mínútu en eftir frábært samspil Elfars Árna Aðalsteinssonar og Arnþórs Hermannssonar slapp Elfar í gegn en markvörður gestanna, Steinar Örn Stefánsson, sá við honum og varði út. Aðeins mínútu síðar vann Elfar boltann af varnarmanni og óð inn í teiginn þar sem hann var einn á móti markverði en var tekinn niður af aftasta varnarmanni. Klár vítaspyrna dæmd en varnarmanninum ekki einu sinni veitt tiltal. Arnþór steig á punktinn og klíndi boltanum í markvinkilinn af miklu öryggi og staðan orðin 1-0 fyrir Völsunga.

Stuttu seinna fór Hrannar Björn Steingrímsson illa með hægri bakvörð gestanna, eins og átti eftir að gerast margoft síðar í leiknum,og átti bylmingsskot að marki sem Steinar varði vel í horn. Aðalsteinn Jóhann Friðriksson fékk stungusendingu skömmu síðar en skot hans utarlega úr teignum fór rétt framhjá fjærstönginni.

Eftir um hálftíma leik sendi Hrannar Björn aukaspyrnu inn á teig sem Haukur Hinriksson tók listavel niður og sneri í skot en Steinar í Árborgarmarkinu sá við honum.

Á 42.mínútu juku heimamenn svo við forystuna. Hrannar Björn fékk boltann úti á vinstri vængnum, lék snyrtilega á bakvörðinn áður en hann gaf lága fyrirgjöf á fjærstöngina þar sem mættur var Aðalsteinn Jóhann og kláraði hann færið vel. 2-0 fyrir heimamenn.

Heimamenn ætluðu ekki að láta tveggja marka forystu duga í hálfleik og í uppbótartíma fyrri hálfleiks kom þriðja markið. Hrannar fékk þá boltann út til vinstri, sótti inn að teig áður en hann gaf fyrirgjöf út í teiginn þar sem Aðalsteinn kom aðvífandi og setti boltann alveg út við fjærstöngina. 3-0 og var staðan þannig í hálfleik.

Heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn með látum en samspil Aðalsteins og Elfars leiddi til fyrirgjafar sem endaði með vinstrifótarskoti Hrannars framhjá fjærstönginni. Örstuttu síðar átti Sveinbjörn Steingrímsson fyrirgjöf sem Elfar skallaði niður fyrir fætur Arnþórs sem lét bylmingsskot ríða af en Steinar í marki Árborgar varði á glæsilegan hátt.

Á 54.mínútu átti Arnþór hörkuskot frá vítateig sem Steinar varði til hliðar þar sem Elfar Árni mætti í eftirfylgnina og skaut að markinu en Steinar var eldsnöggur á fætur eftir fyrra skotið og varði það seinna vel.

Á 55.mínútu vann Elfar Árni boltann vel af varnarmanni, sótti inn í teiginn og vippaði boltanum yfir markvörðinn sem út í hann óð. Glæsilegt mark og staðan orðin 4-0 fyrir heimamenn.

Erlingur Ingason, leikmaður Árborgar, fékk svo að líta rauða spaldið á 57.mínútu. Honum hefur verið farið að leiðast einstefnan og fór í glórulausa sólatæklingu á Sveinbjörn Steingrímsson sem gat aðeins endað með rauðu spjaldi. Tveimur mínútum síðar átti Ólafur Magnússon, Árborgarmaður, svo sannarlega skilið að fylgja Erlingi félaga sínum í sturtuna en subbuleg tækling hans í efri hluta Ármanns Gunnlaugssonar fer seint í sögubækurnar fyrir fegurð. Hann slapp þó með gult spjald.

Á 62.mínútu slógu Völsungar þó öll læti úr Árborgarmönnum. Elfar Árni átti sendingu út til hægri á Aðalstein sem átti fyrirgjöf út í teiginn þar sem vinstri bakvörðurinn Sveinbjörn Steingrímsson var mættur og hamraði boltann í netið. Markvörður gestanna var þó með hendur í boltanum en skotið of fast til þess að slá boltann burt. Fyrsta mark Sveinbjörns fyrir meistaraflokk og gáfu fagnaðarlæti hans merki um það að þetta kæmi ekkert fyrir daglega.

Elfar Árni komst inn í innkast til baka eftir þetta og lék á varnarmann áður en hann skaut framhjá markinu. Völsungar hægðu á sér svo um munaði og gerðu þrjár breytingar á liðinu. Þeir voru þó ekki alveg hættir en á 90.mínútu vann Aðalsteinn boltann á miðjunni og sendi upp völlinn á Elfar Árna sem stakk inn fyrir á Hrannar. Markvörður Árborgar fór út en Hrannar var á undan í boltann og kom honum framhjá Steinari. Hrannar lék síðan að markinu og lék á tvo varnarmenn áður en hann kom boltanum yfir línuna. 6-0 og urðu það lokatölur í leiknum.

Völsungar höfðu yfirburði allan tímann og komust sóknarmenn Árborgar ekkert áleiðis. Sterkur leikur hjá varnarlínunni og Kjartan greip vel inn í þær fyrirgjafir sem bárust. Hrannar Björn var valinn Heimabakarís maður leiksins og hlaut súkkulaðiskóinn að launum. Hrannar lagði upp tvö mörk og skoraði sjálfur eitt af miklu harðfylgi. Hægri bakvörður Árborgar átti í mestu vandræðum með hann og mundi nefndin ekki eftir því að hann hefði nokkurn tímann verið nálægt því að taka boltann af Hrannari.

Elfar Árni átti líka virkilega góðan leik. Vann boltann í sífellu af varnarlínu gestanna, skoraði eitt mark og lagði upp tvö. Kom sér í góð færi en hittnin var ekki með Elfari á föstudaginn og hefði hann getað gert betur fyrir framan markið í nokkur skipti. Alli Jói átti prýðis leik. Tvö góð mörk og stoðsending ásamt því að vinna vel með Stefáni Jóni þarna í bakverðinum. Ákvarðanataka brást Alla aðeins í tveimur fínum færum en hann var alls ekki einn um að gera slíkt. Það var þó mikil grimmd og gredda í sóknarleik liðsins á köflum, sem oft hefur vantað í sumar.

Það helsta sem hægt er að kvarta undan er það að liðið átti 30 skot í leiknum. 19 þeirra fóru á rammann. Góður leikur hjá markverði Árborgar en við áttum að skora meira heldur en 6 mörk í þessum leik! Einhverjir vilja kannski meina að það sé full gróft að segja slíkt en mér þykir það ekki. Þegar komið er blóð á tennurnar og menn finna fyrir því hversu mikla yfirburði þeir hafa þá á bara að rúlla yfir andstæðinginn.

Er þó meiriháttar sáttur með þessi þrjú stig. Nú verða menn að halda haus og halda áfram á þessari braut. Erfiður leikur gegn KF á morgun og menn verða að mæta einbeittir í þann leik. Þessi leikur gefur okkur ekkert inn í þann leik nema sjálfstraustið. ÁFRAM VÖLSUNGUR!!

Byrjunarlið;Kjartan, Stefán Jón, Sveinbjörn Már, Haukur, Halldór, Jónas, Ármann, Arnþór, Alli Jói, Hrannar, Elfar

Bekkur; Snæþór, Sigvaldi, Bergur, Jóhann og Bjarki.

Skiptingar;
Jóhann Páll inn - Ármann út
Bergur inn - Halldór út
Sigvaldi inn - Sveinbjörn út


Athugasemdir

  • Herna

Ingvar Björn-Rafnar Orri- Bjarki Breiđfjörđ