Stórsigur á SandgerđingumÍţróttir - Ingvar Björn - Lestrar 712 - Athugasemdir ( )
Hressandi rok og smávegis rigning var á Húsavíkurvelli í dag þegar Völsungur tók á móti Reyni úr Sandgerði á Húsavíkurvelli.
Reynismenn byrjuðu grimmir og voru ekki lengi að koma sér í 0-1. Völsungar töpuðu boltanum
ofarlega á vellinum, gestirnir brunuðu í skyndisókn og áttu stungusendingu innfyrir vörnina sem Þorsteinn Þorsteinsson kláraði vel. 0-1
eftir 1.mínútu og 13 sekúndur.
Gestirnir ætluðu sannarlega að láta kné fylgja kviði og aukaspyrna þeirra utan af kanti
örskömmu síðar small í samskeytunum. Hurð skall þar nærri hælum og var eins og viðvörunarbjöllum hringdi loks hjá
heimamönnum sem tóku sig á.
Heimamenn jöfnuðu svo leikinn á 14.mínútu. Gunnar Jósteinsson átti stungusendingu upp í hornið þar sem Hafþór
Aðalgeirsson sendi boltann fyrir. Elfar Árni Aðalsteinsson tók þar vel við boltann, lék á varnarmann og skaut boltanum í markhornið. 1-1
Aðeins mínútu síðar slapp Elfar Árni í gegn og lék á markvörðinn áður en hann féll til jarðar. Boltinn barst
til Hrannars Steingrímssonar sem skaut að marki en varnarmaður bjargaði á línu. Elfar Árni taldi sig ekki eiga að fá víti enda hafi hann
runnið til í bleytunni og því vel dæmt hjá Ingvari Erni Gíslasyni sem átti prýðis leik.
Á 20.mínútu komust heimamenn í 2-1. Elfar Árni fékk þá boltann fyrir utan teig og stakk honum inn fyrir á Bjarki Baldvinsson. Hann skaut
að marki en Aron Árnason í marki gestanna varði boltann út í teig. Þar var títtnefndur Elfar Árni mættur og kláraði færi
sitt vel.
Yfirhöndin var heimamanna og lokuðu þeir vel á sóknaraðgerðir Reynismanna. Hafþór Aðalgeirsson og Hrannar Steingrímsson fengu
ákjósanleg færi í sömu sókninni en Aron í markinu og varnarmaður vörðu þau skot vel.
Eftir frábæra sókn og samspil fremstu manna Völsunga skoraði svo Bjarki Baldvinsson eftir sendingu inn fyrir frá Elfari Árna. 3-1 eftir
41.mínútu og var staðan þannig í hálfleik.
Heimamenn hófu seinni hálfleikinn af sama krafti og þeir enduðu þann fyrri. Elfar Árni tók boltann niður fyrir utan teig Reynismanna og lék
á tvo varnarmenn áður en hann var tekinn niður. Jóhann Páll Ástvaldsson tók aukaspyrnuna og lenti boltinn í jörðinni rétt
fyrir framan Aron í markinu sem missti boltann út og þar var mættur Hrannar Steingrímsson sem fylgdi eftir af harðfylgni og skaut í hornið. 4-1 eftir
47.mínútna leik.
Bjarki fékk svo aukaspyrnu fyrir Völsunga úti á kanti skömmu síðar. Hrannar tók hana og sendi boltann inn á markteig þar sem Elfar
Árni reis hæst og skallaði knöttinn í mitt markið. 5-1 eftir 53.mínútna leik.
Völsungar héldu áfram að sækja og var refsað fyrir það á 67.mínútu. Töpuðu boltanum á vallarhelmingi gestanna sem
brunuðu fram og eftir stungu inn fyrir fékk Pétur Jaaide boltann, lék á Steinþór í markinu og skoraði. Staðan því orðin
5-2.
Eftir þetta var sem að allur vindur væri úr Sandgerðingum. Völsungar héldu þeim algjörlega á sínum vallarhelmingi og vörn
heimamanna var snögg að færa boltann fram aftur eftir hreinsanir. Reynismenn vörðust þó vel og náðu oftast að komast inn í
síðustu sendingu.
Kristján Steinn Magnússon, sem hafði komið inn á sem varamaður hjá Völsungum, slapp í gegn þegar 10 mínútur lifðu leiks og
lék vel á markvörðinn áður en hann skaut en varnarmaður hafði unnið vel til baka og bjargaði á línu.
Annar varamaður, Aðalsteinn Jóhann Friðriksson, vann síðan boltann vel af aftasta varnarmanni á 91.mínútu og nýtti færi sitt vel og kom
heimamönnum þar með í 6-2. Urðu það lokatölur og gengu Völsungar stoltir af velli eftir þessa frammistöðu. Elfar Árni var valinn
maður leiksins og hlaut súkkulaðiskóinn að launum!
Leikur liðsins í dag var heilt yfir mjög góður. Við byrjuðum illa en hristum mjög snemma af okkur slenið og fórum að gera þetta eins og
menn. Mikil barátta og endalaus vinnsla skapaði okkur mörg færi og vorum við sívinnandi boltann um allan völl. Elfar Árni spilaði lykilhlutverk uppi
á topp og átti þátt í öllum fimm mörkunum sem við skoruðum með hann inn á vellinum.
Bjarki var mjög góður í dag og einnig fannst mér Haffi virkilega öflugur í því sem hann var að gera þótt alltaf megum við
allir laga sendingarnar. Jóhann Páll fannst mér koma virkilega vel inn í dag og eiga góðan leik.
Aðrir leikmenn liðsins skiluðu góðri frammistöðu og það er ekki hægt að segja að einhver hafi átt lélegan leik. Við vorum mun
meira skapandi en í síðasta deildarleik og menn vonandi byggja ofan á þennan sigur er við mætum Árborg á fimmtudaginn næsta. Sýnd
veiði en alls ekki gefin. Við þurfum að mæta með sigurviljann og ákveðnina inn í þann leik drengir.
Annars mega menn vera stoltir með þennan sigur í dag og vonandi höldum við áfram á þessari braut!
Byrjunarlið Völsunga: Steinþór, Stefán Jón, Gunni Siggi, Jónas, Jóhann
Páll, Haukur, Arnþór, Bjarki, Hafþór, Hrannar, Elfar
Bekkur: Kjartan, Alli Jói, Ármann, Kristján Steinn, Rafnar.
Elfar Árni, Bjarki og Hrannar Björn fagna marki Bjarka.
Hrannar Björn skoraði eitt mark í leiknum.
Aðalsteinn Jóhann Friðriksson í baráttu við varnarmann Reynis og skömmu síðar lá boltnn netinu.
Elfar Árni skoraði þrennu og fékk fyrir verðlaun frá Háriðjunni sem Björn Elí afhenti.
Skoða má fleiri myndir
úr leiknum hér.
Athugasemdir