Stelpurnar unnu Htt Lengjubikarnumrttir - Rafnar Orri Gunnarsson - Lestrar 549 - Athugasemdir ( )
Kvennalið Völsungs mætti Hetti í öðrum leik sínum í Lengjubikarnum þetta árið. Þær höfðu unnið Fjarðabyggð/Leikni í fyrstu umferð og þar sem Hattarstelpur höfðu einnig unnið sinn leik þá skipti þessi leikur miklu máli hvað varðar möguleika á sigri í riðlinum.
Byrjunarlið Völsungs í leiknum var svohljóðandi: Anna Jónína Valgeirsdóttir í markinu og bakverðir þær Helga Guðrún Guðmundsdóttir og Heiðdís Hafþórsdóttir. Í miðverði spiluðu Anna Halldóra Ágústsdóttir og Ásrún Ósk Einarsdóttir. Á miðjunni voru Helga Björk Heiðarsdóttir, Harpa Ásgeirsdóttir og Ragna Baldvinsdóttir. Kantmenn voru Sigrún Lilja Sigurgeirsdóttir og Ruth Ragnarsdóttir en Þórunn Birna Jónsdóttir var fremst.
Á bekknum sátu Anna Guðrún Sveinsdóttir, Berglind Ólafsdóttir, Berglind Jóna Þorláksdóttir, Elma Rún Þráinsdóttir, Jóney Ósk Sigurjónsdóttir, Kristín Lára Björnsdóttir og Sonja Sif Þórólfsdóttir.
Völsungsstúlkur voru taugaóstyrkar þegar leikur hófst og gengu Hattarstelpur á lagið. Þær náðu yfirhöndum á miðjunni og voru duglegar að dæla boltum inn fyrir vörnina sem snöggir framherjar þeirra áttu að hlaupa uppi. Það plan gekk upp að mestu leyti en Anna Jónína Valgeirsdóttir varði nokkrum sinnum vel á síðustu stundu. Hún kom þó engum vörnum við á 25.mínútu þegar Sigríður Björk Þorláksdóttir, spilandi þjálfari Hattarliðsins skoraði af löngu færi en langskot hennar sveif yfir Önnu og lenti rétt undir slánni. 0-1 fyrir Hattarstúlkur sem höfðu unnið vel fyrir marki sínu.
Völsungar fóru að reyna að færa sig framar og eftir ágætis sókn hrökk boltinn út úr teignum þar sem Helga Guðrún Guðmundsdóttir kom aðvífandi og sendi bylmingsskot í innanverða stöngina og skoppaði boltinn svo meðfram markinu og frá. Hörkuskot og Völsungsstúlkur óheppnar þar.
Harpa Ásgeirsdóttir lenti illa í jörðinni eftir að hafa stokkið upp í skallabolta og fór hún úr axlarlið. Hún var flutt á sjúkrahús þar sem henni var kippt aftur í liðinn og fær hún þann heiður að búa við fatlanotkun næstu 10 daga. Það er vonandi að þetta muni ekki hrjá hana meir en það. Í hennar stað á vellinum kom Jóney Ósk Sigurjónsdóttir og var sú skipting gerð í kringum 38.mínútu. Leikurinn hélt áfram og var staðan 1-0 í hálfleik Hetti í vil. Tvær breytingar voru gerðar í hálfleik, Anna Guðrún Sveinsdóttir kom í markið í stað Önnu Jónínu og Berglind Jóna Þorláksdóttir kom inn í stað Rögnu Baldvinsdóttur.
Völsungsstúlkurnar nýttu hálfleikinn greinilega vel en þær voru mun grimmari í þeim síðari og gáfu Hattarstúlkum mun færri færi á sér. Vörn Völsunga náði mun betur saman og hleyptu litlu í gegnum sig. Heilt yfir var meiri yfirvegun yfir liðinu og gekk stelpunum betur að halda boltanum innan liðsins í seinni hálfleik.
Jöfnunarmark Völsunga kom svo á 61.mínútu. Anna Halldóra Ágústsdóttir vann þá boltann í vörninni, tók þríhyrning við samherja á miðjunni og óð upp völlinn. Þegar Hattarstúlkur mættu henni loks opnaðist vörn þeirra og renndi Anna boltanum inn fyrir á Jóney Ósk sem kláraði færi sitt virkilega vel. 1-1 og nægur tími eftir.
Völsungsstúlkur bættu áfram í en eftir sendingu Sigrúnar Lilju inn í teig léku Jóney og Þórunn Birna vel saman, Jóney tók varnarmann á og frá vítapunkti átti hún gott vinstri fótar skot í markhornið. 2-1 fyrir Völsungum eftir laglegt samspil.
Völsungar kláruðu sínar skiptingar og lítið var um opin marktækifæri. Eitt mark átti þó eftir að koma og kom það á 84.mínútu. Sonja Sif Þórólfsdóttir, þá nýkomin inn á sem varamaður, vann boltann af varnarmanni Hattar og barst hann út til vinstri á Ruth Ragnarsdóttur. Hún átti fyrirgjöf sem Jóney Ósk mætti í endann á, tók niður og kláraði hún færi sitt snyrtilega. 3-1 fyrir Völsung og Jóney Ósk með þrennu. Var þetta það síðasta markverða sem gerðist í leiknum og endaði hann með 3-1 sigri Völsunga.
Völsungsstúlkur voru í vandræðum í fyrri hálfleik en Anna Jónína í markinu bjargaði því að þær fóru inn í hálfleikinn aðeins 0-1 undir. Stelpurnar voru mun betri í seinni hálfleik og náðu vörn og miðja þá betur saman og leystu hættur Hattarliðsins vel. Það litla sem rataði á mark Völsunga í seinni hálfleik sá Anna Guðrún um. Jóney Ósk var róleg á taugunum fyrir framan markið og nýtti hún öll sín færi af mikilli yfirvegun. Það var ánægjulegt að sjá liðið ekki gefast upp eftir að hafa lent undir heldur bara spýta í, girða sig í brók og vinna sig hægt og bítandi inn í leikinn aftur.
Þetta var annar leikur stúlknanna undir stjórn Jóhanns Páls Rúnarssonar og einning annar leikur þeirra í Lengjubikarnum. Þeirra síðasti í riðlinum er næstkomandi laugardag kl.15.00 er þær mæta Tindastól í Boganum. Stig í þeim leik dugar þeim til þess að komast í undanúrslit en það er þó vonandi að stúlkurnar ætli sér ekkert nema sigur þar.
Athugasemdir