Stelpurnar stui og komnar rslitrttir - Hafr Hreiarsson - Lestrar 356 - Athugasemdir ( )
Stelpurnar í meistaraflokki Völsungs gerðu góða ferð í Bogann á sunnudaginn þar sem þær léku seinni leik sinn í riðli Lengjubikarsins. Áður höfðu þær lagt Fjarðabyggð/Leikni 8-1 en nú var komið að Hattarstelpum.
Svo segir frá leiknum á heimasíðu Völsungs:
Í fyrra voru leikir liðanna jafnir og spennandi ogmátti varla á milli sjá hvort liðið færi með sigur af hólmi. Í Lengjubikarnum í fyrra gerðu liðin 1-1 jafntefli fyrir austan og komust Hattarstelpur því í úrslitaleikinn á móti Haukum á einu marki meira í plús eftir riðilinn. Í deildinni sigruðu stelpurnar 0-1 fyrir austan í fyrsta leik, gerðu 1-1 jafntefli á Húsavíkurvelli í hörkuleik og tryggðu sér svo sigurinn í riðlinum með því að vinna 1-2 fyrir austan í eftirminnilegum leik.
Á sunnudaginn mættu Völsungsstelpur mjög ákveðnar til leiks eftir skrautlega æfingaleiki um páskana. Liðið var þó nokkuð laskað af veikindum og meiðslum en stelpurnar voru ekki á þeim buxunum að gefa neitt eftir. Töluvert vantaði í bæði lið frá því í fyrra og því má segja að yngri og óreyndari leikmenn hafi spilað stórt hlutverk í báðum liðum.
Leikurinn fór nokkuð vel af stað fyrir okkar stelpur og greinilegt að bæði lið ætluðu ekki að gefa neitt eftir. Engin dauðafæri litu dagsins ljós í byrjun en þó komust Völsungar yfir strax á 10. mín. þegar Hafrún fylgdi eftir skoti Hörpu sem markmaður Hattar hafði varið. Góð byrjun og meira öryggi komst í leikinn að okkar hálfu. Þó náðu Völsungsstelpur ekki að fylgja markinu strax nógu vel eftir og meira jafnræði var með liðunum. Gígja slapp svo inn fyrir vörnina og komst inná teig úti vinstra megin. Sending hennar var varin af varnarmanni Hattar með hendi og því vítaspyrna dæmd. Gulla Sigga tók spyrnuna en brenndi af. Svo virðist sem þetta hafi dregið úr Völsungum og þær misstu aðeins dampinn. Á 24. mín. slapp Gígja hinsvegar aftur inn fyrir eftir góða sókn, lék á markvörðinn og setti boltann framhjá varnarmanni Hattar sem freistaði að verja á línu. Gott mark og staðan orðin 2-0. Á þessum tímapunkti leit út fyrir að Völsungar ættu auðvelt verk fyrir höndum.
Eftir aðra góða sókn slapp Harpa Ásgeirs inn fyrir og lagði boltann snyrtilega framhjá markverði Hattar, 3-0 eftir 32 mín. Það var svo drottning háloftanna, Dagný Björk sem stökk manna hæst í teignum eftir fína hornspyrnu Hafrúnar og skallaði boltann í fjærhornið á 39. mín., 4-0. Þannig var staðan í hálfleik.
Völsungsstelpur virtust vera hálfsofandi og saddar eftir fyrri hálfleikinn því þær byrjuðu þann seinni ákaflega rólega. Höttur komst meira inn í leikinn og gerðu sig líklega nokkrum sinnum án þess þó að skapa sér hættuleg marktækifæri. Það var svo loks á 58. mín. að framherji Hattar sleppur inn fyrir vörnina með Indu og Dagnýju á hælunum og nær að pota boltanum frá teig sem smýgur undir Önnu Guðrúnu í markinu. Staðan 4-1 og nóg eftir af leiknum! Sem betur fer virtist þetta kveikja í Völsungum á ný og þær fóru að bíta betur frá sér og spila boltanum meira. Nokkur hálffæri litu dagsins ljós en lítið var um dauðafæri. Það var svo þegar einhverjar 10-12 mín. lifðu leiks að Hafrún fær boltann inní teig eftir góðan sprett Sigrúnar Lilju (ung og efnileg stelpa úr 3.flokki) upp hægri kantinn, lék fimlega á varnarmann og setti boltann öruggt í netið. Þannig urðu lokatölur og öruggur 5-1 sigur Völsungs á Hetti í höfn!
Stelpurnar áttu bara fínan dag og gaman að sjá ungu leikmennina koma svona ákveðnar til leiks. Með sigrinum eru stelpurnar komnar í úrslitaleik c-deildarinnar í Lengjubikarnum og mæta einhverju liði af suðurlandi þann 9.maí n.k.
Athugasemdir