Sigurganga Völsunga heldur áframÍţróttir - Hafţór Hreiđarsson - Lestrar 659 - Athugasemdir ( )
Hallgrímur Mar Steingrímsson var valinn maður leiksins hjá Völsungum og fékk súkkulaðiskóinn að launum. Hér að neðan kemur umfjöllun Ingvars Bjönrs um leikinn en hún er fengin af Völsungssíðu hans og Rafnars Orra:
Völsungur og Afturelding mættust á Húsavíkurvelli kl.16.00 í
dag. Veðurfarið var furðulegt en það hellirigndi fram að því að leikurinn var flautaður á. Þá stytti upp og glitti í
sól en stuttu seinna byrjaði aftur að rigna. Það skiptist svo á það sem eftir lifði leiks.
Völsungar höfðu yfirhöndina í fyrri hálfleiknum. Afturelding lá aftarlega og reyndi að beita skyndisóknum með stungusendingum á
Arnór Þrastarson en það skilaði ekki árangri í fyrri hálfleik. Völsungar spiluðu saman ágætlega en gekk illa að brjóta
á bak aftur aftasta varnarmúr gestanna.
Á 20.mínútu kom fyrsta færi leiksins. Fyrirgjöf heimamanna kom frá hægri og þar var mættur Geir Kristinsson á fjærstöng en
skot hans fór í hliðarnetið. Gríðargott færi. Skömmu síðar tók Hrannar Björn Steingrímsson hornspyrnu fyrir Völsunga sem
Aron Bjarki Jósepsson stökk einn upp í, í teignum, og skallaði á markið en varnarmaður gestanna bjargaði á línu.
Hrannar Björn tók síðan aukaspyrnu fyrir utan vítateig sem Skarphéðinn Magnússon varði út í teiginn, þar tók
Hallgrímur Steingrímsson við boltanum og skaut en boltinn fór rétt fyrir markið.
Hallgrímur átti síðan glæsilega stungusendingu inn fyrir á Hrannar bróðir sinn sem skoraði úr fyrstu snertingu en
aðstoðardómarinn flaggaði rangstæðu. Það virtist rangur dómur því varnarmaður gestanna fylgdi Hrannari inn en því
verður ekki breytt nú.
Fleira markvert gerðist ekki í fyrri hálfleik en staðan í leikhléi var 0-0.
Heimamenn byrjuðu seinni hálfleik af krafti og höfðu yfirhöndina á vellinum. Strax á 48.mínútu kom fyrsta mark leiksins. Hallgrímur Mar
Steingrímsson tók þá aukaspyrnu í vegginn og þaðan inn að markinu þar sem smá klafs myndaðist um boltann en hann endaði hjá
Geir sem kom honum yfir línuna. Hans fyrsta mark, af vonandi mörgum, fyrir Völsung!
Geir Kristinsson skoraði sitt fyrsta mark fyri Völsunga í dag. Þar sem ekki náðist nógu góð mynd af Geir í leiknum birtist bara mynd af Kolbeini tvíburabróður hans en hann kom inn á fyrir Halldór Fannar í síðari hálfleik.
Heimamenn bættu í og Aftureldingar virtust ekki hafa rænu á að breyta úr leikskipulaginu "halda í 0-0" yfir í eitthvað annað. Þeir
áttu í raun ekkert í heimamenn og náðu aðeins að fresta sóknum þeirra með löngum boltum fram en sóttu lítið
sjálfir. Annað mark heimamanna lá því í loftinu og það kom svo á 63.mínútu. Jón Hafsteinn Jóhansson átti
langa sendingu fram sem að Andri Valur Ívarsson flikkaði áfram. Hallgrímur Mar tók boltann niður vinstra megin í teignum og skaut föstu skoti sem
Skarphéðinn náði rétt að setja hendurnar í en ekki nægilega til að breyta stefnunni. 2-0 fyrir Völsung.
Hallgrímur Mar með boltann og andartaki síðar lá hann í netinu. 2-0.
Á 75.mínútu var komið að Andra Val. Hann fékk boltann nærri miðlínu og lék upp völlinn, á nokkra varnarmenn og inn í
teig þar sem hann virtist hafa misst boltann of langt frá sér. Skarphéðinn var seinn út og Andri náði boltanum á undan honum og skaut boltanum
með jörðinni á nærstöngina úr þröngu færi. Virkilega vel gert hjá Andra. 3-0.
Andri Valur að skora sitt mark í leiknum eftir glæsilega rispu upp völlinn.
Fimm mínútum siðar átti Andri Valur sendingu út á hægri kant á Hrannar Björn sem lék upp völlinn í átt að marki.
Rétt áður en hann kom að teignum setti hann boltann til hliðar og hamraði hann í átt að fjærstönginni með hægri fæti.
Boltinn var fastur og Skarphéðinn kom engum vörnum við er hann endaði í netmöskvunum. 4-0.
Fimmta mark Völsunga í leiknum, og hans sjöunda þetta sumarið, skoraði Hrannar Björn en Hallgrímur bróðir hans tók þá
aukaspyrnu utan af kanti sem hinn smái Hrannar stökk upp í við nærstöng og skallaði í netið. 5-0 og heimamenn að leika á alls oddi.
Hrannar Björn ánægður að sjá á eftir boltanum í netið og það í annað skiptið í leiknum.
Gestirnir náðu þó að klóra í bakkann áður en yfir lauk. Birgir Ragnarsson hafði þá leikið með boltann fyrir utan teig
Völsunga án þess að þeir næðu af honum boltanum. Aron Bjarki stjakaði við honum og reyndi að ræna hann jafnvæginu en Birgir skaut
hnitmiðuðu skoti sem Steinþór kastaði sér eftir en náði aðeins að verja í stöng og inn. 5-1 og urðu það lokatölur
í dag.
Athugasemdir