Sigur á Magna í síđasta leik LengjubikarsÍţróttir - Ingvar Björn Guđlaugsson - Lestrar 533 - Athugasemdir ( )
Völsungur mætti Magna fyrr í dag í síðasta leik sínum í Lengjubikarnum þetta árið. Völsungar unnu þar 4-3 sigur og sáu Arnþór Hermannsson (2), Ásgeir Sigurgeirsson og Tine Zornik um markaskorunina.
Leikurinn fór fram í Boganum og var byrjunarliðið eftirfarandi: Ingólfur Örn Kristjánsson í markinu, bakverðir þeir Stefán Jón Sigurgeirsson og Sigvaldi Þór Einarsson og í miðverðinum þeir Bjarki Þór Jónasson og Gunnar Sigurður Jósteinsson. Á miðri miðjunni byrjuðu Bergur Jónmundsson, Sigþór Hannesson og Arnþór Hermannsson. Á köntunum voru Ásgeir Sigurgeirsson og Hafþór Mar Aðalgeirsson og fremstur var nýjasti leikmaður liðsins, Slóveninn Tine Zornik.
Á varamannabekknum sátu þeir Aðalsteinn Jóhann Friðriksson, Bjarki Freyr Lúðvíksson, Eyþór Traustaon, Halldór Kárason, Sindri Ingólfsson og Snæþór Haukur Sveinbjörnsson.
Leikurinn byrjaði mjög rólega og lítið markvert gerðist til þess að byrja með. Völsungar fengu þó dauðafæri á 24.mínútu þegar Hafþór Mar slapp í gegn en á þessari ferð sem hann var kominn á réði hann ekkert við sjálfan sig og fipaðist jafnvægið þegar hann skaut slöku skoti beint á markvörðinn úr kjörstöðu. Stefán Jón var mjög grimmur eftir hornspyrnur og í fyrstu tvö skiptin var sköllum hans komið frá markinu. Í þriðja skiptið kom Stefán boltanum í netið en dæmt var fyrir brot á markverði sem Stefáni fannst mjög óréttlátt og lét hann vel í sér heyra eftir á. Það skal engan undra en það er ekki á hverjum degi sem Stefán skorar mark!
Magnamenn refsuðu Völsungum eftir hálftíma leik þegar Hreggviður Gunnarsson fékk stungusendingu inn fyrir vörnina og kláraði færi sitt vel í fjærhornið. 1-0 fyrir Magna.
Völsungar fóru þá að bíta frá sér og jöfnuðu leikinn á 36.mínútu. Ásgeir Sigurgeirsson vann þá boltann úti á vinstri kantinum og sendi boltann með fram teignum á Arnþór Hermannsson sem var þar einn og óvaldaður og lyfti boltanum snyrtilega yfir markvörðinn. Einkar laglegt mark hjá Arnþóri sem jafnaði þar með leikinn í 1-1 og stóðu leikar þannig í hálfleik. Strax eftir mark Arnþórs gerðu Völsungar skiptingu en meiddur Sigvaldi fór útaf, Alli Jói kom inn á í hans stað og fór Bergur í bakvörðinn og Alli á miðjuna.
Eitthvað var pásan í styttri kantinum því þegar fréttaritari gekk inn í salinn, korteri eftir að flautað var til hálfleiks, voru þegar búnar fimm mínútur af seinni hálfleiknum og Hreggviður búinn að koma Magna í 2-1. Örstuttu síðar barst boltinn til Alla Jóa í teig Magnamanna og er hann mundaði fótinn í skot keyrði varnarmaður í bakið á honum og hann niður. Ekkert dæmt og vorum við rændir vítaspyrnu þar! Völsungar dóu þó ekki ráðalausir og Alli Jói átti fallega stungusendingu inn á Ásgeir Sigurgeirs sem kláraði sitt færi vel og jafnaði leikinn í 2-2 á 54.mínútu.
Völsungar héldu áfram að sækja og varði markvörður Magna vel frá Hafþóri Mar sem hafði komist í gott færi í teignum. Einnig fékk Tine Zornik svipað færi stuttu seinna en skot hans fór rétt framhjá fjærstönginni.
Völsungar fengu svo aukaspyrnu á hættulegum stað þegar brotið var á Alla Jóa, um 25 metra frá marki. Arnþór Hermannsson mætti á svæðið og sneri boltann á nærstöngina, fallega í markhornið efst. 3-2 fyrir Völsung eftir 73.mínútna leik! Það mark má sjá með því að ýta hér.
Á 88.mínútu bættu Völsungar svo aftur við marki en Arnþór tók þá aukaspyrnu úti á kanti sem markvörður Magna varði út í teiginn. Upphófst þar mikið klafs um boltann og tókst Alla Jóa að tækla hann utar í teiginn þar sem Tine Zornik stóð og átti hann fast skot í hornið fjær. 4-2 fyrir Völsung og fögnuðu drengirnir markinu með því að fella Tine í grasið og leggjast á hann í hrúgu. Þægilegar móttökur í fyrsta leik!
Magnamenn slökuðu þó ekkert á og eftir laglegan einleik hjá einum leikmanni þeirra skaut hann boltanum í þverslá og niður þar sem Hreggviður mætti enn eina ferðina til þess að skora. 4-3 og urðu það lokatölur í leiknum.
Leikurinn var opinn og bauð upp á þó nokkuð af marktækifærum þó þau séu ekki öll tekin fram. Völsungur náði upp lipru spili á köflum en þeim köflum þarf að fjölga fyrir mót. Tine Zornik kom ágætlega út í sínum fyrsta leik fyrir félagið og virðist vel geta spilað fótbolta. Hann þarf þó að komast betur inn í hlutina og fær hann vonandi sinn tíma til þess. Ásgeir Sigurgeirs var sívinnandi og grimmur fram á við, skoraði mark og lagði upp annað. Hann er virkilega efnilegur og það er vonandi að hann haldi áfram á þessari braut sem hann hefur verið á í vetur. Alli Jói átti mjög góða innkomu og vann mikið af boltum á miðjunni auk þess sem hann lagði upp þrjú mörk. Hann virðist sterkari en áður og mun vonandi bara bæta sig í sumar. Við þurfum að halda boltanum betur innan liðsins heldur en oft í dag en það styttist óðfluga í mót. Einnig eigum við að geta nýtt færi okkar betur. Sigur er þó alltaf gott dagsverk!
Athugasemdir