Sá gamli grćni: Jónas Hallgrímsson

Í dag kom út fyrsta Völsungsleikskrá sumarsins. Í leikskránni í sumar verđur liđur sem kallađur er Sá gamli grćni og verđa gamlar gullstjörnur í viđtali

Sá gamli grćni: Jónas Hallgrímsson
Íţróttir - Rafnar Orri Gunnarsson - Lestrar 1240 - Athugasemdir ()

Jónas Ţór Hallgrímsson
Jónas Ţór Hallgrímsson

Í dag kom út fyrsta Völsungsleikskrá sumarsins. Í leikskránni í sumar verður liður sem kallaður er Sá gamli græni og verða gamlar gullstjörnur í viðtali yfir sumarið og þessir fyrrum leikmenn félagsins fengnir til að rifja upp góðar minningar. Það er vel við hæfi að kóngurinn sjálfur opni þetta en við bjóðum ykkur upp á Jónas Hallgrímsson.


Hvaða ár spilaðir þú fyrir Völsung ?
Ég nældi mér í konuna um verslunarmannahelgi 80’ og flyt svo hingað til Húsavíkur um haustið og byrjaði að spila fyrir félagið 1981 en þá vorum við í næst efstu deild. Ég spilaði svo til ársins 2002.    

Eftirminnilegasti leikur fyrir félagið ?
Það hefur sjálfsagt verið þegar að við töpuðum fimm eða sex núll fyrir Fram. Það var búið svona korter eða 20.mínútur af leiknum og þeir voru aldrei búnir að ná boltanum. Við spiluðum þá sundur og saman. Við vorum alveg svakalega góðir og þá voru þeir nátturulega með allar landsliðsstjörnunar. Svo kemst ég í gegn og er klipptur niður og ekkert dæmt, boltanum dundrað fram og Biggi Skúla hleypur utan í einn þá dæmir hann víti sem var auðvitað ekki neitt og þá brjáluðust sumir. Beggi Olgeirs varð brjálaður og var rekinn útaf, dómgæslan hélt svona áfram og við töpuðum þessum leik. Þeir voru með gott lið og fullt af áhorfendum en þeir áttu bara ekki séns í okkur því við vorum alveg hryllilega góðir á þessum tíma. En þeir voru þarna Pétur Ormslev og þessir landsliðskallar svo mætum við lítið lið að norðan og allt dæmt á móti okkur, það er ekkert hægt að vera í fótbolta þegar að þetta er svona. Það var bara þannig. Beggi lét reka sig útaf en ég er viss um að við hefðum unnið þá annars, ég hugsa að þetta hafi verið svona merkilegasti leikurinn.

Bestu samherjar hjá Völsungi ?
Allir sem að voru í liðinu þegar að við vorum upp á okkar besta, árin 1986 og 1987.

Skemmtileg saga frá þessum tíma ?
Það var partý hjá Begga eftir að við komumst upp í Úrvalsdeild, húsið hans var orðið aðal partý-staðurinn. Eftirminnilegt augnablikið þegar ljóst var að við værum komnir upp, það umturnaðist allur bærinn og það var stoppað útum allar götur, fólk keyrði þarna upp að og menn lokuðu ekki einu sinni bílunum, með þá í gangi og hurðirnar opnar og þeir snéru bara einhvernveginn. Menn ruku inn og allir áhugamenn Völsungs voru að koma á staðinn. Þetta var bara eins og ég veit ekki hvað, það var ægilegur fögnuður og það var bara eins og við hefðum orðið heimsmeistarar. Enda var þetta afrek að svona lítill staður færi upp. En þarna fann maður að þegar það gengur vel hvað menn standa saman. Sex ára fórn skilaði þessum árangri, það fór enginn frá félaginu og menn ætluðu að vinna saman í því að ná árangri og það tókst. Þetta var alveg ógleymanlegt helvíti og þegar að Beysi ruddist inn, kóngurinn.

Hvað veistu um félagið í dag og starfsemi þess ?
Þetta er allt á miklu lægra plani, litlir peningar til og erfitt að gera þetta. Menn ekki tilbúnir að leggja svona á sig eins og var. Fjáröflun er svo hryllilega erfið og erfitt að standa í þessu. Munurinn á þessu í dag og áður er að menn þurftu ekki að vera í fríum eða fara til útlanda og allan djöfulinn. Menn voru bara að vinna fyrir sitt áhugamál og gerðu það af heilindum og áhuga, það voru ekki allir að pæla í því að fara í sumarbústað eða fara erlendis. Menn voru bara heima og halda með sínu liði og vinna fyrir félagið. Þeir sem að voru í því þeir gáfu bara gjörsamlega allt í þetta og það voru líka þeir sem að voru svona ríkir þegar að við komumst upp, ríkir án peninga.

Hvaða skoðun hefur þú á gervigrasvellinum sem nú er verið að rísa ?
Þetta er auðvitað mjög gott en kom bara 20 árum of seint. En þetta breytir í raun ekki miklu því það eru ekki til peningar til að gera neitt. Við náum ekkert upp góðu liði því það eru ekki til peningar, það eru svo fá fyrirtæki og erfitt að fá styrki og afla peninga inn í starfsemina, þá erum við svo litlir að um leið og menn fara að geta eitthvað þá vilja þeir fara á betri stað. Stóru liðin geta fengið alla bestu leikmennina og þar að leiðandi nýtist grasið ekki nógu vel nema bara til unglingastarfs. Með óbreyttu þjóðfélagi verðum við ekkert með stórt lið á næstu árum en þetta er vissulega betra fyrir yngri flokkana. En við megum ekki gleyma innanhúsfótboltanum, það er nátturulega grunnurinn að Húsvískum fótbolta. Undirstaðan í tækni og svona þessi fótboltaskilningur hann kemur þaðan. Það höfum við fram yfir hin liðin.

Lokaorð til Völsunga um heim allan ?
Áfram Völsungur og þetta er spennandi sumar framundan. Gaman að fylgjast með útlendingunum og ungu strákunum. Svo bara þessi síða hjá Græna hernum er nátturulega stórkostleg og hún eflir áhugann. Hún tengir mann við fótboltann og maður er miklu meira inn í hringrásinni með þessu. Það er það sem ég sé núna, svona stærsta stökkið í fótboltanum það er þetta.
jonashallgrims

Grein úr Völsungsleikskrá - 1tbl - 24.maí 2012


Athugasemdir

  • Herna

Ingvar Björn-Rafnar Orri- Bjarki Breiđfjörđ