Sá gamli grćni: Hjörtur Júlíus HjartarsonÍţróttir - Rafnar Orri Gunnarsson - Lestrar 1013 - Athugasemdir ( )
Sá gamli græni var á sínum stað í Völsungsleikskránni sem að kom út fyrir mærudagana. Nú er komið að einum
gömlu grænum sem að vill oft kenna sig við skagamenn en hann er nú líka Völsungur og hér fyrir neðan má lesa viðtalið við
Hjört Júlíus Hjartarson. Gjörið svo vel!
Hvaða ár spilaðir þú fyrir Völsung ?
Ég spilaði sumarið 1996 fyrir þá grænklæddu. Minn fyrsti opinberi leikur fyrir félagið var gegn Leikni á útivelli. Ég man ekki
eftir einni sekúndu úr þeim leik og þurfti að fletta úrslitunum upp. Kannski vegna þess að við töpuðum, 3-0
Eftirminnilegasti leikur fyrir félagið ?
Skemmtilegasti leikur minn fyrir Völsung og sá sem ég man hvað best eftir kom strax í næstu umferð en þá unnum við ÍR á
heimavelli, 4-0. Mér tókst að skora með vinstri, beint úr aukaspyrnu (erfitt að trúa því miðað þá síðustu sem
ég tók). En þetta var engu að síður leikurinn hans Guðna Rúnars en hann skoraði þrjú mörk í leiknum, það
síðasta með neglu upp í skeytin af 25 metra færi. Því miður gaf þessi leikur engin fyrirheit um það sem koma skyldi því
við féllum um haustið.
Bestu samherjar hjá Völsungi ?
Það er hreint ótrúlegt að við skyldum falla þetta tímabilið sé mið tekið af þeim leikmönnum sem voru í hópnum.
Ási Arnars, Guðni Rúnar, Jónas Grani, Aggi, Ásgeir Baldurs og Danni svo einhverjir séu nefndir. Þá var handboltamaðurinn Björgvin
Björgvinsson afburðamarkvörður. Eins stigu Balli Kúta og Kristján Örn Sigurðsson sín fyrstu skref í meistaraflokki á þessu
tímabili. Það var því algjör óþarfi að falla og eitt það mest svekkjandi sem ég hef upplifað á ferlinum. En ég
á erfitt með að taka út einhvern einn sem besta samherjann. Mér var óskaplega vel tekið af öllum og það stendur upp úr.
Skemmtileg saga frá þessum tíma ?
Knattspyrnulega séð var sumarið nánast ein samfelld sorgarsaga. Mér leið mjög vel á Húsavík, bærinn sá fallegasti á
landinu og íbúarnir litríkir og skemmtilegir. Ég var snemma skólaður í því af heimamönnum að kunna einstaklega illa við
Akureyringa og flest sem því bæjarfélagi tengist. Nú 16 árum síðar er ég enn að reyna að leggja þessar kenndir til hliðar.
Þetta er sérstaklega slæmt þar sem móðir mín er Akureyringur í húð og hár! En annars vann ég um sumarið hjá
þeim Helga og Steina í bakaríinu sem þá var undir KÞ. Ég fékk að mæta klukkan fimm enda varla brúklegur í annað en
að steikja kleinurnar og sækja rúgbrauðin í Mývatnssveit. Allavega, ég lét heimasímann hringja til að vekja mig á hverjum morgni.
Þegar síminn hringdi, stóð ég upp, tók upp tólið og lagði það niður jafnharðan enda sjálfvirka símhringingu að
ræða og enginn á hinni línunni. Nema í eitt skipti hringdi Helgi þegar ég hafði sofið yfir mig. Ég gerði eins og vanalega, tók
upp tólið og skellti á án þess að svara. Þegar ég mætti svo í vinnuna nokkrum mínútum síðar sauð
gjörsamlega á Helga sem húðskammaði mig fyrir þennan rakalausa dónaskap! Steini talaði mínu máli og róaði kallinn niður.
Hvaða skoðun hefur þú á gervigrasvellinum sem nú er verið að rísa ?
Ég hef í sjálfu sér ekki neina skoðun á því hvort lagður verði gervigrasvöllur eða ekki. Sjálfur vil ég að
fótbolti sé spilaður á venjulegu grasi en sitt sýnist hverjum auðvitað í þessu sem öðru.
Hvernig sérðu framtíð félagsins fyrir þér ?
Það er erfitt fyrir mig að spá fyrir um framtíð félagsins, til þess þekki ég ekki innviði klúbbsins nógu vel. En frá
Húsavík hafa alltaf komið góðir knattspyrnumenn. Lykillinn að því að komast upp um deild eða deildir er að halda efnilegustu strákunum
lengur hjá félaginu. En það verður að sjálfsögðu að vera ástæða fyrir þá að leita ekki fyrir sér
annarsstaðar líka.
Lokaorð til Völsunga um heim allan ?
Ég vil bara þakka fyrir að hafa fengið að spila fyrir Völsung og aðallega búa á Húsavík þann tíma sem ég gerði.
Þó ég sé hundsvekktur að hafa ekki staðið mig betur í græna búningnum en ég gerði þá horfi ég til þessa
árs með hlýjum hug. Húsavík er yndislegur bær með yndislegu fólki. Ég heiti mér því við upphaf hvers sumars að
nú fari ég á Mærudaga. Vonandi verður af því núna.
Eldri greinar:
Sá gamli græni:
Jónas Hallgrímsson (1.tbl)
Sá gamli græni: Sigmundur Hreiðarsson (2.tbl)
Sá gamli græni: Ásgeir Baldursson (3.tbl)
Sá gamli græni: Birkir Vagn Ómarsson (4.tbl)
Sá gamli græni: Bjarni Pétursson (5.tbl)
Sá gamli græni: Sigþór Júlíusson (6.tbl)
Athugasemdir