Ng af stigum pottinumrttir - Hafr Hreiarsson - Lestrar 355 - Athugasemdir ( )
Völsungur hefur átt leik til góða á önnur lið frá því fyrir Verslunarmannahelgi en þá var leik liðsins gegn Víði úr Garði frestað. Nú er komið að þeim leik en Völsungar eiga harma að hefna frá því að liðin mættust á Suðurnesjunum í vor. Í stuttu máli um þann leik þá spilaði Völsungur einn sinn versta leik í áraraðir framan af og þrátt fyrir að vera manni fleiri frá því í fyrri hálfleik enduðu leikar 4-2 fyrir Víðismönnum. Eftir tvo sigurleiki í röð, heima gegn KV og úti í grannaslag við KS/Leiftur þá mæta okkar menn fullir sjálfstrausts og tilbúnir til þess að sýna að úrslit fyrri leiksins hafi verið slys.
Tvö lið virðast vera búin að tryggja sér sæti í 1.deildinni að ári en þó er enn tölfræðilegur möguleiki á að ná liðunum. Trú okkar á Völsungshópnum er gríðarleg og hefur aðeins aukist eftir að liðið bætti við sig þremur leikmönnum á lokadögum félagsskiptagluggans.Tvíburabræðurnir Geir og Kolbeinn Kristinssynir komu frá Fjölni og okkar eigin Hallgrímur Mar Steingrímsson kom aftur heim frá KA. Allir þrír bæta miklu við hópinn, auka samkeppni um stöður í liðinu með hæfileikum sínum auk þess að vera góð félagsleg viðbót við liðið.
Með þessa trú á hópnum gerum við alltaf kröfur, hvort sem þær þykja óraunhæfar eða ekki. Við trúum að liðið geti unnið þá leiki sem eftir eru því hæfileikarnir eru til staðar. Hæfileikar eru þó ekki nóg og enginn sigur vinnst á pappírunum. Strákarnir þurfa að vinna saman sem ein heild í einum takt í öllum sínum aðgerðum innan sem utan vallar og hafa trú á sjálfum sér, samherjum sínum og verkefninu sem er framundan. Ósk okkar er sú að menn gefi allt sitt í það sem eftir er, komist eins nálægt toppnum og mögulegt er og setjist síðan saman niður eftir tímabilið sáttir með sjálfa sig og segi ,,Bara að við hefðum byrjað eins og við enduðum," Verum gráðugir í stigin þrjú og stöndum saman í þessu. Leikmennirnir stíga inn á völlinn fyrir félagið Völsung á Húsavík og reyna sitt til að vera félaginu til sóma. Þeir standa þó ekki einir í þessu því mikið af góðu fólki, hvort sem er þjálfarar, styrktaraðilar, aðstandendur, þvottakonan Hrönn, bílstjórar, stjórnarmenn eða áhorfendur koma að liðinu með einum eða öðrum hætti. Virkjum okkur sjálf meir og stöndum saman í því að styðja við bakið á strákunum með góðri mætingu á Húsavíkurvöll á miðvikudaginn. Orgum úr okkur lungun með hvetjandi hrópum og köllum og tökum undir svo rífi í þegar að Sýslumannssonurinn verður sunginn í leikslok.
ÁFRAM VÖLSUNGUR!
Ingvar Björn Guðlaugsson & Rafnar Orri Gunnarsson
- ritstjórar www.123.is/volsungur
Athugasemdir