Luka Kostic í heimsókn hjá Völsungum.Íţróttir - Hafţór Hreiđarsson - Lestrar 268 - Athugasemdir ( )
Hann kom norður á fimmtudeginum og beint inn í höll. Þar stóð hann stóð vaktina, spriklaði með eða gaf góð ráð á æfingum hjá öllum flokkum Völsungs (7.fl og upp í mfl.karla og kvenna) frá kl.13:00 til 23:15. Luka stýrði nokkrum æfingum sjálfur auk þess sem hann sat súpufund með þjálfurum Völsungs milli 19 og 21 um kvöldið. Þar var hann með fyrirlestur og heilmikinn fróðleik fyrir þjálfara.Í samráði við mfl. þjálfarana setti hann svo upp og stjórnaði æfingu fyrir mfl. karla og kvenna milli 21 og 23:15.
En gefum nú Jóhanni Kr. Gunnarssyni þjálfara hjá Völsungi orðið:
,,Það var mikill fengur af Luka og gaf hann mörg ómetanleg ráð bæði leikmönnum og okkur þjálfurum enda gríðarlegur reynslubolti á ferð ásamt því að vera einn besti þjálfari landsins. Heilmikið hafðist upp úr ferðinni því hann kom auga á hæfileikaríka einstaklinga og kom því áfram á rétta staði að þar færu framtíðarlandsliðsmenn. Berglind og Gulla eru einmitt að fara á landsliðsæfingu hjá U19 um helgina eftir að hann lýsti þeim fyrir Óla Guðbjörns, þjálfara U19. Einnig var hann hrifinn af nokkrum strákum sem eiga eftir að fá sénsinn fljótlega ef allt gengur eftir.
Á föstudeginum fór hann með okkur Svenna Aðalsteins á Raufarhöfn en þar er einmitt tilraunaverkefni í gangi. Þjálfarar frá Völsungi hafa farið austur í Lund og á Raufarhöfn, auk þess sem ein kynning var á Þórshöfn, og þjálfað áhugasama krakka á grunnskólaaldri. Verkefnið er kostað af Norðurþingi og er liður í að allir sitji við sama borð og hafi tækifæri á að iðka íþróttina hvar svo sem þeir búa í sveitar-félaginu. Luka var mjög hrifinn af verkefninu og var ánægður með að fá að koma með í förina. Norðurferð Luka Kostic er einmitt kostuð af KSÍ vegna þessa verkefnis þar sem það fellur vel undir útbreiðslustefnu sambandsins. Ekki var þjálfað í Lundi í þessari ferð því heimamenn töldu að ekki væri heppilegt að gera það á starfsdegi skólans. Það var miður því þar eru margir efnilegir krakkar á ferð og mjög áhugasamir. Þau hefðu haft bæði gagn og gaman að taka eina æfingu með landsliðsþjálfaranum.
Á Raufarhöfn mættu um 20 krakkar í það heila (yngri og eldri hópur, skiptin eru 1.-5.bekkur og 6.-10.bekkur, og voru tvær æfingar, ein fyrir hvorn hóp. Heldur fleiri krakkar hafa mætt á æfingarnar og því kom það þjálfurum á óvart að ekki skyldu fleiri mæta þegar Luka kom með. Þetta var jú kynnt nokkuð vel að okkar mati. Æfingarnar voru hinsvegar mjög góðar og kenndi Luka þeim margt og sýndi margt nytsamlegt sem þarf að kunna skil á í íþróttinni. Eftir stutt spaghetti bolognese á Hótel Norðurljósum í boði Erlings og íþróttafélagsins Austra keyrðum við í loftköstum heim á leið þar sem meistarinn átti flug frá Akureyri um 20:00” sagði Jói Kr.
Jói segir heimsóknina hafa verið gríðarlega vel heppnaða og allir ánægðir. Þá er á stefnuskránni að fá landsliðsþjálfara í yngri landsliðum kvenna til að koma áður en langt um líður og einnig hefur verið rætt við fleiri þjálfara sem eru væntanlegir í heimsókn með vorinu.
Athugasemdir