Loksins sigur hjá strákunumÍţróttir - Ingvar Björn - Lestrar 304 - Athugasemdir ( )
Völsungar voru betri til þess að byrja með og fengu ágætis færi
með stuttu millibili í byrjun. Arnþór Hermannsson átti þá aukaspyrnu inn í teig á kollinn á Hauki Hinrikssyni sem skallaði boltann
yfir markið. Mínútu síðar, eftir góða sókn, renndi Hafþór Aðalgeirsson boltanum út í teiginn á Arnþór
sem átti gott skot að marki sem var varið.
Á 32.mínútu leit besta færi dagsins ljós. Boltinn datt þá niður við markteig gestanna og Aðalsteinn Jóhann Friðriksson
mætti á svæðið með nægan tíma. Hann hoppaði upp og skaut vel yfir markið úr þessu líka dauðafæri!
Í uppbótartíma fyrri hálfleiks komust Völsungar í 1-0. Elfar Árni fór þá upp vinstri kantinn og átti fyrirgjöf sem
fór af hendi varnarmanns og aftur fyrir mark. Dómarinn flautaði og dæmdi víti sem gestirnir mótmæltu en ritari var ekki í nægilega
góðri sjónlínu til þess að dæma um þetta. Arnþór Hermannsson steig á punktinn og setti boltann örugglega í hornið.
1-0 í hálfleik.
Seinni hálfleikur fór rólega af stað og það var ekki fyrr en um miðjan hálfleikinn sem færin fóru að sýna sig. Hamarsmenn fengu
tvö mjög góð færi með stuttu millibili. Fyrst komst sóknarmaður þeirra inn í vítateiginn hægra megin og skaut föstu skoti
með jörðinni sem Steinþór Mar varði vel í horn. Eftir hornið barst boltinn aftur út á kant og heimamenn gleymdu sér í dekkningunni
en Ágúst Örlaugur, fyrirliði Hamars, var einn á auðum sjó í vítateignum en skallaði fyrirgjöf samherja síns framhjá
markinu.
Áfram leið leikurinn og mikill hiti fór að færast í menn. Hvergerðingar kvörtuðu yfir nánast öllum dómum létu afar litla
dóma fara í taugarnar á sér. Þegar rúmar 5 mínútur voru eftir stökk Rafnar Smárason inn í varnarmann Hamars og keyrði
hann niður. Upp komu stympingar á milli liðana sem endaði með því að Bjarki fékk gult spjald ásamt varnarmanni gestanna. Sigurður Reynisson,
annar varnarmaður gestanna, gerði sig sekan um að sparka í Bjarka í látunum og fékk hann sitt annað gula spjald og þar með það
rauða.
Á 89.mínútu kom hár bolti fram völlinn og Hamarsmenn sluppu í gegn. Jóhann Páll, varnarmaður Völsunga, var í bakinu á
sóknarmanninum og stjakaði við honum. Sóknarmaðurinn hélt áfram, skaut og klúðraði en fékk engu að síður víti.
Ágúst Örlaugur fór á punktinn og skoraði örugglega úr vítinu. 1-1 og stefndi allt í að þetta yrðu
lokaúrslitin.
Völsungar ætluðu þó alls ekki að láta þetta enda svona. Þeir brunuðu fram í sókn og eftir samspil á vinstri kantinum kom
fyrirgjöf sem Elfar Árni skallaði upp í vindinn og yfir markvörðinn. 2-1, mark á 91.mínútu og allt brjálað í brekkunni!
Leik lauk með þessum tölum en mikilvægur sigur kom þarna í hús. Sjálfstraust og trú hljóta að fylgja og menn verða að byggja
ofan á þessi þrjú stig.
Kristján Gunnar Óskarsson var valinn Heimabakarís maður leiksins og hlaut súkkulaðiskóinn fyrir sinn leik. Virkilega fínn leikur hjá
Kristjáni sem var mikill leiðtogi á vellinum og náði vel saman við Hauk Hinriksson í miðverðinum. Haukur átti einnig mjög góðan
leik og ásamt Steinþóri voru þeir þrír að mínu mati bestu menn liðsins. Seinni hálfleikur liðsins var ekki nægilega
góður en í þessum leik þá dugðu mér þrjú stigin! ÁFRAM VÖLSUNGUR!!
Byrjunarlið;
Steinþór, Stefán Jón, Kristján Gunnar, Haukur, Sigvaldi,
Arnþór, Jónas, Bjarki, Hafþór, Alli Jói og Elfar Árni.
Bekkur; Kjartan, Gunni Siggi, Rafnar, Jóhann Páll og Bjarki Þór.
Alli Jói í dauðafæri en skaut yfir.
Arnþór skorar úr vítinu.
Elfar Árni og Bjarki Bald. fagna marki þess fyrrnefnda.
Jói Kr. ánægður að leik loknum.
Fleiri myndir er hægt að skoða hér
Athugasemdir