Ljsmyndir Sunnevu vekja athygli.Almennt - Hafr Hreiarsson - Lestrar 625 - Athugasemdir ( )
Sunneva Birgisdóttir er ung húsavíkurstúlka sem vakið hefur athygli fyrir
ljósmyndir sínar sem margar hverjar þykja mjög góðar. Sunneva er með ljósmyndasíðu á flickr.com og á
orðið aðdáendur þar. “Já það var einn gestur á síðunni sem sagðist vera orðinn aðdáandi minn og
vildi fá að fylgjast með hvernig myndirnar mínar kæmu til með að þróast í framtíðinni” segir Sunneva sem nú
stundar nám á listnámsbraut við Verkmenntaskólann á Akureyri. Aðspurð segir hún að sig langi til að læra
ljósmyndun og starfa við hana, jafnvel samhliða einhverju öðru.
Að sögn Sunnevu finnst henni t.a.m. gaman að taka myndir af hundum, allskonar nærmyndatökum sem og listrænar myndatökur. “ Annars finnst mér nú bara skemmtilegast að taka allskonar myndir og ekki síst á eldri filmuvélar”. En hvernig aðstöðu hefur hún til að taka stúdíomyndir ? “Maður er nú bara ungur námsmaður enn og á sjaldan peninga en ég og kærastinn minn, sem heitir Árni Friðrik Sigurðsson, reynum stundum að gera eitthvað sniðugt. Við höfum m.a. notað heimagerð stúdíóljós með ljósi úr lampaskerm, ljósaperu, rafmagnssnúru og bökunarpappír og það kom ágætlega út. Árni er í ljósmyndaklúbbnum hér á Akureyri og við höfum aðgang að ljósmyndastúdíói sem þeir eiga en höfum ekki nýtt okkur það ennþá. Annars finnst mér skemmtilegast að nota sumarbirtuna við myndartökur og tek mum meira af myndum yfir sumarið” segir Sunneva.
Myndir Sunnevu hafa m.a. unnið til verðlauna í hinum fjölbreytilegustu ljósmyndakeppnum. Hún rakst t.d. á það á netinu að Garðurinn, blað áhugafólks um garðyrkju, hefði efnt til ljósmyndakeppni. Hún sendi inn og náði fyrsta sætinu þar. Þá tók hún þátt í ljósmyndakeppni á sem N4 á Akureyri efndi til. Þar náði hún einnig fyrsta sætinu en yfir 200 myndir bárust í keppnina. Hún gerði þó gott betur því 15 efstu myndirnar voru sýndar í sjónvarpi N4 og af þeim átti hún 3 myndir. “Þá má ekki gleyma að ég tók þátt í ljósmyndakeppni þegar ég var í Borgarhólsskóla og náði fyrsta sætinu þar, reyndar eini keppandinn” segir Sunneva og brosir út í annað.
Fyrir þá sem hafa áhuga á að skoða myndir Sunnevu er hægt að sjá þær á www.flickr.com/photos/sunnaix
Athugasemdir