Jafntefli í Hleđslumótinu gegn Dalvík/ReyniÍţróttir - Ingvar Björn Guđlaugsson - Lestrar 545 - Athugasemdir ( )
Völsungur mætti Dalvík/Reyni í Hleðslumótinu nú á laugardaginn. Hleðslumótið er æfingarmót sem lið á
Norðurlandi taka þátt í en áður hefur mótið heitið Soccerade- og Powerademótið. Völsungar unnu mótið árið 2010.
Leikurinn gegn Dalvík/Reyni var leikur númer tvö hjá Völsungum í þessu móti en fyrsti leikurinn var gegn Þór og tapaðist hann
4-1.
Völsungur og Dalvík/Reynir eru saman í 2.deild og hafa margar baráttur háð undanfarin ár. Því mátti búast við leik fullum af
baráttu og skemmtilegum ríg.
Með Völsungum spiluðu tveir drengir frá Haukum. Enok Eiðsson og Pétur Ásbjörn Sæmundsson heita þeir piltar og má segja að þeir
hafi verið til skoðunar. Pétur er fæddur árið 1989 og hefur spilað 45 meistaraflokksleiki fyrir Hauka, Markaregn og Hamar. Hann hefur skorað í
þeim 8 mörk og hefur afrekað það að spila og skora í öllum deildum Íslandsmótsins. Enok er fæddur árið 1990 og er sonur
Eiðs Aðalgeirs og Sigurlínu Hilmarsdóttur fyrir þá sem vilja rekja ættir hans til Húsavíkur. Hann hefur spilað 38 meistaraflokksleiki fyrir
Hauka og ÍH í 1. og 2.deildinni og skorað í þeim 3 mörk.
Byrjunarlið Völsunga í leiknum var svohljóðandi; Ingólfur Örn Kristjánsson í markinu. Ingólfur hefur skrifað undir samning við
Völsung og kemur frá Víking Ólafsvík. Ingólfur spilaði síðustu tvo deildarleikina síðasta sumar með Völsungi og þekkir
því örlítið til hér á bæ. Í hægri bakverði var Stefán Jón Sigurgeirsson og í þeim vinstri var Sigvaldi
Þór Einarsson. Gunnar Sigurður Jósteinsson og Bjarki Þór Jónasson mynduðu svo miðvarðarparið. Áðurnefndur Pétur
Ásbjörn var á miðjunni með Jónasi Halldóri Friðrikssyni og Arnþóri Hermannssyni. Hafþór Mar Aðalgeirsson og Hrannar
Björn Steingrímsson, fyrirliði, skipuðu svo kantstöðurnar. Fremstur var svo Enok Eiðsson.
Leikurinn byrjaði gæfulega fyrir Völsunga en strax á 8.mínútu vippaði Pétur Ásbjörn boltanum innfyrir vörnina á Enok sem
kláraði færi sitt vel og kom Völsungum í 1-0. Um miðbik hálfleiksins sluppu Dalvíkingar í gegn en Ingólfur kom vel út á
móti og ýtti boltanum frá fótum sóknarmannsins. Dalvíkingar héldu boltanum en skutu yfir markið úr algjöru dauðafæri.
Sóknarleikur Völsunga í fyrri hálfleik var oft á tíðum hraður og markviss með fáum snertingum en mönnum vantaði oft á
tíðum að taka rétta ákvörðun við vítateiginn. Mikil batamerki þó á sóknarleik liðsins frá því
í leiknum á undan og leikjunum í desember.
Í uppbótartíma fyrri hálfleiks spiluðu Völsungar vel saman á miðjunni sem endaði með því að Arnþór vippaði
boltanum innfyrir vörn Dalvíkinga og Hafþór Mar náði boltanum. Hafþór lék á Steinþór í markinu og var kominn inn
í markteig og átti aðeins eftir að ýta boltanum yfir línuna þegar hann var negldur niður. Vítaspyrna dæmd en varnarmanninum aðeins
sýnt gula spjaldið. Ég var tiltölulega rólegur á þessum tímapunkti enda bara janúar og óþarfi að fá hjartaáfall
strax þá þegar þó nokkuð af mikilvægari leikjum er eftir á árinu. Mér blöskraði engu að síður og hefði
tryllst hefði þetta til að mynda gerst í júlí.
Arnþór steig á vítapunktinn og skoraði örugglega framhjá Steinþóri sem þó fór í rétt horn. 2-0 fyrir
Völsungum í hálfleik.
Völsungar mættu kærulausir út í seinni hálfleikinn og Dalvíkingar þeim mun meira grimmir. D/R gekk á lagið og skoruðu vel
útfært mark snemma. Jónas Halldór fór svo útaf á 55.mínútu og inná í hans stað kom Halldór Geir Heiðarsson.
Við köllum hann samt Donna hér eftir!
Dalvíkingar héldu áfram að þjarma að okkur og við náðum ekki sama takti í sóknarleikinn eins og í fyrri hálfleik. Menn
voru að reyna að gera hlutina of hratt og völdu alltof oft að reyna úrslitasendingu í staðinn fyrir að spila boltanum stutt. Meira réði kapp en
forsjá. Spaklega mælt.
Dalvíkingar jöfnuðu í 2-2 með skalla úr miðjum vítateignum eftir lélega dekkun okkar manna áður en þeir komust í 3-2
á 66.mínútu með góðu skoti úr teignum. Áfram héldu Völsungar að reyna án þess að skapa sérlega hættuleg
færi. Við þessar sóknartilraunir opnaðist vörnin oftar og eftir skyndisókn D/R manna slapp framherji þeirra einn í gegn en Ingólfur
varði virkilega vel í markinu.
Á 87.mínútu fékk Haffi annað verðskuldað víti. Haffi var að taka á móti háum bolta í vítateignum og í
þann mund sem hann var að drepa boltann niður var bombað í fótinn á honum. Smellurinn glumdi um allan Boga og ekkert annað hægt en að dæma
vítaspyrnu. Arnþór steig aftur á punktinn en í þetta skiptið varði Steinþór frá honum. Hafþór Mar var þó
fyrstur á vettvang og fylgdi vel á eftir og jafnaði leikinn í 3-3. Urðu það svo lokatölur.
Fyrri hálfleikur liðsins var lengst af mjög jákvæður og hraður. Þó var eitthvað um sendingarfeila en menn voru öruggir á boltanum og
þéttir þegar andstæðingurinn var með boltann. Seinni hálfleikurinn var verri og ekki nægilega langir kaflar þar sem liðið hélt
boltanum og byggði sóknir sínar upp af skynsemi. Góð skemmtun var leikurinn þó og fínasti janúarleikur. Það er svo vonandi að
leiðin liggi aðeins upp á við og liðið eigi eftir að spila sig betur saman fram að móti.
Athugasemdir