Góđur sigur Völsunga gegn TindstólÍţróttir - Hjálmar Bogi Hafliđason - Lestrar 324 - Athugasemdir ( )
Meistaraflokkur kvenna lék í gær við Tindstól í 1. deildinni, B-riðils og með sigri í leiknum gátu þær komist í þriðja sæti riðilsins. Stelpunum barst fyrir skömmu liðsstyrkur úr Þór/KA þær Elva Marý Baldursdóttir sem hefur áður spilað með Völsungi og Eva Björk Benediktsdóttir og þær eru góður styrkur við gott lið. Heldur var fámennt í brekkunni þó það hafi fjölgað þegar leið á leikinn.
Völsungar voru grimmari í upphafi og fyrsta markið koma strax á ´8 mínútu þegar Eva Björk setti boltann í netið. Stuttu seinna átti Hafrún flotta sendingu inn í teig á Evu sem skaut en markmaðurinn bjargaði í stöng. Sóknir Völsunga héldu áfram en stelpurnar náðu ekki að nýta sér þær og vantaði meiri grimmd. Á ´16 mínútu átti Elva Marý dúndur sendingu upp í hornið á Berglindi Ósk sem hún náði ekki að nýta sér. Um miðbik fyrri hálfleiks fóru Tindastólarnir að komast meira inn í leikinn. Á ´27 mínútu lenti Hafrún í samstuði við eina úr Tindastól og var leikurinn stopp í um 4 mínútur og fór Hafrún af velli. Völsungar spiluðu því manni færri um stund þar til Gígja Valgerður kom inn á sem varamaður á ´37 mínútu. Völsungar komust meira inn í leikinn en það vantaði meiri grimmd og ákveðni en það komu margar góðar sendingar upp völlinn sem ekki nýttust. Á ´42 mínutu átti Gígja gott hlaup upp völlinn og sendi inn á miðjuna þar sem Elva Marý lét vaða á markið en markmaður Stólanna varði og eftir klafs í vörninni og einhvern misskilning fylgu Völsungar vel eftir og Harpa setti boltann í netið og staðan því orðin 2 mörk Völsunga gegn engu. Áfram komu fínar sendingar upp á báða kantana af vallarhelmingi Völsunga sem þær náðu ekki að nýta sér. Hálfleikstölur því 2 – 0.
Engar mannabreytingar voru í hálfleik. Seinni hálfleikur byrjaði með tíðindalitlu moði og vantaði meira líf í leikinn. Tindastóll gerði tvöfalda skiptingu á ´57 mínútu og Völsungar einnig á ´63 mínútu þegar Berglind Ósk og Eva fóru út af í stað Berglindar Jónu og Rögnu. Nokkuð var einnig um breytingar á stöðum leikmanna innan vallarins frá upphafi og því mikil breyting á liðinu. Á ´70 mínútu átti Gauðlaug Sigríður efnilega sendingu á Gígju Valgerði sem átti flott hlaup með boltann en af einhverjum ástæðum endaði markvörðurinn með boltann í höndunum. Völsungar fóru að finna smá takt og þeim gekk betur í leiknum. Sigrún Björg átti sendingu af hægri kanti á ´73 mínútu á Gígju Valgerði og það skapaðist vandræðaástand í vörn Stólanna en Guðlaug Sigríður potaði í boltann við vinstri stöng og þriðja markið staðreynd. Eftir þetta lifaði aðeins yfir leiknum og Tindstólsstelpur voru ekki á því að gefast upp. Á ´76 mínútu átti Guðlaug Sigríður skalla á Elvu Marý sem lét vaða á markið en boltinn rétt framhjá. Völsungar gerðu aftur tvöfalda skiptingu á ´77 mínútu þegar Guðlaug Sigríður og Harpa fóru af velli og inn á komu Selmdís og Unnur.
Á sömu mínútu setti Gígja Valgerður skemmtilegt mark með skoti í vinstra hornið og var það vel verðskuldað. Sóknirnar héldu áfram og mínútu síðar átti Elva Marý gott skot á markið sem markmaðurinn rét náði að verja. Á ´81 mínutu var Gígja Valgerður felld innan teigs eftir fínt hlaup upp völlinn og dómarinn dæmdi réttilega vítaspyrnu. Unnur gerði sig klára til að taka vítið og setti boltann síðan örugglega í markið og staðan því orðin 5 – 0. Völsungar sóttu þungt að marki Tindastóls, unnu aukaspyrnur og hornspyrnur og áttu nokkur skot rétt framhjá en það var lítið að gera hjá Önnu Guðrúnu í marki Völsungs. Lokatölur fimm mörk gegn engu. Maður leiksins var valinn Elva Marý Baldursdóttir.
Leikurinn var nokkuð kaflaskiptur annars vegar tíðindalítill og hinsvegar flottir kaflar en það vantaði meiri grimmd í liðið að vilja meira vegna þess að efni stóðu til þess. Völsungsstelpur eiga vilja meira vegna þess að þær geta meira. Framundan er gríðarlega mikilvægur leikur við FH sem skipar 4. sæti riðilsins. Leikurinn fer fram næstkomandi laugardag kl. 14 og fólk hvatt til að mæta.
Unnur Erlings skorar hér fimmta og síðasta mark Völsunga úr vítaspyrnu.
Elva Marý átti góðan leik og var valin maður leiksins.
Athugasemdir