Fyrsti sigurinn í höfn.Íţróttir - - Lestrar 281 - Athugasemdir ( )
Í dag áttust við á
Húsavíkurvelli, heimamenn í Völsungi og Höttur frá Egilsstöðum. Fallegir geislar sólarinnar léku um vanga vallargesta sem voru alltof
fáir, eða um 70 talsins. Ungt lið Völsungs mætti hungrað til leiks enda hafði uppskera sumarsins hingað til verið fremur rýr eða aðeins 1 stig
úr fimm fyrstu deildarleikjunum.
Leikurinn byrjaði með sóknarþunga Völsunga sem náðu þó ekki að skapa sér nein ákjósanleg færi. Menn voru allir
klárir í að vinna fyrir hvorn annan og enginn slakaði á hlaupum né baráttu. Hattarmenn fóru þó að færa sig upp á
skaftið og leika sér með boltann á miðjunni en komust hvergi nærri marki Völsunga enda fantafín varnarvinna í gangi á þeim
bænum.
Fyrsta hálffæri leiksins kom á 29.mínútur þegar aukaspyrna utan af kanti frá Bjarka Baldvinssyni sveif fallega í gegnum boxið þar sem
Aron Bjarki Jósepsson náði ekki að beina skalla sínum í átt að markinu.
Til tíðinda dró þó á 36.mínútu þegar fallegt samspil þriggja framherja Völsungs endaði með því að
Stefán Björn Aðalsteinsson lék á tvo varnarmenn og setti knöttinn fallega framhjá markverði Hattar og í netið. 1-0 fyrir Völsungi og allt
kolvitlaust í brekkunni.
Völsungar gerðu sig líklega til að bæta við strax í næstu sókn þegar Elfar Árni Aðalsteinsson átti skot hárfínt
framhjá stönginni fjær. Þar refsaði gamla góða hársbreiddin illilega!
Höttur tók innkast frá hægri þar sem menn úr hvoru liði féllu
við inn í vítateignum. Smá hræðsla gerði vart við sig þegar dómarinn flautaði en sem betur fer var hann aðeins að flauta til
hálfleiks. Síðari hálfleikur hófst með smávegis dass af kæruleysi hjá drengjunum okkar en það slapp vel fyrir horn. Síðari
hálfleikurinn einkenndist aðallega af mikilli baráttu og lágu Völlarar full aftarlega á vellinum og leyfðu Hattarmönnum að leika sér með
boltann á miðsvæðinu. Þó tókst okkur að sækja hratt á þá þegar við fengum boltann en hálfkæruleysislegar
lokasendingar urðu til þess að engin urðu færin.
Eina alvöru færið hjá Hetti var þegar boltinn var sendur inn í teiginn þar sem framherji þeirra stóð einn og óvaldaður og skaut
yfir. Ákvað dómarinn þó að gefa þeim aukaspyrnu rétt fyrir utan teiginn þar sem hann greinilega taldi hagnaðinn engan. Björn
Hákon Sveinsson varði þá spyrnu með glæsibrag og hélt boltanum vel.
Barátta og miðjuþóf var það mest sem eftir lifði leiks og voru það kampakátir Völsungar sem stigu sigurdans við lokaflautið enda
langþráður sigur í höfn. Semsagt verðskuldaður 1-0 sigur og kallarnir komnir með fjögur stig. Í liði Völsungs fannst undirrituðum
Stefán Björn skara framúr en barátta hans, sprengikraftur og hraði ullu oft miklum usla í vörn Hattar. Björn Hákon greip líka
frábærlega inn í fyrirgjafir og langskot þegar á þurfti að halda og virkaði mjög yfirvegaður. Einnig var varnarleikurinn sterkur og gaf engin
færi á sér en allir leikmenn Völsungs eiga hrós skilið fyrir frammistöðu sína og baráttu í dag. Hún var alveg 100%.
Til hamingju með sigurinn Völsungur!
Stefán Björn Aðalsteinsson átti mjög góðan leik í dag og skoraði í sínum þriðja leik í röð.
Hallgrímur Mar Steingrímsson í baráttunni.
Meðfylgjandi myndir tók Hallgrímur Sigurðsson. Fleiri myndir er hægt að
skoða hér á myndasíðu Halla.
Athugasemdir