Umfjöllun: Ömurlegt tap

Völsungar mættu KF í 1.deildinni fyrr í kvöld en liðin voru samferða upp úr 2.deildinni síðasta haust. Gengi KF-manna hefur verið betra en okkar í upphafi

Umfjöllun: Ömurlegt tap
Íþróttir - Ingvar Björn Guðlaugsson - Lestrar 1113 - Athugasemdir ()

Hrannar Björn var valinn maður leiksins í dag
Hrannar Björn var valinn maður leiksins í dag

Völsungar mættu KF í 1.deildinni fyrr í kvöld en liðin voru samferða upp úr 2.deildinni síðasta haust. Gengi KF-manna hefur verið betra en okkar í upphafi móts en bjartsýni og jákvæðni var í í Völsungshópnum fyrir leik.

Byrjunarlið Völsungs; Dejan Pesic, Sveinbjörn Már Steingrímsson(Pétur Ásbjörn Sæmundsson'54, Sindri Ingólfsson'75), Gunnar Sigurður Jósteinsson, Marko Blagojevic, Halldór Fannar Júlíusson, Halldór Orri Hjaltason, Hrannar Björn Steingrímsson(f), Arnþór Hermannsson, Hafþór Mar Aðalgeirsson, Ásgeir Sigurgeirsson, Vladica Djordjevic

Völsungar byrjuðu grimmir og uppskáru mark snemma leiks. Á 12.mínútu fékk Ásgeir boltann úti á vinstri kant og lék á varnarmann áður en hann átti fyrirgjöf sem Hafþór Mar kastaði sér á og skaut af stuttu færi en Björn Hákon varði. Hafþór var þó fyrstur til þess að átta sig á hlutunum og fylgdi eftir. 1-0 fyrir Völsung og hlutirnir litu vel út.

Í kjölfarið fylgdi mikil miðjubarátta og grimmd á milli liðanna. Hrannar Björn átti tvö föst skot að marki í fyrri hálfleiknum af töluverðu færi sem Björn Hákon varði vel. 

Grimmdin hélt áfram og rétt fyrir hálfleikinn fékk Sveinbjörn Már Fjallbyggðskan olnboga í andlitið og lá eftir. Þóroddur dómari ákvað þá að segja þetta gott í bili og blés til hlés.

Seinni hálfleikur byrjaði ekki nægilega vel, KF sótti og við náðum ekki að halda boltanum vel. Sveinbjörn Már þurfti að yfirgefa völlinn vegna meiðsla en hann var draghaltur meirihluta leiksins. Miðjan hafði verið að vinna keppnina þar inni og gefa fá áhlaup á varnarlínuna en færslur á liðinu ollu ringulreið innan liðsins. 

Stundarfjórðungskafli þar sem leikur Völsunga var í lamasessi hófst eftir fyrsta mark gestanna. Aukaspyrna var tekin inn á teig og varnarmönnum mislukkaðist að hreinsa frá í tví- eða þrígang. Sóknarmaður fær boltann rétt fyrir framan markið og klárar auðveldlega, 1-1 eftir 59 mínútna leik.

Aðeins þremur mínútum síðar hafði vont versnað til muna. Tap á bolta á miðjunni, sending inn fyrir og boltinn lagður framhjá Dejan í markinu. 1-2 og hálftími eftir. 

Völsungar virtust þó ætla að vakna í kjölfarið. Aðeins mínútu síðar fékk Hafþór sendingu inn fyrir og óð upp að endamörkum áður en hann lagði boltann út í teiginn. Þar kom Arnþór á ferðinni og þrumaði boltanum yfir úr ákjósanlegu færi. 

Örstuttu síðar fékk Vlado boltann úti á vinstri kantinum og átti flotta fyrirgjöf sem Arnþór skallaði hárfínt framhjá fjærstönginni.

Kappið bar menn ofurliði það sem eftir lifði leiks. Menn urðu eiginlega of ákafir í aðgerðum sínum og sendingar urðu endaslappar. 

Á 89.mínútu fékk varnarmaður KF sitt seinna gula spjald og þar með það rauða en gestirnir héldu út. 1-2 sigur KF því staðreynd.

Enn einn leikurinn án sigurs því staðreynd. Það er óþolandi að sjá hvernig allt sjálfstraust fer úr liðinu við það að fá á sig mark. Gjörsamlega óþolandi. Menn þurfa að fara í alvarlega sjálfskoðun og taka sig á. Það býr hellingur í þessu liði sem mönnum er ekki að takast að sýna. Nú verða menn bara að gera það í næsta leik gegn KA.  

Hrannar Björn var valinn maður leiksins, vann mikið og vel og reyndi að stýra sínum mönnum. Það kemur mikið meira út úr Hrannari á miðsvæðinu heldur en kantinum. Halldór Fannar átti fínan leik í vinstri bakverðinum og miðvarðaparið Gunni og Marko stóð sig vel. Þetta var ekkert endilega alslæmt, en djöfull er bara óþolandi ömurlegt að tapa og reyna að vera jákvæður.

Næsti leikur er gegn KA inni á Akureyri á fimmtudaginn kl.19.15. Liðið þarf á stuðningi að halda þessa dagana, fjölmennum inn á eyri og styðjum okkar menn. ÁFRAM VÖLSUNGUR!!!


Athugasemdir

  • Herna

Ingvar Björn-Rafnar Orri- Bjarki Breiðfjörð