Umfjöllun: Grænir sóttu fyrsta stig sumarsins í BogannÍþróttir - Elís Orri Guðbjartsson - Lestrar 960 - Athugasemdir ( )
Völsungar áttu útileik á móti Tindastól sem fór fram í Boganum á Akureyri vegna veðuraðstæðna, en grasið á Sauðárkróki er engu skárra en það sem er á Húsavíkurvelli. Getum prísað okkur sæl með nýja gervigrasvöllinn okkar. Stólarar voru með eitt stig fyrir leikinn en Völsungar voru án stiga eftir tap gegn BÍ/Bolungarvík í fyrstu umferð.
Byrjunarlið Völsungs: Dejan Pesic, Sveinbjörn Már Steingrímsson, Marko Blagojevic, Péter Odrobéna, Sindri Ingólfsson (Halldór Fannar Júlíusson ’82), Hrannar Björn Steingrímsson (f), Halldór Orri Hjaltason, Pétur Ásbjörn Sæmundsson (Arnþór Hermannsson ’82), Guðmundur Óli Steingrímsson, Hafþór Mar Aðalgeirsson, Ásgeir Sigurgeirsson.
Gul spjöld: Hafþór Mar Aðalgeirsson, Sindri Ingólfsson.
Leikurinn byrjaði svo sannarlega af krafti en eftir um tíu mínútna leik átti Guðmundur Óli hornspyrnu inn á teig heimamanna. Völsungar vinna skallaeinvígið og á sama augnabliki mundar Doddi dómari flautuna og vítaspyrna er dæmd. Á hvað vitum við ekki alveg, en það kemur ekki að sök. Marko steig á punktinn og setti markvörð Tindastóls í rangt horn, 1-0!
Völsungar efldust fyrir vikið og fimm mínútum síðar áttu Völsungar flotta sókn sem endaði með því að litli krulluhnokkinn okkar lagði boltann örugglega í netið. Fagnaðarlætin stóðu þó ekki lengi yfir því Doddi flautaði aftur nema núna til þess að taka af okkur mark en ekki gefa okkur það. Svekkjandi, en það má þó færa rök fyrir því að Völsungar hafi brotið af sér í aðdraganda marksins.
Eftir um hálftíma leik eigum við Völsungar stórhættulega skyndisókn. Stólararnir eiga hornspyrnu sem Haffi skallar frá, Hrannar fær boltann á miðjunni og geysist upp. Upp á toppi tekur Ásgeir við honum og skytturnar þrjár, Ásgeir, Hrannar og Haffi geysast upp völlinn. Sóknin endar þannig að Haffi er einn á móti markmanni Tindastóls en honum bregst bogalistin og skotið geygjar. Óheppnir að bæta ekki við öðru marki þarna!
Það verður að nýta sóknirnar því annars er alltaf möguleiki á því að verða refsað, og sú var akkúrat raunin. Á 38. mínútu sækja Tindastólsmenn upp vænginn og koma boltanum í teiginn. Eftir smá klafs endar boltinn fyrir heppni hjá sóknarmanni Stólanna sem tekur boltann á kassann og setur hann innanfótar í hornið. Staðan orðin 1-1 og leikurinn í járnum.
Lokamínútur fyrri hálfleiksins voru æsispennandi en fyrst á Odrobéne ævintýralega lausan skalla af markteig sem markmaður þeirra ver auðveldlega og svo fær Haffi algjört dauðafæri á 48 mínútu leiksins, en hann hitti boltann illa og skotið endaði í hliðarnetinu. Ótrúlegt alveg hreint.
Seinni hálfleikur var tíðindalítill og gerðist fátt markverkt. Þegar tuttugu mínútur voru eftir sauð aðeins upp úr og en þó var engum spjöldum lyft. Skömmu eftir það komu Arnþór Hermannsson og Halldór Fannar inn á í stað Sindra Ingólfs og Péturs Kling.
Undir lok leiksins voru Tindastólsmenn þó óheppnir að stela ekki sigrinum, þeir áttu þá aukaspyrnu utan af kanti sem þeir unnu í teignum en sem betur fer endaði hún framhjá. Sömuleiðis unnu þeir okkur í loftinu í hornspyrnu stuttu síðar en boltinn fór hárfínt yfir. Skjótt skipast veður í lofti og keyrðu Völsungar upp völlinn í skyndisókn og hefði Ásgeir getað laumað inn marki þegar hann átti skot frá vítateig en inn vildi boltinn ekki. Á hinum endanum gátu svo Stólarar refsað, en einbeitingarleysi hjá öftustu fjórum varð þess valdandi að boltanum er laumað fyrir aftan varnarlínuna þar sem sóknarmaður þeirra nær skoti að marki en Dejan er vandanum vaxinn í markinu og nær að halda þessu frá - sem betur fer!
Síðasta tækifæri leiksins áttu Völsungar en Hrannar tók þá aukaspyrnu sem var frekar mislukkuð og fyrsti varnarmaður kom henni burt. Dómarinn flautaði þá leikinn af og jafntefli niðurstaðan. Völsungar fengu svo sannarlega betri færi í leiknum og voru hreinlega óheppnir að skora ekki tvö, jafnvel þrjú færi í fyrri hálfeik. Skyndisóknir okkar manna geta verið alveg baneitraðar og klárlega okkar helsta vopn í sumar. Það er aftur á móti mikið umhugsunarefni hvað við töpum mörgum skallaboltum, bæði á miðjunni og í teignum. Þetta getur aðeins endað á einn veg, og hann er ekki okkur hliðhollur.
Leikurinn stál í stál, jákvæðu punktarnir eru þeir að fyrsta stigið er komið í hús og okkur eru allir vegir færir. Núna þurfum við að reima markaskónna almennilega á okkur og sækja þrjú stig í næsta leik. ÁFRAM VÖLSUNGUR!!
Arnór Elí Víðisson tók myndirnar fyrir okkur og þökkum honum fyrir þær.
Tengdar greinar:
Hafþór Mar: Hér viljum við vera
Dragan: Ánægður með stigið
Athugasemdir