Hrannar Björn fyrirliði handarbrotinn - Frá keppni næstu fjórar vikurnarÍþróttir - Rafnar Orri Gunnarsson - Lestrar 1023 - Athugasemdir ( )
Hrannar Björn Bergmann Steingrímsson, fyrirliði Völsungs, kom gifsaður út um dyrnar á sjúkrahúsinu í dag og verður frá keppni næstu vikurnar eftir að hafa handarbrotnað í tapi liðsins gegn Leikni R. um helgina. Um er að ræða tvíbrot á miðhandarbeini en Hrannar verður í gifsi næstu fjórar vikurnar.
,,Ég er tæklaður snemma í fyrri hálfleik og lendi illa á hægri hendinni, heyri brak og tékka strax hvort fingur eða úlnliður hafi farið úr lið," sagði Hrannar við Fótbolta.net í dag.
,,Ég sé ekkert athugavert strax og held því áfram leik. Síðan seint um kvöldið er þetta orðið helvíti bólgið og ljótt svo ég neyddist til að kíkja upp á sjúkrahús þar sem þetta kom allt í ljós."
Fyrirliðinn verður ekki með í næstu leikjum Völsungs í 1. deildinni sem og missir af bikarævintýrinu er liðið mætir Fylki í Borgunarbikarnum á miðvikudag.
,,Það er náttúrulega skelfilegt að vera frá keppni og sérstaklega í baráttunni sem við erum í deildinni og í leiknum gegn Fylki í bikarnum á miðvikudaginn sem er auðvitað leikur sem allir Völsungar vilja spila og reyna að sýna sig og sanna á móti efstu deildar klúbbi," sagði Hrannar.
Við óskum honum góðs bata og vonumst til að sjá hann sem allra fyrst aftur á vellinum!
Hrannar Björn á fullri ferð í leiknum gegn Leikni Reykjavík.
Athugasemdir