26. okt
Veglegir vinningar í piparkökuhúsakeppni Húsavíkurstofu og SafnahússinsAlmennt - - Lestrar 360
Húsavíkurstofa og Safnahúsið á Húsavík efna til Piparköku-húsakeppni, en keppnin er hluti af aðventuhátíðinni "Jólabærinn minn" sem fer fram dagana 2. til 4. desember, en húsin verða til sýnis í Safnahúsinu frá 2. desember fram í miðjan mánuð.
"Það var mat okkar í skipulagshópi aðventuhátíðarinnar að Guðni Bragason yrði að vera formaður dómnefndarinnar, enda myndi enginn leggja í að taka þátt ef hann væri meðal keppenda," segir Örlygur Hnefill hjá Húsavíkurstofu. Ásamt þeim Örlygi og Guðna eru þær Sigríður Örvarsdóttir safnahússtjóri og Huld Hafliðadóttir hjá Húsavíkurstofu í dómnefndinni.
Verðlaunin eru vegleg en sigurvegari keppninnar fær fyrsta flokks Húsavíkurhangikjöt frá Norðlenska, gjafabréf í Sjóböðin á Húsavík, Sögu Húsavíkur að gjöf frá Norðurþingi og 10 þúsund króna gjafabréf frá Húsavíkurstofu sem gildir í verslanir og þjónustu í bænum. Annað sæti fær glaðning frá versluninni Garðarshólma, auk þess að fá Sögu Húsavíkur og 5 þúsund krónu Húsavíkurgjafabréf.
Auk þess verða veitt sérstök verðlaun fyrir besta piparkökuhús nemanda á grunnskólaaldri og hlýtur sigurvegari þar verðlaun frá Pennanum á Húsavík, Sögu Húsavíkur, gjafabréf í Sjóböðin og 5 þúsund krónu Húsavíkurgjafabréf.
Keppendur eiga að mæta með sín hús í Safnahúsið þann 1. desember þar sem tekið verður á móti þeim og þau skráð til keppni.