Ungmennaskipti Mývatn / Húsavík – Neumarkt - FerðasagaFólk - - Lestrar 612
31. júlí síðastliðinn flugu 17 ungmenni úr unglingadeildum björgunarsveitanna í Mývatnssveit og á Húsavík til Þýskalands þar sem þau dvöldu í 10 daga hjá ungmennum frá DLRG sem er vatnabjörgunarsveit í Neumarkt í Bæjaralandi. Var þarna verið að endurgjalda heimsókn þeirra frá árinu áður.
Klukkan átta að kvöldi 30. júlí lagði hópurinn af stað í langt ferðalag. Keyrt var sem leið lá til Keflavíkur á sögulegri rútu frá Rúnari en björgunarsveitirnar okkar tóku þátt í ótrúlegri björgun á fólki og bíl þegar rútan lenti út í Jökulsá árið 2000. Lítið var sofið á leiðinni enda hóparnir frá Húsavík og Mývatnssveit að hittast og margt að spjalla. Við áttum flug klukkan sjö um morguninnn og komum til München um hádegisbil en þá áttum við eftir að keyra í rúma tvo tíma. Það voru því þreytt ungmenni sem stigu út í Neumarkt.
Það var tekið alveg sérstaklega vel á móti okkur í Neumarkt og fjölskyldurnar sem við bjuggum hjá fóru með okkur eins og kóngafólk. Við byrjuðum á að skoða aðstöðu DLRG-unglingnna og reyndist hún vera í flottum sundlaugargarði. Það var líka yndislegt að fá að fara í sund eftir langt ferðalag og ekki síður eftir alla þá viðburðaríku daga sem við áttum eftir að upplifa, einnig var það upplagður staður fyrir hópefli og leik. Við fengum líka að skoða höfuðstöðvar DLRG-Byern sem eru staðsettar í Neumarkt og fórum í GPS-ratleik um borgina.
Við fórum í gönguferð um hæðirnar umhverfis Neumarkt þar sem við sáum vel yfir borgina og gátum skoðuðað kastalarústir og fallega kirkju. Gengum síðan niður í miðborg þar sem borgarstjórinn tók á móti okkur í ráðhúsinu og að sjálfsögðu var tekin mynd af hópnum með borgarstjóranum. Ákveðið var að taka myndina við brunn sem er fyrir framan ráðhúsið, ekki er ljóst hvort við misskildum eitthvað en allavega fóru allir upp í brunninn, líka borgarstjórinn og að sjálfsögðu enduðu svo allir í vatnsslag og urðu rennandi blautir. Þetta varð til þess að við lentum á forsíðu bæjarblaðsins og fengum umfjöllun um verkefnið okkar með fyrirsögninni „vatnsslagur í brunninum fyrir framan ráðhúsið”.
Toppurinn á ferðinni var líklega fyrri útilegan. Við hjóluðum um 40 km leið eftir skógarstígum og í gegnum falleg þorp í 36 stiga hita. Settum svo upp tjaldbúðir við vatn þar sem hægt var að sulla í og kæla sig eftir heita daga. Við fórum í “High-rope” garð sem er einskonar adrenalin-garður, þann dag fór hitinn upp í 37 stig en enginn kvartaði og allir kepptust við að leysa hverja þrautina á fætur annarri í trjákrónum skógarins og flugu á milli trjánna í spottum (http://www.altmuehltaler-abenteuerpark.de/kletterpark.html).
Eftir svona heita daga koma oft þrumuveður og ekki misstum við af því. Á leiðinni heim úr útilegunni fengum við yfir okkur það mesta þrumuveður sem hefur komið í Þýskalandi síðustu ár. Við vorum búin að hjóla um 13 km þegar byrjaði að rigna. Það var engin venjuleg rigning og svo bara bætti í, byrjaði að hvessa og haglél fylgdi með. Staðan var tekin og þar sem allir voru svo hundblautir var ákveðið að hjóla áfram og komast í sund í stöðinni. Allt fauk sem gat fokið og máttum við sneiða hjá trjágreinum og eplum á stígunum. Fengum í okkur köngla og annað smálegt úr trjánum svo þeir sem voru berir að ofan fundu heldur betur fyrir því. Við máttum líka snúa við og finna nýja leið þar sem stórfljót var komið yfir stíginn. Að lokum komumst allir heilir heim. Svona ferð skilar mikilli lífsreynslu og voru allir sammála um að við hefðum ekki viljað missa af þessu. Allir krakkarnir lögðu hart að sér og hjóluðu eins og fjandinn væri á hælunum á þeim, hvöttu hver annan og stóðu uppi, eins og ávallt í þessari ferð, sem hetjur.
Við fórum í lestarferð til Nürnberg þar sem við fengum að skoða kastala og þeir sem vildu fengu að fara upp í kastalaturninn, úr turninum sést yfir alla borgina og var hægt að skoða myndir af ummerkjum seinni heimstyrjaldarinnar umhverfis kastalann. Bæði Neumarkt og Nürnberg fóru mjög illa út úr stríðinu en hafa verið byggðar upp að miklu leyti eins og þær voru fyrir stríð og halda gamla stílnum með fallegum húsum og þröngum götum. Búðirnar voru einnig skoðaðar í Nürnberg og að sjálfsögðu borðuðum við þjóðarrétt þeirra, bratwurst J.
Við fengum að læra á búnaðinn þeirra og einn daginn voru um 30 ungmenni við æfingar við lítið vatn í Neumarkt. Gekk það allt mjög vel að undanskyldu að daginn eftir fannst íslenski hópurinn ekki í sundlauginni sem „hvíti” hópurinn heldur sem „rauði” hópurinn, það brunnu flestir og sumir ansi mikið. Við lærðum s.s. á margskonar björgunarbúnað, líka um gildi sólarvarnar og brunasmyrsla J.
Á áttunda degi kvöddum við fjölskyldurnar okkar í Neumarkt og tókum lest til München þar sem við gistum tvær síðustu næturnar á tjaldstæði inni í skógi í miðri borginni. Allir gistu í einu stóru tjaldi ásamt fullt af ókunnugu fólki sem var upplifum fyrir suma. Á kvöldin var vináttan efld þar sem setið var við varðeldinn, gengið um svæðið og spjallað saman en dagurinn var notaður til að skoða borgina og nokkrar búðir. Allir fengu að fara upp í útvarpsturninn á Olympíu-leikvanginum (1972) og njóta útsýnisins en frá turninum sjást Alparnir vel í góðu veðri. München er afskaplega græn og falleg borg.
Að morgni 10. ágúst var komið að kveðjustund, þjóðverjarnir fylgdu okkur á flugvöllinn. Það var erfið stund að kveðja vini sem við sjáum jafnvel aldrei aftur, en klárlega eiga sum sambönd eftir að endast og einhverjir eiga efalaust eftir að fljúga aftur yfir hafið í heimsókn.
Ungmennin sem fóru út voru Börkur, Hilmar, Kristófer, Gummi, Gunni, Brynjar, Sigurjón, María, Guðrún, Olivía, Inga, Sonja, Stefán, Sölvi, Pálmi, Ingimar og Hjörtur. Þau eru öll snillingar og fengu mikið hól frá þjóðverjunum enda stóðu sig vel í öllu sem þau tóku sér fyrir hendur. Viljum við nota tækifærið og þakka þeim fyrir frábært verkefni.
Sigrún Þórólfs og Pétur Bjarni.
Hér koma myndir úr ferðinni og með því að smella á þær er hægt að fletta þeimog skoða í stærri upplausn.