Tap fyrir Aftureldingu á heimavelliÍþróttir - - Lestrar 360
Völsungur laut í lægra haldi fyrir Aftureldingu í Mizunodeild kvenna í dag en leikið var í Íþróttahöllinni á Húsavík.
Liðin voru fyrir leikinn í 3. og 4. sæti deildarinnar og höfðu leikið jafnmarga leiki. Þetta var því gríðarlega mikilvægur leikur fyrir bæði lið enda hefur árangur í deildinni bein áhrif á það hverjir mótherjar verða í úrslitakeppninni.
Í fyrstu hrinu skiptust liðin á að hafa forystuna en Afturelding leit út fyrir að vera að sigra hrinuna þegar liðið leiddi 21-24 undir lokin. Völsungur skoraði þá 4 stig í röð og leiddi 25-24. Afturelding tók þó aftur við sér og sigraði hrinuna 26-28 eftir mikla spennu.
Í annarri hrinunni náði Afturelding strax góðu forskoti og leiddi út hrinuna. Þrátt fyrir fínan kafla hjá Völsungi um miðbik hrinunnar komust þær aldrei nálægt Aftureldingarkonum sem sigruðu hrinuna sannfærandi, 17-25. Liðsmenn Völsungs vöknuðu til lífsins í 3. hrinu og náðu í 25-20 sigur þar sem minnkaði muninn í 1-2.
Í fjórðu hrinunni kláraði Afturelding dæmið af krafti. Þær leiddu með þægilegum mun og unnu hrinuna 16-25, sem tryggði þeim mikilvægan 1-3 útisigur og nálgast 3. sætið þar sem Völsungur situr þó enn.
Ashley Nicole Dietrich skoraði 21 stig fyrir Völsung og Rut Gomez bætti við 17 stigum. Í liði Aftureldingar var Velina Apostolova stigahæst með 23 stig og Karen Björg Gunnarsdóttir skoraði 16 stig.
Eftir leikinn er Völsungur enn í 3. sætinu með 21 stig eftir 16 leiki en Afturelding er nú í 4. sætinu með 18 stig eftir 16 leiki. Bæði lið eiga tvo leiki eftir og því getur Afturelding komist upp fyrir Völsung og náð 3. sætinu. Völsungur mætir HK tvívegis næstu helgi en Afturelding fær Þrótt Nes og Þrótt Reykjavík í heimsókn í síðustu tveimur umferðum deildarkeppninnar. (Blakfréttir.is)