Sigurkarl Evrópumeistari í vaxtarræktÍþróttir - - Lestrar 448
Sigurkarl Aðalsteinsson varð Evrópumeistari í sínum flokki í vaxtarrækt í gær er hann keppti á Evrópumóti IFBB – Alþjóða-sambands líkamsræktarmanna sem haldið er í Santa Susanna á Spáni.
Sigurkarl, sem er fæddur og uppalinn húsvíkingur, keppti í flokki 55 ára og eldri undir 75 kg.
Frá þessu er greint á vefnum fitness.is en þar segir að þetta sé merkilegur áfangi þar sem þetta sé í fyrsta skipti sem Íslendingar eignast Evrópumeistara í vaxtarrækt.
Þetta er líka í fyrsta skipti sem íslenskur karlmaður nær titli af þessari stærðargráðu á þessum mótum.
Sigurkarl sem er 60 ára keppti nýverið á Íslandsmótinu sem fór fram í Háskólabíói og er í sínu besta formi. Flokkurinn sem hann keppti í var mjög öflugur en Sigurkarl kom afar vel undirbúinn til keppni og stóð uppi sem sigurvegari í flokknum.
Í dag keppir Sigurkarl í heildarkeppninni við sigurvegara í öðrum vaxtarræktarflokkum. Fjórir íslenskir keppendur eru að keppa á Evrópumótinu. Auk Sigurkarls eru það Vijona Salome, Alda Ósk Hauksdóttir og Ana Markovic.
Meðfylgjandi mynd tók Einar Guðmann ritstjóri fitness.is