Arna Védís og Heiðar Hrafn Íþróttafólk Völsungs 2019Íþróttir - - Lestrar 478
Arna Védís Bjarnadóttir og Heiðar Hrafn Halldórsson voru kjörin íþróttakona og íþróttamaður Völsungs fyrir árið 2019.
Kjörið var kunngjört á samkomu sem Völsungur hélt í salnum í Miðhvammi í dag.
Það voru Arnþór Hermannsson og Arnar Vilberg Ingólfssonar fulltrúar Íslandsbanka á Húsavík sem afhentu Íþróttafólki ársins verðlaunin.
Í umsögn segir að Arna Védís hafi þrátt fyrir ungan aldur verið burðarás í meistaraflokksliði Völsungs í blaki undanfarin ár.
Hún lék stórt hlutverk í liði Völsungs tímabilið 2018-2019 þegar liðið náði þeim frábæra árangri að spila í undanúrslitum bæði í Bikarkeppni og Úrvalsdeild Blaksambands Íslands sem er jafnframt besti árangur Völsungs í liðsíþrótt á Íslandsmóti á þessari öld.
Arna Védís var valin í landslið Íslands í blaki haustið 2018 og lék þá sinn fyrsta Landsleik fyrir Íslands hönd á Ítalíu. Arna hefur einnig leikið fyrir U19 ára landslið Íslands.
Vorið 2019 var Arna aftur valin til æfinga med A landsliðinu og er nú milli jóla og nýárs í æfingabúđum í Reykjavík þar sem lokahópur verdur valinn fyrir verkefni liđsins strax eftir áramót.
Þá er Arna Védís burðarás og leiðtogi í uppbyggingu með þeim ungu stelpum sem meistarflokkur er byggður á á þessu keppnistímabili.
Heiðar Hrafn Halldórsson langhlaupari, sem tilnefndur var af Almennings-íþróttadeild Völsungs, átti sitt langbesta á ár í sportinu til þessa.
Í umsögn segir: "Æfingar og þátttaka í öllum vegalengdum í götuhlaupum og góðar bætingar í þeim öllum, mest í 10 km hlaupi (38:45). Ungi smalinn af Tjörnesinu hljóp mun meira af fjallahlaupum en áður og gekk eðlilega mjög vel.
Var t.a.m. í topphópnum í Snæfellsjökulshlaupinu. Besta frammistaðan í fjallhlaupunum var í Sjö Tindahlaupinu. Að taka þátt í því hlaupi og ljúka, þykir hin mesta þrekraun. Þar náði Heiðar 2. sæti á tímanum 4 klst. 21 mín.. Hlaupið er 38,2 km. og heildarhækkun 1.822 metrar".
Yfirlit yfir helsta árangur ársins:
Botnsvatnshlaup Landsbankans: 33:11 – 1. sæti
Hraunhlaupið Mývatnssveit: 42:31 – 1. sæti
Sjö Tindahlaupið (38 km, 1822 m hækkun): 4:21:51 - 2. sæti
Hausthlaup UFA 10 km: 38:45 – 2. sæti
Akureyrarhlaupið 5 km: 18:45 – 3. sæti
Á topplista hlaup.is yfir bestu tíma karla í bæði maraþoni og hálfmaraþoni 2019.
Þriggja landa Maraþon 42,2 km: 03:18
Íþróttafólk Völsungs fyrir árið 2019, Arna Védís Bjarnadóttir og Heiðar Hrafn Halldórsson.
Með því að smella á myndirnar er hægt að fletta þeim og skoða í hærri upplausn.