Píluíþróttin komin til að vera á HúsavíkÍþróttir - - Lestrar 170
Píla hefur verið stunduð á Íslandi til fjölda ára og verður sífellt vinsælli enda auðvelt að stunda hana víða.
Íþróttin hefur hafið innreið sína af fullum krafti á Húsavík og fyrr á árinu var stofnuð Píludeild Völsungs. Hópur fólks, ungir sem gamlir, hafa þegar skráð sig í deildina og fer ört fjölgandi.
Frá þessu segir á heimasíðu Framsýnar.
Undanfarnar vikur og mánuði hafa félagsmenn unnið að því að standsetja aðstöðu í norðurendanum í kjallara Sundlaugar Húsavíkur. Búið er að græja þar fullkomna aðstöðu fyrir deildina sem var opnuð með formlegum hætti í gærkvöldi. Aðstaðan er um 70 fermetrar og fyrsta flokks í alla staði. Búið er að koma upp átta spjöldum með lýsingu og fullkomnum brautum. Miðað við áhugann er ekki ólíklegt að stækka þurfi húsnæðið enn frekar á komandi árum en vinnan við núverandi aðstöðu hefur verið unnin í sjálfboðavinnu. Það jákvæða við þessa íþróttagrein er að flestir ef ekki allir geta stundað íþróttina. Fjölmörg dæmi eru um að ungt fólk, sem ekki hefur fundið sig í hefðbundnum íþróttagreinunum, hafi fundið sér stað í píluíþróttinni sem er vel.
Góðir styrkir hafa fengist í verkefnið og munar þar mestu um styrk frá Norðurþingi sem lagði deildinni til eina milljón króna til uppbyggingar á nýrri aðstöðu, en húsnæðið er í eigu sveitarfélagsins. Þá styrktu Framsýn og Þingiðn verkefnið með 200.000 kr. framlagi auk þess sem stéttarfélögin hafa samþykkt að félagsmenn sem stunda íþróttina geti notað sinn heilsueflingarstyrk hjá félögunum upp í æfingagjaldið. Sú ákvörðun kemur sér afar vel fyrir félagsmenn Píludeildarinnar sem jafnframt eru félagsmenn í stéttarfélögunum þar sem þeir geta fengið allt að 50% niðurgreiðslu á æfingagjöldum. Með þessari ákvörðun vilja stéttarfélögin halda áfram að gera vel við sína félagsmenn, ekki síst þá sem stunda íþróttir sér til heilsueflingar.