1. Sértæka grein um Vaðlaheiðargöng. Greiðsluvilji vegfarendaAðsent efni - - Lestrar 212
Vegfarendur eru tilbúnir til að greiða fyrir það að stytta sér leið. Þeir eru tilbúnir að borga fyrir það að aka færri kílómetra en ella og spara með því tíma og kostnað. Fyrir tíð Hvalfjarðarganga var óljóst hversu mikils íslenskir vegfarendur mátu vegstyttingar. Hvalfjarðargöng gáfu því dýrmætar upplýsingar um hver raunverulegur greiðsluvilji vegfarenda var. Þegar göngin opnuðu 1998 var aðalgjald í þau 1.000 kr og 20% afsláttur fyrir fleiri ferðir keyptar í einu og 40% afsláttur af mörgum ferðum keyptum fyrirfram. Stórir bílar borguðu mun hærra gjald.
Verðlag hefur hækkað mikið síðan 1998 eða nánast tvöfaldast. Þetta 1.000kr gjald fyrir staka ferð árið 1998 samsvarar því nánast nákvæmlega 2.000 kr á verðlagi nú í ársbyrjun 2011. Með 20% og 40% aflsáttarkjörum 1.600 kr og 1.200 kr. Og hver var reynslan af þessu gjaldi í Hvalfjarðargöngunum sem nú samsvarar þessum tölum? Það kom í ljós að meginþorri vegfarenda var tilbúnn til að greiða þetta gjald. Um Hvalfjörð og með Akraborg var umferðin að jafnaði um 2.050 bílar á dag (ársdagsumferð, ÁDU) síðasta árið fyrir göng. Ekki nema um 250 bílar fóru um Hvalfjörðinn eftir opnun ganganna. Má því segja að umferð sem samsvaraði ÁDU 1.800 hafi flutti sig í Hvalfjarðargöngin þrátt fyrir þessa gjaldtöku. Og ekki nóg með það, mikil ný umferð kom til. Umferðin í Hvalfjarðargöngum árið 1999 var ekki ÁDU 1.800 heldur 2.938. Ljóst er að ekki nema hluti þessarar nýju umferðar var til og frá Akranesi þar sem vegstyttingin var 60 km. Það er því ljóst að mikil aukning var í umferð sem stytti sér 42 km þrátt fyrir veggjöldin. Af þessu má draga þá ályktun að gjaldið hafi verið það lágt að fjölmargir mátu það sem svo að með tilkomu ganganna væri orðið ,,ódýrara“ en áður að fara leiðina. Með göngunum væri því komin ástæða til að fara á stjá í stað þess að sitja heima. Gjaldið í göngin hefði því þurft að vera mun hærra en 2.000 kr á núverandi verðlagi til að umferðin um Hvalfjarðargöng hefði verið minni en umferðin var áður um Hvalfjörð. Hversu mikið hærra er ekki vitað nákvæmlega.
Reynslan af Hvalfjarðargöngum er því sú að vegfarendur séu ekki einungis tilbúnir til að borga gjald fyrir staka ferð sem samsvarar nú um 48 kr fyrir hvern styttan kílómetra heldur verði það gjald til þess að umferð verði meiri um nýju styttinguna en um gömlu leiðina áður. Og er þá gert ráð fyrir að 20% og 40% afsláttarkjör séu í boði.
Vaðlaheiðargöng stytta leiðina um tæpa 16 km. Í ljósi reynslunnar af Hvalfjarðargöngunum munu flestir vera tilbúnir að greiða hærra gjald en 768 kr í Vaðlaheiðargöng (með afsláttarkjörum 614 og 461 kr) fyrir að stytta sér leiðina. Hversu mikið hærra gjaldið má vera er ekki vitað en það er eðlilegt að miða við gjaldið 800 kr fyrir staka ferð og afsláttarkjör 640 og 480 kr. Yfirgnæfandi líkur eru á að við þetta gjald muni fleiri fara göngin heldur en Víkurskarðið fyrir göng samanber reynsluna af Hvalfjarðargöngum.
En nú kann einhver að spyrja hvort rétt sé að miða við breytingu almenns verðlags frá því að Hvalfjarðargöngin voru opnuð. Væri ekki réttara að horfa á bensínverð? Hvað samsvaraði gjaldið fyrir staka ferð við opnun Hvalfjarðarganga 1998 mörgum lítrum af bensíni? Á þessum tíma kostaði bensínlítrinn um 70kr og því samsvaraði 1.000 kr í veggjald um 14 lítrum af bensíni. Reiknað á sparaðan km var gjaldið þriðjungur úr lítra. Ef vegfarendur um Vaðlaheiðargöng verða einnig tilbúnir að greiða þriðjung úr bensínlítra fyrir hvern sparaðan km þá ættu þeir að vera tilbúnir að greiða sem svarar 5 lítrum af bensíni eða um1.100 kr fyrir að aka um Vaðlaheiðargöng.
Það er því nokkuð sama hvernig reynslan af Hvalfjarðargöngunum er skoðuð, engin rök finnast sem gefa það til kynna að veggjaldið 800 kr fyrir staka ferð sé of hátt. Eins finnast engin rök fyrir því að við þetta gjald muni færri fara um göngin en Víkurskarðið áður. Þvert á móti eru sterk rök fyrir því að umferðin um Vaðlaheiðargöng verði meiri við þetta gjald en um Víkurskarð áður.
Umferð verður áfram um Víkurskarð þrátt fyrir að Vaðlaheiðargöng verði gerð. Erfitt er að meta hversu mikil hún verður en það er m.a. háð því hversu hátt gjaldið verður í göngin. Ef gjaldið verður svipað á sparaðan km og í Hvalfjarðargöngum eða um 800 kr má gera ráð fyrir að umferðin um Víkurskarð verði 10-15% af umferðinni sem var þar fyrir göng, svipað og í tilfelli Hvalfjarðarganga. Umferðin sumarmánuðina þrjá er um helmingur ársumferðarinnar. Fyrir utan þann tíma er líklegt að þetta hlutfall verði mun lægra, nálægt núlli í vetrarfærð. Á sumrin er því líklegt að það verði hærra eða jafnvel um 20%.
Umfjöllun FÍB:
· FÍB slær fram spurningunni ,,hver vill borga 1.100 kr til að spara 400 kr og 9 mínútur?" Með þessari fullyrðingu er verið að reyna að koma því inn hjá lesendum að það eina sem sparist sé bensínkostnaður. Þ.e. að eini breytilegi kostnaðurinn við akstur bifreiðar sé bensínkostnaðurinn. Merkilegt að FÍB sé þessarar skoðunar, en allir sem eitthvað vita um bíla vita að auk bensíns er kostnaður svo sem smurning, dekk, ýmiskonar viðhald, verðrýrnun og fleira í hlutfalli við akstur. Þessi fullyrðing FÍB er því algjörlega óskiljanleg. Sá sem ekur Vaðlaheiðargöng sparar meira en bensínið.
· FÍB segir að tímasparnaður Hvalfjarðarganga sé 30 mínútur en Vaðlaheiðarganga 9 mínútur. Þetta þýðir að meðalhraði á Víkurskarði er 90 km/kls en í Hvalfirði 83 km/kls. Þarna virðist vísvitandi vera hallað á Vaðlaheiðargöngin, eðlilegast er að gera ráð fyrir sama hraða á báðum þessum leiðum sem báðar eru á köflum ókeyrandi á hámarkshraða.
· FÍB slær fram á vef sínum: ,,hæpið er að vegtollur umfram 500-600 kr. geti gengið. Ef tollurinn verður hærri fer fólk frekar um Víkurskarð" og er þá aftur vitnað í 9 mínúturnar og kostnaðinn sem einungis er bensínkostnaður. Í FÍB blaðinu er bætt um betur: ,,...mætti vegtollurinn í mesta lagi vera 400-500 kr., eða sem nemur bensínkostnaði.” Þessar fullyrðingar FÍB standast enganvegin miðað við reynsluna af Hvalfarðargöngum eins og útskýrt hefur verið.
· FÍB er tíðrætt um að vegfarendur hafi ekki greiðsluvilja í göngin því útsýnið sé svo fagurt af Víkurskarði á sumrin. Þarna er seilst langt til að gera verkefnið tortryggilegt. Af hverju var þá ekki blússandi umferð um Hvalfjörðinn, einn fegursta fjörð landsins þrátt fyrir Hvalfjarðargöng? Auk þess er útsýnið ekki stórkostlegt af Víkurskarðinu en það er það hins vegar af gamla Vaðlaheiðarveginum og þar aka þeir sem eru sérstaklega á höttunum eftir útsýni.
Jón Þorvaldur Heiðarsson
Höfundur er lektor við Háskólann á Akureyri
og sérfræðingur á RHA