Vinnsla á stórþara á Húsavík eða DalvíkAlmennt - - Lestrar 141
Skipulagsstofnun hefur tekið ákvörðun um að landvinnsla fyrirtækisins Íslandsþara á stórþara á Dalvík eða Húsavík skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu um helgina en endanlegt staðarval fyrir starfsemina liggur ekki fyrir. Einn staður á hafnarsvæði Dalvíkur og tveir við Húsavíkurhöfn koma til greina fyrir vinnsluhúsnæðið.
Fyrirhuguð framkvæmd felst í söfnun og vinnslu á stórþara og er gert ráð fyrir að þaranum verði safnað undan annesjum á Norðurlandi, mögulega frá Vatnsnesi við Húnaflóa allt austur að Langanesi.
Í greinargerð með ákvörðun Skipulagsstofnunar kemur fram að Íslandsþari geri ráð fyrir að vinnsla á stórþara verði á hafnarsvæði á Norðurlandi, sem næst miðsvæðis á vaxtarsvæði stórþarans. Áform eru um að reisa um 4-6 þúsund fermetra vinnsluhúsnæði ásamt aðstöðu til þróunar á starfseminni. Fyrirhugað er að vinna allt að 40 þúsund tonn á ári af stórþara þegar fullri vinnslu er náð og afurðir verði um fjögur þúsund tonn á ári af þurrefni, þ.e. um 2.500 tonn af þaramjöli, 1.200 tonn af algínötum og 350 tonn af sellulósa. Þessi efni eru notuð sem bætiefni fyrir matvæla- og lyfjamarkað.
Í áliti Skipulagsstofnunar segir að framkvæmdin hafi allar forsendur til að falla að annarri starfsemi sem fyrir sé á þeim hafnarsvæðum sem koma til greina.
Með því að smella á myndina má skoða hana í hærri upplausn.