Vil ég að barnið mitt taki upp þann talsmáta sem fullorðna fólkið tileinkar sér á netinu? Ábyrgðin er okkar!Aðsent efni - - Lestrar 966
Ég finn mig knúna til þess að skrifa grein og beini henni til allra Íslendinga en þó taka þetta auðvitað til sín þeir sem eiga. Ég er ekki að dæma alla en vonandi geta sem flestir haft þessa grein að leiðarljósi.
Fyrir þá sem ekki vita þá eiga börn og unglingar oft á tíðum mjög erfitt rétt eins og svo fjölmargir fullorðnir. Við erum land í kreppu og finnum fyrir aukinni vanlíðan og kvíða fólks og þá er mikilvægt að einblína á jákvæða umræðu og hvetja fólk áfram. Síðustu misseri hafa ótrúlega mörg ljót mál komið fram í dagsljósið og fjölmiðlar keppast um að ná fram efni sem eykur áhorf og vekur fólk til umhugsunar um hin ýmsu mál. Oft á tíðum þörf mál og fólk hefur líka þörf fyrir að koma fram og deila reynslu sinni. Gott mál.
Hins vegar er ég orðin afskaplega þreytt á því að öll eftirvinnan skuli lenda á okkur kennurum og starfsfólki í skólum! Fjölmiðlar eru greinilega ekki að pæla neitt í því hvaða afleiðingar þetta hefur allt í för með sér. Vitundarvakning er af hinu góða en má ekki kaffæra okkur alveg. Einelti er mál allra og allir ættu að vera vakandi fyrir slíku. Þetta eru oft afar erfið mál og þegar þau eru tekin fyrir sér maður ósjaldan fólk tjá sig um að nú verði skólar og kennarar að fara að hífa upp um sig buxurnar!!! Mín reynsla er sú að mörg mál sem koma inn á borð til okkar í skólanum tengjast einhverju sem er að gerast heima eftir skóla og yfirleitt á netinu. Fjölmiðlar kynna sér málin, sýna í sjónvarpinu eða birta í blöðunum og fara svo og einbeita sér að næstu frétt. Hver á að sjá um eftirmeðferðina? Hún er nefnilega oft erfiðust!
- Óvenju mörg ölvunarasktursmál koma upp og þá á að auka umferðarfræðslu í skólum!
- Nú hafa kynferðisbrot verið mikið í umfjöllun og við eigum að fræða börnin um slíkt og leita eftir einkennum!
- Of mörg börn á Íslandi eru feit og við eigum að bæta íþróttakennslu í skólum og taka í gegn nesti og matartíma!
- Það varð kreppa á Íslandi og við eigum því að leggja áherslu á fjármálafræðslu og auka fjármálavitund barna í grunnskólanum (og þá spyr enginn hvar við stöndum í pólitík)!
- Hver og einn á að njóta sín í skóla svo við eigum að passa að HVER OG EINN NEMANDI fái nám við hæfi!
Svona get ég haldið endalaust áfram en tel þetta miklu meira en nóg og nú er líka nóg komið af þessari vitleysu!!!!!
Sem móðir tel ég að þessir þættir sem ég taldi upp hér að ofan hljóti að vera inni á mínu borði sem uppalandi!
- Þarf ég ekki að fræða barnið mitt um neitt?
- Þarf ég ekki að tala við barnið mitt um neitt?
- Þarf ég ekki að skamma barnið mitt? (er allt öðrum að kenna?)
- Þarf ég ekki að passa hvað það fær að borða?
- Þarf ég ekki að kenna því hvað ber að varast og hvað ekki?
- Þarf ég ekki að kenna því helstu siði og reglur sem gilda í samfélaginu?
- Þarf ég ekki að kenna því að koma vel fram við aðra?
- Þarf ég ekki að sjá til þess að barnið mitt taki ekki þátt í að leggja aðra í einelti?
- Þarf ég ekki að leiðbeina barninu mínu þegar kemur að tölvunotkun og vera því góð fyrirmynd?????
Má ég bara fara í frí, sitja fyrir framan tölvuna og blóta fólki á facebook og í kommentakerfum þar sem skólinn sér hvort sem er um að ala barnið mitt upp!!!!!! Hvar endar þetta bull?
Eitt af því sem við tölum um við nemendur okkar í skólanum er tæknivæðingin og hvað ber að varast, hvernig þau eigi að umgangast internetið. Inn í þá umræður blandast samskipti og hvernig við eigum að koma fram við aðra. Hvað má segja á netinu og hvað ekki? Hvernig netið mótar okkur sem persónur og hvaða ímynd við gefum af okkur með því sem við skrifum. Ég kenni þeim að aðgát skal höfð í nærveru sálar!
Eina hindrunin í þessu öllu finnst mér vera fullorðna fólkið! Ég á ekki til orð yfir það hversu margir eru óábyrgir á internetinu. Það er með ólíkindum hvað fólk leyfir sér að skrifa, oftast niðrandi ummæli um aðra og virðast um leið ekki átta sig á því hvaða mynd það er að gefa upp af sjálfu sér. Fólk sér okkur eins og við erum og hvernig við komum fram!
- Hvernig á ég að kenna nemendum mínum að tala ekki illa um aðra á netinu ef fullorðna fólkið gerir það?
- Hvernig á ég að kenna nemendum mínum að maður á að koma vel fram við aðra og bera virðingu fyrir öðrum ef fullorðna fólkið gerir það ekki?
- Hvernig á ég að kenna nemendum mínum að blótsyrði eru af hinu illa ef fullorðna fólkið blótar svoleiðis á internetinu að manni svíður í hjartað?
- Hvernig á ég að kenna nemendum mínum að hver og einn einstaklingur skiptir jafn miklu máli þegar fullorðna fólkið leyfir sér að draga fólk í dilka út af minnstu ástæðum!
- Ég veit að við höfum ekki alltaf sömu skoðanir en við þurfum ekki að tjá okkur um ALLT á netinu. Sumt á bara heima hjá okkur sjálfum eða í einkasamræðum við aðila sem við treystum. Ég segi við nemendur mína að oft verðum við reið og þá getur okkur orðið á. Við verðum þó að muna að allt sem við setjum á internetið er komið til að vera. Það verður seint þurrkað út.
Alveg eins og fjölmiðlar vilja endalaust setja ábyrgðina yfir á okkur kennarana þá vil ég núna koma ábyrgðinni aðeins yfir á þá! Það vill þannig til að helstu félagsmótunaraðilar einstaklingsins eru fjölskyldan, vinirnir, skólinn og fjölmiðlar. Allir þessir aðilar eru miklir áhrifavaldar í lífi einstaklinga.
Nú skulum við öll hífa upp um okkur buxurnar og búa börnum okkar betra og öruggara umhverfi til þess að búa í. Ef við getum ekki umgengist samskiptasíður, tala nú ekki um kommentakerfi, þá eigum við ekki að fá að umgangast slíkt. Ég skora á ykkur öll að taka þessi orð mín til ykkar og hugsa áður en þið ýtið á ENTER! Við myndum ekki þora að segja helminginn af því sem við látum frá okkur á internetið ef við hefðum ekki þennan varnarvegg fyrir framan okkur sem tölvuskjárinn er. Ég hef safnað ummælum fólks en hef mig ekki í að birta þau með þessari grein, þau eru ekki birtingarhæf hér sökum ljótleika.
Ég setti mig í samband við umboðsmann barna og fékk mjög flott viðbrögð frá sérfræðingi á hans vegum. Þau deila þessum áhyggjum með mér og ég ætla að gera hans orð að mínum lokaorðum: ,,Það er hlutverk okkar allra í samfélaginu að hlúa að öryggi barna og tryggja þeim öruggt umhverfi“.
Kristjana María Kristjánsdóttir
grunnskólakennari og móðir