Verslum í heimabyggð ?Aðsent efni - - Lestrar 604
„Þetta er bærinn okkar við eigum þetta öll.“ er lína úr lagi sem er um Húsavík. Við sem búum hér sköpum þetta samfélag og viljum öll bænum okkar það besta. Við vitum líka að við þurfum að standa saman. Það er orðin regla fyrir jól og aðrar hátíðir að auglýsingar eins og verslum í heimabyggð fara að birtast.
Að sjálfsögðu þurfum við að gera þetta allan ársins hring og við getum svo sannarlega haft áhrif á hvaða þjónustu við höfum. Ef við nýtum okkur ekki það sem við höfum hverfa þessi fyrirtæki á braut. Það viljum við ekki, eða hvað?
Norðurþing hvetur okkur til að versla í heimabyggð en eru þeir fyrirmynd í þeim efnum? Nei því miður. Norðurþing hefur sagt upp samningi við fyrirtæki hér í bæ og leitar nú lengra frá eftir vörum, Borgarhólsskóli á að versla sínar vörur við A4, Stjórnsýsluhúsið kaupir pappír og dreifir á stofnanir sínar og er þar með í samkeppni við önnur fyrirtæki hér í bæ. Nýverið tóku bæði N1 og Olís þá ákvörðun að hætta að versla við Heimabakarí . Það þótti hagkvæmara að kaupa brauðið að, frysta það í stórum skömmtum og selja okkur það svo. Þess vegna spyrjum við þurfa þau fyrirtæki sem við verslum við ekki líka að versla í heimabyggð?
Við megum heldur ekki gleyma að þessi fyrirtæki gefa líka til baka til samfélagsins. Heimabakarí styrkir t.a.m. Völsung mjög vel, Bókabúðin hefur styrkt skólann mjög vel þegar kemur að tækjakaupum t.d. og svona mætti lengi telja. Það efum við að Gæða bakstur muni styrkja Völsung eða að A4 taki þátt í tækjakaupum í skólunum hér. Þetta eru bara dæmi því auðvitað eru fleiri fyrirtæki hér sem gefa til baka til samfélagsins okkar.
Er ekki kominn tími til að við sýnum samstöðu sama í hvaða flokki, starfi, félagasamtökum og þarf frameftir götum, við tilheyrum? Við viljum sýna samstöðu með fyrirtækjum hér í bæ og beina viðskiptum okkar að þeim. Ef við berjumst ekki fyrir bænum okkar hver gerir það þá? Sýnum óánægju okkar í verki og látum í okkur heyra.
Jóna Kristín Gunnarsdóttir
Unnur Guðjónsdóttir