Verkefni Rauða krossins - Heimsóknavinir

Rauði krossinn á Íslandi sinnir margvíslegum verkefnum í samfélagi okkar eins og alkunna er og eitt þeirra er Heimsóknavinir.

Verkefni Rauða krossins - Heimsóknavinir
Aðsent efni - - Lestrar 795

Rauði krossinn á Íslandi sinnir margvíslegum verkefnum í samfélagi okkar eins og alkunna er og eitt þeirra er Heimsóknavinir.

Verkefnið er eitt af áhersluverkefnum Rauða krossins á Íslandi og fór af stað árið 2001. Það ár tóku sjö deildir þátt í verkefninu sem breiðst hefur út jafnt og þétt. Tekin var ákvörðun um að Húsavíkurdeildin réðist í Heimsóknavinaverkefnið og í nóvember 2011 sat nokkur hópur sjálfboðaliða námskeið. Leiðbeinandi var  verkefnisstjóri Rauðakrossins á Íslandi, Guðný Björnsdóttir.

Markmiðið er að geta boðið íbúum á starfssvæðinu þessa þjónustu þeim að kostnaðarlausu. Starfssvæði  Húsavíkurdeildar og nágrennis nær í dag yfir Suður – Þingeyjarsýslu, austan Eyjafjarðarsvæðis.  Á þessu svæði eru félagslegar aðstæður íbúanna líkar og annars staðar í dreifbýli. Sumir búa dreift í sveitum og  aðrir í þéttbýliskjörnum.

Starf heimsóknavina er mjög fjölbreytt  þar sem það er sérsniðið að þörfum og óskum þeirra einstaklinga sem heimsóttir eru.

Hlutverk heimsóknavinar er fyrst og fremst að veita félagsskap, nærveru og hlýju. Einsemd er alvarlegt vandamál í íslensku samfélagi. Aðstæður fólks geta orðið til þess að það missir samband við aðra og einangrast. Heimsóknavinir Rauða krossins leitast við að rjúfa slíka einangrun.


Gestgjafinn, er sá sem óskar eftir heimsóknavini. Hann/hún hefur samband við Rauða krossdeildina, í þessu tilfelli hópstjóra verkefnisins, oft með milligöngu starfsfólks dvalarstaðar eða aðstandenda. Hópstjórinn sem heldur utan um verkefnið sér um samningsgerð milli gestgjafans og heimsóknavinar og tekur við ábendingum eða kvörtunum ef einhver áhyggjuefni koma upp.  Gestgjafinn getur verið ungur eða aldraður og búið við margs konar aðstæður og haft áhugamál af ýmsum toga.      

Í september s.l. hófst samvera heimsóknavina og gestgjafa á ný eftir sumarleyfi. Reynslan frá s.l. vetri er að okkar mati góð en heimsóknir hófust ekki fyrr en í febrúar 2012 og reynslutíminn því stuttur. Helmingur heimsóknavina sem voru á samningi s.l. vetur halda áfram hjá sínum gestgjafa. Hjá öðrum eru breyttar aðstæður.

Í október 2012 bættust níu manns í hóp heimsóknavina sem eru þá orðnir sextán að tölu, þar af tveir með hunda sem hafa leyfi sem heimsóknahundar.

Hópstjórar Heimsóknavina Húsavíkurdeildarinnar halda utan um verkefnið, taka við umsóknum,  gera samninga milli gestgjafa og heimsóknavina, sjá sjálfboðaliðum fyrir fræðslu, kynna þjónustuna og taka við ábendingum.

Hópstjórar eru;

Sólveig Mikaelsdóttir sími 464 1466 eða 895 0466

og Þórhildur Sigurðardóttir sími; 464 2157 eða 898 2157.

 

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744