Vel heppnuð æfing með TF-LÍFAlmennt - - Lestrar 766
“Þessar æfingar eru mjög þýðingarmiklar og gera meðlimi sveitarinnar mun betur undirbúna fyrir vinnu með þyrlunni í framtíðinni s.s við móttöku á slysstað eða öðrum vettvangi”. Sagði Guðbergur Rafn Ægisson formaður Björgunarsveitarinnar Garðars sem æfði með þyrlusveit Landhelgisgæslunnar í gær.
Þyrlan kom hér síðdegis á fimmtudag og um kvöldið var haldið námskeið í móttöku þyrlu og umgengni við hana. Að því loknu var þyrlunni flogið til Akureyrar þar sem áhöfnin gisti. Og hingað kom hún aftur um hádegisbil í gær og verklegar æfingar hófust.
Æfingarnar í gær fólust m.a í því að hífa menn úr sjó, úr gúmmíbát og sækja mann um borð í hvalaskoðunarbátinn Sylvíu.
Þá var æfing upp á melnum ofan Stallalyftunnar þar sem farið var í börubjörgun, upphífingar með tengilínu og móttöku á sigmanni. Að sögn Guðbergs tókust þessar æfingar vel í alla staði og menn ánægðir með verk dagsins.
Og Guðbergur segir ýmsa konfektmola oft leynast í björgunarsveitarstarfinu og einn slíkur kom í ljós í gær. “Æfingaferlið endaði á því að við sem þátt tókum í fengum að fara í smá flugferð yfir Húsavík í þyrlunni sem bónus fyrir störf okkar í björgunarsveitinni og það var mjög gaman”: Sagði Guðbergur en tólf börgunarsveitarmeðliðir tóku þátt í æfingunum.
Hér að neðan eru nokkrar myndir frá æfingunum og myndband einnig.