Veglegur styrkur til Styrktarfélags HSN í ÞingeyjarsýslumAlmennt - - Lestrar 549
Nýverið barst Styrktarfélagi HSN í Þingeyjarsýslum veglegur styrkur frá fyrirtæki í Út-Kinn.
Stjórn hlutafélagsins Raflækur ehf sem stofnað var árið 2004, um byggingu og rekstur virkjana í Nípá, ákvað að styrkja félagið um eina milljón króna.
Að sögn Eiðs Jónssonar, stjórnarformanns félagsins, hefur rekstur þess gengið vel og hafi því tök á að láta gott af sér leiða í nærsamfélaginu.
Stjórn Styrktarfélagsins þakkar kærlega fyrir þennan frábæra stuðning við félagið. Það er ljóst að þessir fjármunir munu koma sér vel við endurnýjun tækjabúnaðar á starfsstöðvum HSN í Þingeyjarsýslum.
Hluthafar í Raflækur ehf. eru fimm talsins, þ.e. ábúendur á Nípá, Ártúni, Árteigi I og II og Granastöðum.
Tvær virkjanir eru nú í Nípá. Fyrri virkjunin var gangsett árið 2006 og sú síðari, sem byggð var ofar í fjallinu, fór í gang árið 2009. Þannig er vatnsafl árinnar tvívirkjað og fæst úr því 1183 kW afl og er ársframleiðslan um 9.500.000 kWh sem selt er inn á dreifikerfi Rarik.
Félagið er með samning við OR í Reykjavík um kaup á orkunni.
F.v. Daníel Borgþórsson, formaður styrktarfélagsins, Eiður Jónsson stjórnarformaður Raflæks ehf. og Guðrún Guðbjartsdóttir gjaldkeri styrktarfélagsins.