Útskrift 17 nemenda úr farkennaranum, íslenskunám á vinnustaðAlmennt - - Lestrar 153
Í dag luku 17 nemendur frá Norðurþingi íslenskunámi á vinnustað á vegum Þekkingarnets Þingeyinga.
Frá þessu segir á heimasíðu Þekkingarnetsins en námið er hluti af verkefninu Farkennarinn – íslenska á vinnustað, sem miðar að því að færa íslenskukennslu út fyrir hefðbundnar kennslustofur og inn á vinnustaði, þar sem kennt er á vinnutíma starfsmanna. Markmið verkefnisins er að auka íslenskukunnáttu innflytjenda og auðvelda þeim að taka virkan þátt í samfélaginu.
Kennslan fór fram tvisvar í viku undir stjórn Dóru Ármannsdóttur íslenskukennara. Lögð var áhersla á hagnýta þjálfun sem tengdist raunverulegum aðstæðum á vinnustöðunum. Að sögn Dóru sýndu nemendur verulegar framfarir á skömmum tíma, bæði í orðaforða og færni til að nota íslenskuna í daglegu starfi.
Verkefnið er í samvinnu Norðurþings og Fjölmenningarfulltrúa þess, Nele Marie Beitelstein. Norðurþing hefur fjárfest í aðgengi að smáforritinu Bara tala til að styðja við íslenskunám nemenda. Bara tala gerir nemendum kleift að læra íslensku í gegnum sitt eigið móðurmál eða á ensku, sem hefur reynst afar gagnlegt.
Að auki var framkvæmd ítarleg greining á þörfum þátttökustaða áður en kennslan hófst, þar sem lögð var áhersla á að aðlaga námsefnið að sérstökum þörfum hvers vinnustaðar. Þetta snið hefur reynst sérlega vel þar sem fjarkennsla er ekki raunhæfur valkostur.
Farkennarinn – íslenska á vinnustað hefur þegar skilað áþreifanlegum árangri og hefur skapað mikilvæg tækifæri fyrir innflytjendur til að auka færni sína í íslensku. Samstarf Þekkingarnetsins og Norðurþings lofar áframhaldandi spennandi verkefnum á sviði íslenskukennslu.