Ungt fólk er ekki bara framtíðin

Það er gott að búa í Norðurþingi, þess vegna búum við hér.

Ungt fólk er ekki bara framtíðin
Aðsent efni - - Lestrar 54

Það er gott að búa í Norðurþingi, þess vegna búum við hér.

Lengi má þó gott bæta og það er einn hópur sem verður oft útundan í hinni pólitísku umræðu, það er unga fólkið í samfélaginu okkar. Í Norðurþingi búa tæplega 400 einstaklingar á aldrinum 16-25 ára, hópur sem að stundar hér nám eða vinnur í sveitarfélaginu. Þetta er sá hópur sem er mér mest hugleikinn enda sá hópur sem ég tilheyri. 

Það eru margar ástæður fyrir því að ungt fólk kýs að búa í Norðurþingi, má þar nefna nálægð við fjölskyldu, þéttleika samfélagsins að ógleymdri taumlausri fegurð sveitarfélagsins. En eitt það heillar mig allra mest eru tækifæri ungs fólks til að taka þátt í samfélagslegri umræðu og beita sér á lýðræðislegan hátt. Það er nefnilega ekki sjálfgefið að raddir ungs fólks heyrist á hinum pólitíska sviði og því gleymist sá hópur oft í umræðunni. Ég hef undanfarin ár setið í ungmennaráði Norðurþings og gegnt formennsku þar. Á þeim vettvangi hef ég beitt mér fyrir aukinni lýðræðisþátttöku ungmenna og átt gott samtal við sveitarstjórnaryfirvöld. Næsta skref fyrir mig var því að fara sjálf í framboð og sit ég því í 6. sæti á S-lista Samfylkingarinnar og annars félagshyggjufólks í Norðurþingi. Þar vinn ég með fólki sem hefur skýra framtíðarsýn og hlustar á raddir ungs fólks í málum sem hafa bein áhrif á framtíðina, því ungt fólk er svo sannarlega framtíðin.

Ungt fólk er þó ekki bara framtíðin, við erum hérna núna og við erum ekki að fara neitt. Mér finnst því gríðarlega mikilvægt að þessi hópur fái þá þjónustu sem hann skortir í sveitarfélaginu okkar. Eitt af því sem ég hef barist fyrir í ungmennaráði er að sveitarfélagið skaffi ungmennum sem hér búa húsnæði þar sem þau geta tekið þátt í fjölbreyttu félagsstarfi skipulagt af ungu fólki, fyrir ungt fólk. Við hjá S-listanum ætlum að koma þessu máli í gegn, byggja á nýtt fjölhæft frístundahúsnæði á Húsavík þar sem ungt fólk mun hafa varanlega stað til að hittast, vera með skipulagt félagsstarf og hafa aðstöðu til listsköpunar. Við þurfum að líta til þess að gera slíkt hið sama á Kópaskeri og Raufarhöfn þar sem sömu tækifæri eru til staðar ef sveitarfélagið er viljugt til að beita sér. 

Kæri ungi kjósandi, leyfum ekki öðrum að kjósa um framtíðina okkar. Tökum afstöðu, tökum þátt í lýðræðinu og tryggjum að kjörnir fulltrúar vinni að framtíðarsamfélagi sem virkar fyrir alla!

Bergdís Björk Jóhannsdóttir,

Höfundur skipar 6. sæti á framboðslista S-lista Samfylkingar og annars félagshyggjufólks í Norðurþingi


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744