Unga fólkið og framtíðinAðsent efni - - Lestrar 424
Eitt af verkefnum sveitafélaga er að tryggja aðgang barna og unglinga að fjölbreyttu tómstundastarfi. Það er gert með því að bjóða upp á fjölbreytta afþreyingu fyrir sem flesta aldurshópa. Rannsóknir sýna að unglingar sem taka þátt í skipulögðu tómstundarstarfi falla síður fyrir freistingum vímuefna og standa betur félagslega. Forvarnir og forvarnarvinna er rauði þráðurinn í öllu slíku starfi.
Íþróttafélögin eru annar vettvangur sem er mikilvægur í uppbyggingu og forvörnum. Þau kenna börnum og unglingum lífsstíl sem verður hluti af heilbrigðu líferni þeirra til frambúðar. Þátttaka barna og unglinga í íþróttum hér sveitafélaginu hefur verið mjög góð. Mörg börn og unglingar sækja á önnur mið til að þroska félagsfærni sína. Því er mikilvægt að sveitafélagið standi þétt við bakið á öðrum tækifærum til að ungt fólk geti notið sín á eigin forsendum og átt í samskiptum við jafnaldra sína. Þar koma félagsmiðstöðvarnar afar sterkar inn og eru góður vettvangur til að ná inn þessum hópi, sem oft er fámennur og fer lítið fyrir.
Í sameinuðu sveitarfélagi er mikilvægt að auka og bæta samstarf og vináttu á milli skóla og félagsmiðstöðva. Það er hægt með því að halda sameiginlega viðburði, vinna saman og skipuleggja einstök verkefni og síðast en ekki síst með því að starfa saman í því sem við viljum kalla ,,unglingaráð“. Þar hittast ungmenni í sveitarfélaginu, deila skoðunum sínum og reynslu, og þannig fá allar raddir að heyrast. Slíkt verkefni er góður grunnur fyrir áframhaldandi samstarf. Öll slík samvinna ætti einungis að vera hagnaður fyrir Framhaldsskólann á Húsavík sem stefnir að því að fá til sín sem flesta nemendur úr grunnskólunum hér í sveitarfélaginu.
Sjálf hef ég unnið með ungt fólk í félagsmiðstöðvum síðustu ár og veit hversu mikilvægt starfið er fyrir krakkana. Unga fólkið okkar er alveg frábært, svo duglegt og áhugasamt að við ættum ekki að þurfa að kvíða framtíðinni með þau í fararbroddi. En það er á okkar ábyrgð að tryggja þeim verkefni við hæfi og gera sveitarfélagið okkar að þeim stað sem þau koma til með að vilja búa á í framtíðinni. Þar skiptir gott og öflugt félags- og mannlíf miklu máli.
Kristjana María Kristjánsdóttir
Skipar 11. sæti á B-lista
Framsóknarflokks í Norðurþingi.